Víetnam og Úkraína

frettinPistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Norður-Víetnamar unnu ekki eina orustu gegn Bandaríkjamönnum í Suður-Víetnam á sjöunda áratug síðustu aldar. En allir sigrar Bandaríkjamanna komu fyrir lítið. Norður-Víetnamar unnu stríðið.

Í vestrænum fjölmiðlum, sjá t.d. hér, er gefið til kynna að Rússar séu í sömu sporum í Úkraínu og Bandaríkin í Víetnam fyrir hálfri öld. Ef þessi leið verður farin, segir leiðarahöfundur Die Welt, þýddi það óhemju mannfórnir.

Samjöfnuðurinn við Víetnam er langsóttur. Úkraína er að stórum hluta byggð Rússum, einkum austurhéruðin, þar sem bardagar eru harðastir. Stríðið í Garðaríki er borgarastyrjöld og væri innansveitarkróníka ef stjórnin í Kænugarði nyti ekki stuðnings vesturlanda.

Úkraínustríðið er 100 daga. Stoltenberg forstjóri Nató segir að stríðið gæti varað í einhver ár. Það er ólíklegt. Rússar eru við það að sigra austurhéruðin, Donbass, segir þýskur hernaðarsérfræðingur. Opin spurning er hvað verði eftir af úkraínska hernum. Tvennum sögum fer af herfræðinni. Ein er að stjórnin í Kænugarði sé tilbúin að fórna fremur mannskap en landi en hin að undanhaldið sé skipulagt og landi fremur fórnað en hermönnum.

Herirnir eru álíka stórir, hvor um 200 þús. Munurinn er sá að Rússar eiga til vara um eina milljón skráða hermenn. Úkraína er ekki með þá dýpt í mannafla.

Stjórnin í Kænugarði er vestrænt verkefni og hefur verið frá stjórnarbyltingunni 2014. Refsiaðgerðir vesturlanda gegn Rússland setja efnahagskerfi Evrópu og Ameríku í uppnám en virðast ekki knýja Rússa til uppgjafar. Þegar haustar verður spurt hversu miklar byrðar almenningur á vesturlöndum eigi að leggja á herðar sér til að Donbass-Rússar verði áfram innan landamæra Úkraínu.

Mestu mistökin, og meginástæða stríðsins sem nú er 100 daga, liggja í pólitík. Allt frá stjórnarbyltingunni 2014 og innlimun Krímskaga var hægt að semja án stórátaka. Tvo þurfti í þann friðartangó. En það var ekki dansað. Skotgrafir voru grafnar og heitstrengingar hafðar í frammi.

Að þessu leyti líkist Úkraína Víetnam. Ráðandi hugmyndafræði á vesturlöndum eftir seinna stríð var að sovésk-kínverskur kommúnismi ógnaði heimsbyggðinni. Víetnamstríðið var háð samkvæmt dómínókenningunni; félli Víetnam fær suðaustur Asía í heild sinni undir kommúnisma. Eftir það öll lönd í álfunni að Miðjarðarhafi og heimurinn í framhaldi. Í raun snerist Víetnamstríðið um að bændaþjóð vildi sitt eigið ríki.

Ríkjandi hugmyndafræði í dag er að Rússland, Pútín sérstaklega, vilji endurvekja Sovétríkin. Falli Úkraína færu Eystrasaltslöndin næst, og þar á eftir Pólland, undir Rússland. Í raun snýst Úkraínustríðið, séð frá sjónarhóli Rússa, um öryggi ríkisins. Úkraína sem Nató-land ógnar tilvist Rússlands. Pútín hefur aldrei sýnt áhuga að leggja undir sig smáríkin við Eystrasalt og enn síður Pólland.

Hugmyndfræði er sterkt afl, mótar stöðumat og aðgerðir. Hugmyndafræði vesturlanda gagnvart Rússlandi er röng, eins og hún var röng í Víetnam fyrir 60 árum.

One Comment on “Víetnam og Úkraína”

Skildu eftir skilaboð