Hvað merkir hugtakið kona? – Matt Walsh leitar svars í heimildarmynd

frettinErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Hugtakið "kona" virðist vefjast fyrir stöðugt fleirum á Vesturlöndum. Formaður Verkamannaflokks Breta gat ekki svarað því nýlega í viðtali á LBC hvort konur gætu haft typpi og Ketanji Brown Jackson, verðandi Hæstaréttardómari í Bandaríkjunum, hafnaði því að skilgreina hugtakið er hún sat fyrir svörum í nefnd sem átti að meta hæfi hennar og svaraði því til að hún væri ekki líffræðingur. Hvernig hún ætlar að dæma í málum er varða réttindi kvenna ef hún veit ekki hvað kona er er ekki ljóst.

Matt Walsh, höfundur allegórísku barnabókarinnar (transádeilunnar) Johnny the Walrus (2021), ákvað að reyna að komast til botns í málinu og hefur gefið út heimildamynd um leit sína að sannleikanum um hvað kona er og heitir hún einfaldlega What is a Woman? Til að horfa á hana þurfa menn að vísu að gerast áskrifendur að Daily Wire í a.m.k. einn mánuð og borga 14 dollara fyrir mánuðinn. Kynningarmyndbandið má sjá hér.

Í myndinni skiptir Walsh oft um sjónarhorn. Hann talar ýmist við sérfræðinga, stjórnmálamann, fólk á götunni og jafnvel Masaímenn í Kenya (sem höfðu aldrei heyrt á kynskipti minnst). Einnig tæpir hann á umdeildum málum sem komist hafa í fréttirnar. Þar á meðal er fréttin um sýnissjúka pervertinn sem fékk að bera sig í heilsulindinni Wi Spa í Los Angeles af því hann sagðist vera kona og málið í Loudoun sýslu, BNA, þar sem skólayfirvöld þögguðu niður nauðgun á stúlku af því að gerandinn gekk í pilsi og sagðist vera trans og létu þar að auki handtaka föður stúlkunnar í beinni útsendingu er hann kvartaði á opinberum fundi.

Matt Walsh með skilti í kvennagöngunni

Sérfræðingarnir gerast sumir fjandsamlegir ef Walsh notar ekki "rétt" orðalag. Háskólasálfræðingnum, Patrick Grzanka fannst t.d. að Walsh sagðist leita sannleikans vera óþægilegt og transfóbískt - orðið "sannleikur" væri niðurlægjandi og dónalegt. Walsh spurði hann áhugaverðrar spurningar: Hvað ef einstaklingur hefur öll einkenni karlmanna, er hann þá ekki karlmaður? - en fékk ekki svar. J.K. Rowling var greinilega að velta því sama fyrir sér þegar hún gagnrýndi að líffræðilegir karlar sem nauðguðu konum gætu fengið að fara í kvennafangelsi, sem konur.

Talað var við geðlækni af gamla skólanum, Miriam Grossman, sem sagði að 1 af 30.000 til 1 af 110.000 upplifði sig í röngum líkama og það ylli þeim þjáningum en nú vildu börn sem ekki hefðu slíka sögu mörg skyndilega skipta um kyn. Hún rekur þá þróun til óvísindalegra rannsókna Alfred Kinsey, sem hefði talið börn kynverur frá fæðingu, og til John Money sem hefði komið fram með hugtakið "gender identity." Hún sagði einnig frá örlögum Reimar tvíburanna og hvernig Money hefði eyðilagt líf þeirra og að viss öfl vildu ekki að saga Kinsey og Money fengi að heyrast.

Algjörlega andvígur því að börn séu leidd inn á þessa braut

Stjarna myndarinnar er þó Scott Newgent frá Texas sem var kona og móðir en fór í kynskiptiaðgerð 42 ára að aldri. Hann segist aldrei verða karlmaður (lítur samt þannig út). Ef fornleifafræðingar myndu finna beinagrind sína einn dag þá myndu þeir greina sig sem konu og sjá að hann hefði eignast börn, sagði hann. Hann segir að þessar aðgerðir séu mjög dýrar og aukaverkanir algengar. Sjálfur þurfti hann að fara 7 sinnum í aðgerð, fær sýkingar á nokkurra mánaða fresti og óttast að hann lifi ekki lengi. Að auki hjálpi kynskiptiaðgerðir ekki fólki, sá hópur sé í mestri sjálfsvígshættu af öllum er 7 til 10 ár eru liðin frá aðgerð. Hann er algjörlega andvígur því að börn séu leidd inn á þessa braut,  það sé lygi að lyf sem stöðvi kynþroskann séu ekki skaðleg og hefur stofnað samtök til að vernda börn fyrir transaktívistum.

Undir lok myndarinnar er talað við Jordan Peterson. Hann segir að þegar menn tali um kynvitund þá séu þeir í raun að tala um persónuleika og skapgerð. Sumar konur, kannski 10% þeirra, hafi karlmannlega skapgerð og karlar geti verið kvenlegir en í raun sé ekki svo mikill munur á milli kynjanna hvað skapgerð varðar. Hann lýsir áhyggjum sínum af starfsskilyrðum sálfræðinga og lækna. Segi þeir eitthvað sem talið sé  á skjön við pólitíska rétthugsun þá sé þeim ekki lengur vært í starfi. Það auki líkur á að þeir samsinni sjúklingum og leyfi þeim að greina sig sjálfir eða skrifi upp á lyf  til að losna við þá. Hvernig eigi það að geta gengið upp, spyr hann.

Myndina út í gegn gengur Walsh illa að fá svar við spurningu sinni  og er hann spyr Jordan Peterson þá fær hann svarið: "Kvænstu einni og þú kemst að því". Hann fer því heim og spyr konuna sína, sem segir honum að kona sé "fullorðin kvenkyns mannvera" og virðist hann sáttur við þá skilgreiningu.

Skildu eftir skilaboð