Michael Hudson: Eru Bandaríkin/NATO (með hjálp WEF) að reyna að koma á hungursneyð í Suðurálfu?

ThordisErna Ýr Öldudóttir, PistlarLeave a Comment

Þýdd grein eftir bandaríska hagfræðiprófessorinn og rithöfundinn Michael Hudson, sem birtist á hans eigin heimasíðu þann 6. júní sl.

Ýmsir muna ef til vill eftir Michael Hudson sem Íslandsvini, en hann gagnrýndi íslensk stjórnvöld í Morgunblaðinu í apríl árið 2011 og hvatti Íslendinga til að hafna greiðslu ICESAVE skuldanna. Á heimasíðu hans segir að hann hafi veitt Kína, Íslandi og Lettlandi efnahagsráðgjöf.

Er staðgengilsstríðið (e. proxy war) í Úkraínu aðeins forsmekkurinn að einhverju umfangsmeira, sem felur í sér hungursneyð í heiminum og gjaldeyriskreppu í löndum með matvæla- og olíuhalla?

Mun fleiri eru líklegir til að farast úr hungri og efnahagshamförum en á vígvellinum í Úkraínu. Það er því við hæfi að spyrja hvort það sem virtist vera staðgengilsstríð í Úkraínu sé hluti af stærri áætlun Bandaríkjanna um að geirnegla völd sín yfir alþjóðaviðskiptum og greiðslum. Við erum að sjá fjárhagslegt valdarán Bandaríkjadollarsins á Suðurálfu sem og Vestur-Evrópu. Hvernig geta löndin haldið sér fjárhagslega á floti án dollaralána frá Bandaríkjunum og dótturfélagi þeirra, Alþjóðagjaldeyrissjóðinum? Hversu hart munu Bandaríkin ganga fram til að koma í veg fyrir að löndin hætti að nota dollara og afþakki að vera undir efnahagsáhrifum Bandaríkjanna?

Kaldastríðs-stefna Bandaríkjanna er ekki ein um að skipuleggja hvernig á að hagnast á því að valda hungursneyð og olíu- og greiðslujafnaðarkreppu. Klaus Schwab, stofnandi og skipuleggjandi Alþjóðaefnahagsráðsins (e. World Economic Forum, WEF) hefur áhyggjur af því að heimurinn sé of fjölmennur - að minnsta kosti með „röngum tegundum“ fólks. Eins og Microsoft-góðmennið (hefðbundið skammaryrði fyrir einokunarleigusala) Bill Gates hefur sagt: „Mannfjölgun í Afríku er áskorun.“ Í skýrslu hagsmunastofnunar hans um „Markverði (e. Goalkeepers)“ árið 2018 er eftirfarandi viðvörun: „Samkvæmt gögnum Sameinuðu þjóðanna er búist við að í Afríku verði meira en helmingur fólksfjölgunar í heiminum á milli áranna 2015 og 2050. Spáð er að íbúafjöldi hennar muni tvöfaldast árið 2050,“ með „meira en 40 prósent af mjög fátæku fólki í heiminum … í aðeins tveimur löndum: Lýðveldinu Kongó og Nígeríu.“

Gates talar fyrir því að draga úr þessari áætluðu fólksfjölgun um 30 prósent, með því að bæta aðgengi að getnaðarvörnum og auka menntun til að „gera fleiri stúlkum og konum kleift að vera lengur í skóla, og eignast börn seinna.“ En hvernig er hægt að hafa efni á því með yfirvofandi matar- og olíuþurrð sumarsins á fjárlögum ríkisins?

Hagfræðilíkön nýfrjálshyggjunnar (e. neoliberal) taka ekki tillit til lýðfræðilegs hruns sem stefnan veldur. En tilhneigingin er svo algild og svipuð að auðvitað er hún afleitt tjón (e. collateral damage) af bandarískri utanríkisstefnu. Spurningin er, er um meira en bara „góðviljaða vanrækslu“ að ræða? Á hvaða tímapunkti verður fólksfækkunarstefnan meðvituð? Það þarf ekki nema að horfa á hörmungarnar í Eystrasaltslöndunum. Frá 1991 hefur íbúum Lettlands, Eistlands og Litháen fækkað um meira en 20%, fyrst og fremst vegna þess að fólk á vinnualdri hefur þurft að flytjast til annarra hluta Evrópu til að finna vinnu. Nýfrjálshyggjustefnan drepur - eins og heimurinn sá í Rússlandi eftir 1991, og bergmálar í Úkraínu.

Suður-Ameríkuþjóðir og sum Asíulönd verða fyrir svipuðum áhrifum af hækkun innflutningsverðs sem stafar af kröfum NATO um að einangra Rússland. Jamie Dimon, yfirmaður JPMorgan Chase, varaði nýlega fundarmenn á fjárfestaráðstefnu á Wall Street við því að refsiaðgerðirnar muni valda alþjóðlegum „efnahagslegum fellibyl“. Hann endurómaði viðvörun Kristalinu Georgieva, framkvæmdastjóra Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, í apríl: „Til að orða það skýrt: Við stöndum frammi fyrir kreppu ofan á kreppu.“ Hún benti á að ofan á Covid-faraldurinn hafi bæst verðbólga, og stríðið í Úkraínu gerði málið „miklu verra og ógnaði með aukningu enn frekari ójafnaðar“. Hún sagði að lokum: „Efnahagslegar afleiðingar stríðsins dreifast hratt og víða, til nágrannaríkjanna og lengra, og lendir harkalegast á fólki í viðkvæmri stöðu. Hundruð milljóna fjölskyldna voru þegar að basla með lægri tekjur og hærra orku- og matarverð.“

Ríkisstjórn Biden kennir Rússum um „tilefnislausa árásargirni.“ En það er þrýstingur stjórnar hans á NATO og önnur fylgitungl á dollarasvæðinu sem hefur hindrað útflutning Rússa á korni, olíu og gasi. Mörg lönd með olíu- og matvælaskort líta á sig sem helstu fórnarlömb „afleidds tjóns“ af völdum þrýstings Bandaríkjanna/NATO.

Er hungursneyð og greiðslujöfnunarkreppa í heiminum vísvitandi stefna Bandaríkjanna/NATO?

Þann 3. júní sl. fór formaður Afríkusambandsins og forseti Senegal, Macky Sall, til Moskvu til að skipuleggja hvernig hægt væri að forðast röskun á matvæla- og olíuviðskiptum Afríku, með því að neita að verða peð í refsiaðgerðum Bandaríkjanna/NATO. Það sem af er árinu 2022 sagði Pútín Rússlandsforseti: „Viðskipti okkar eru að vaxa. Á fyrstu mánuðum þessa árs uxu þau um 34 prósent.“ En Sall forseti Senegal lýsti áhyggjum af því að: „Refsiaðgerðir gegn Rússlandi hafa gert ástandið verra og nú höfum við ekki aðgang að korni frá Rússlandi, fyrst og fremst að hveiti. Og síðast en ekki síst, við höfum ekki aðgang að áburði.“

Afríkusambandið er ekki stefnumótunareining. Raunhæf viðbrögð munu krefjast mikils þunga og það þýðir að þau verða að koma samanlagt frá Kína og Rússlandi. Stofnanaleg viðbrögð og bandalag á þeirri línu er það sem þrýstingur Bandaríkjanna/NATO miðar að því að koma í veg fyrir. Bandarískir stjórnarerindrekar neyða lönd til að velja, með orðum George W. Bush, „þið eruð annað hvort með okkur eða á móti okkur.“ Prófsteinninn er hvort löndin séu tilbúnin til að þvinga íbúa sína til að svelta og loka hagkerfum sínum vegna skorts á mat og olíu, til að stöðva viðskipti við Evrasíukjarnann Kína, Rússland, Indland, Íran og nágranna sína.

Almennir vestrænir fjölmiðlar lýsa röksemdunum á bak við refsiaðgerðirnar sem til að stuðla að stjórnarbreytingum í Rússlandi. Vonast hafi verið til að koma í veg fyrir að landið seldi olíu og gas, matvæli eða annan útflutning, sem myndi lækka gengi rúblunnar og „koma Rússlandi til að ýlfra“ (eins og Bandaríkin reyndu að gera við Allende í Chile til að leggja grunn að stuðningi þeirra við valdarán Pinochet). Útilokun frá SWIFT greiðslukerfinu átti að trufla greiðslukerfi Rússlands og sölu. Hald var lagt á á 300 milljarða dala gjaldeyrisforða Rússa sem geymdur er á Vesturlöndum. Þannig átti að rústa rúblunni og koma í veg fyrir að rússneskir neytendur gætu keypt vestrænar vörur eins og þeir voru orðnir vanir. Hugmyndin (og hún virðist svo kjánaleg þegar litið er til baka) var sú að rússneskur almenningur myndi gera uppreisn til að mótmæla því hversu dýr vestræn lúxusvara yrði. En rúblan hækkaði í staðinn fyrir að hrynja, og Rússland skipti SWIFT fljótt út fyrir sitt eigið kerfi tengt Kína, og Rússneskur almenningur fór að snúa baki við fjandskap Vesturlanda.

Augljóslega vantar nokkrar stórar víddir í þjóðaröryggislíkön bandarískra hugveitna. En þegar kemur að hungursneyð á heimsvísu, var leynileg og jafnvel umfangsmeiri stefna að verki? Nú lítur út fyrir að meginmarkmið stríðs Bandaríkjanna í Úkraínu hafi allan tímann aðeins verið að þjóna sem hvati, afsökun fyrir því að beita refsiaðgerðum sem myndu trufla matvæla- og orkuviðskipti heimsins. Að stýra þessari kreppu þannig að hún gerði bandarískum stjórnarerindrekum færi á að ekki aðeins að læsa Vestur-Evrópu inni, heldur mæta Suðurálfu með valinu „Hollusta og nýfrjálshyggja eða lífið – og í leiðinni að „þynna út“ íbúafjölda blökkumanna heimsins sem Gates og WEF hafa svo miklar áhyggjur af?

Það hlýtur að hafa verið gerður eftirfarandi útreikningur: Rússland stendur fyrir 40% af kornviðskiptum heimsins og 25% af heimsmarkaði áburðar (45 prósent ef Hvíta-Rússland er talið með). Sérhver sviðsmynd hefði falið í sér útreikning á því að ef svo mikið magn af korni og áburði væri tekið af markaði myndi verð hækka mikið, rétt eins og það hefur gert á olíu og gasi. Með því að fylla úkraínskar hafnir og Svartahafið með flotsprengjum, hindra greiðslur til Rússlands í dollurum eða tengdum gjaldmiðlum, og beita refsiaðgerðum gegn löndum sem eiga viðskipti við Rússland, ylli það augljóslega hamförum á heimsmarkaðsverði á korni og orku.

Til viðbótar við hættuna á greiðsluþroti fyrir lönd sem þurfa að flytja inn þessar vörur, hækkar verðið á dollurum til að greiða erlendum skuldabréfaeigendum og bönkum fyrir skuldir sem falla á gjalddaga. Aðhald í vaxtastefnu Seðlabanka Bandaríkjanna hefur valdið hækkandi álagi á Bandaríkjadal fyrir evrur, sterlingspund og myntir Suðurálfu.

Það er óhugsandi að ekki hafi verið tekið tillit til afleiðinga þessa á lönd utan Evrópu og Bandaríkjanna, því hagkerfi heimsins eru samofin. Flestar raskanir eru á bilinu 2 til 5 prósent, en refsiaðgerðir Bandaríkjanna/NATO í dag eru svo langt frá sögulegum sveiflum að verðhækkanir munu verða talsvert yfir sögulegu hámarki. Ekkert þessu líkt hefur gerst í seinni tíð.

Besta sem hægt er að álykta er að um stórfellt gáleysi sé að ræða. En á einhverjum tímapunkti verður góðviljuð vanræksla að illsku. Það er skylda þjóða að hugsa um afleiðingar stríðsstefnu sinnar. Þær verða að teljast viljandi gerðar ef að afleiðingarnar eru alveg fyrirsjáanlegar. Í réttarframkvæmd er refsað fyrir stórfellt gáleysi eins og tjónvaldurinn hafi í raun ætlað að valda tjóni.

Bandarískir stjórnmálamenn taka á sig krók til að forðast að viðurkenna afleitt tjón („ytri hagkerfa“) af utanríkisstefnu sinni. En slík vanræksla er hættuleg heiminum. Ef hegðun ríkis er stöðugt að skaða önnur lönd virka áhrifin eins og hún hafi verið með vilja gerð. Það er raunin með stefnu Bandaríkjanna í Kalda stríðinu 2.0 og með nýfrjálshyggjuhagfræði almennt.

Yfirvofandi truflanir á viðskiptum og greiðslum benda til þess að það sem virtist í febrúar vera stríð milli Úkraínumanna og Rússlands, hafi í raun verið hluti af áætlun um að endurskipuleggja hagkerfi heimsins. Að innmúra Vestur-Evrópu og Suðurálfu undir yfirráðum Bandaríkjanna. Landfræðilega hefur staðgengilsstríðið í Úkraínu verið handhæg afsökun fyrir Bandaríkin til að reyna að stöðva Beltis- og brautar áætlun Kína (BRI).

Valið sem Suðurálfa stendur frammi fyrir, er að svelta með því að borga erlendum skuldabréfaeigendum sínum, og bankamönnum annars vegar. Hins vegar að tilkynna, sem nýja grundvallarreglu alþjóðaréttar: „Sem fullvalda ríki setjum við afkomu okkar ofar markmiði um að auðga erlenda kröfuhafa sem tóku ranga ákvörðun með því að ákveða að heyja nýtt kalt stríð. Hvað varðar vondar ráðleggingar nýfrjálshyggjunnar sem Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn og Alþjóðabankinn hafa gefið okkur, þá eyðilögðu niðurskurðaráætlanir þeirra í stað þess að hjálpa. Því hafa lánin þeirra tapast. Sem slíkir eru þeir viðurstyggilegir og við munum ekki borga þeim.“

Stefna NATO gefur Suðurálfu engan annan valkost en að hafna tilraun bandalagsins til að koma á matvæla-kyrkingartaki Bandaríkjanna á löndum hennar, með því að koma í veg fyrir samkeppni frá Rússlandi og einoka þar með korn- og orkuviðskipti heimsins. Í mörg ár var stærsti kornútflytjandinn niðurgreiddur bandarískur landbúnaður, næst á eftir Evrópu sem var með mjög niðurgreidda sameinaða landbúnaðaráætlun (CAP). Þetta voru helstu kornútflytjendurnir áður en Rússland kom inn í myndina. Krafa Bandaríkjanna/NATO er að fara aftur í tímann til að endurheimta matvæla- og olíuvald á dollarasvæðinu og fylgihnöttum evrusvæðisins.

Hin óbeina gagnáætlun Rússa og Kínverja

Það sem þarf til að íbúar heimsins utan Bandaríkjanna/NATO geti komist af er nýtt heimsviðskipta- og fjármálakerfi. Hinn valkosturinn er hungursneyð fyrir stóran hluta heimsins. Fleiri munu deyja vegna refsiaðgerða Vesturlanda en munu látast á úkraínska vígvellinum. Fjármála- og viðskiptaþvinganir eru jafn eyðileggjandi og árás með hervaldi. Suðurálfu er siðferðilega stætt á því að setja fullveldishagsmuni sína ofar hagsmunum þeirra sem beita alþjóðlegum fjármála- og viðskiptaþvingunum.

Í fyrsta lagi þurfa lönd Suðurálfu að hafna refsiaðgerðunum og færa viðskipti til Rússlands, Kína, Indlands, Írans og félaga þeirra í Shanghai Cooperation Organization (SCO). Vandamálið er hvernig á að greiða fyrir innflutning frá þessum löndum, sérstaklega ef bandarískir stjórnarerindrekar framlengja refsiaðgerðir gegn slíkum viðskiptum.

Það er engin leið fyrir lönd Suðurálfu að borga fyrir olíu, áburð og mat frá þessum löndum og greiða samtímis dollaraskuldirnar, arfleifð bandarískrar nýfrjálshyggju- og verndarstefnu Bandaríkjanna og Evrusvæðisins. Þessvegna þyrftu þau að lýsa yfir greiðslustöðvun - í raun höfnun - á skuldum vegna lána sem hafa farið illa. Þessi gjörningur væri hliðstæður stöðvun á þýskum skaðabótagreiðslum og skuldum bandamanna við Bandaríkin árið 1931. Það er einfaldlega er ekki mögulegt fyrir Suðurálfu að greiða skuldir í dag án hungursneyðar og niðurskurðar.

Í þriðja lagi sem leiðir af ofangreindu er að skipta Alþjóðabankanum og bandarískum stefnumálum hans um þvinguð viðskipti og vanþróun, með alvöru Banka hagvaxtar (e. Bank of Economic Accleration). Ásamt honum, og í fjórða lagi systurstofnun bankans: Að skipta Alþjóðagjaldeyrissjóðnum út fyrir stofnun sem er laus við niðurskurðarruslhagfræði og niðurgreiðir ekki fákeppni ólígarka-viðskiptavina Bandaríkjanna eða gjaldeyrisárásir á lönd sem standa gegn fjármála- og einkavæðingu Bandaríkjanna.

Fimmta krafan er að lönd verji sig með því að ganga í hernaðarbandalag sem valkost við NATO, til að forðast að verða breytt í annað Afganistan, Líbýu, Írak, Sýrland eða Úkraínu.

Helsti óttinn við þessa stefnu eru ekki völd Bandaríkjanna, því þau hafa berað sig sem pappírstígur. Vandamálið er efnahagsleg meðvitund og vilji.

Heimildaskrá:

[1] “Bill Gates has a warning about population growth,” World Economic Forum/Reuters, September 19, 2018.

[2] Lananh Nguyen, “‘It’s a hurricane.’ Bank chiefs warn of a weakening economy,” The New York Times, June 1, 2022.

[3] Kristalina Georgieva, IMF Managing Director, “Facing Crisis Upon Crisis: How the World Can Respond” April 14, 2022.

[4] “Putin meets with African Union Chairperson at Sochi, June 3, 2022.” President Sall was accompanied by Moussa Faki Mahamat, Chairperson of the African Union Commission. For a related discussion on the sanctions see this.

Erna Ýr Öldudóttir þýddi.


Skildu eftir skilaboð