Hugleiðingar um hatursorðræðu

frettinIngibjörg GísladóttirLeave a Comment

Í maímánuði tilkynnti forsætisráðherra okkar að stofna skyldi starfshóp gegn hatursorðræðu m.a. vegna  kynþáttar, litarháttar, þjóðernisuppruna, kynhneigðar og kynvitundar. Meiri þörf er þó trúlega að vinna gegn pólitísku skítkasti og almennum dónaskap. Hætta er á að barátta gegn svokallaðri hatursorðræðu valdi meiri skaða en gagni, sérstaklega hvað konur varðar. Nýlegt dæmi frá Noregi er áhugavert. Þar hefur Christinu Ellingsen, forsvarsmanni feminískra samtaka (WDI) verið stefnt fyrir hatursorðræðu. Stefnandi er karlmaður sem telur sig vera lesbíska konu.
Hatursorðræða vegna kynvitundar?

Tvítin sem um ræðir eru tvö, skv. femínísku síðunni Reduxx. Annað þeirra hljóðar svo: "Af hverju kennir FRI [LGBT samtök Norðmanna] ungu fólki að karlar geti verið lesbíur? Er það ekki bælingarmeðferð?" og hitt var: "Jentoft, sem er karlkyns og ráðgjafi hjá FRI kynnir sig sem lesbíu - svo klikkuð eru samtök sem sem þykjast gæta hagsmuna ungra lesbía. Hvernig hjálpar það ungum lesbíum að karlar segist vera það líka?"  Í greininni segir að norska Amnesty hafi nýlega ásakað Ellingsen um að hrella Jentoft eftir að hún sagði honum í sjónvarpssal að hann væri karlmaður. "Þú ert karlmaður. Þú getur ekki verið móðir," hafði Ellingsen sagt

Í skýrslu er kom út  30 maí, kemst breski lögfræðingurinn Maureen O´Hara að þeirri niðurstöðu að það að leyfa brotamönnum að velja sér kyn skekki úrvinnslu gagna um glæpi og hegðun glæpamanna og það sé sérstaklega bagalegt hvað kynferðisglæpi varðar, sem og aðra glæpi sem aðallega karlar fremji. Það að leyfa líffræðilegum afbrotakörlum að skrá sig sem konur sé skaðlegt fyrir alla, þá mögulega líka því að sé þeim gert kleift að spila á kerfið geti það hamlað endurhæfingu þeirra. Það auki á sálrænt áfall fórnarlamba ofbeldis að þau séu neydd til að vísa til árásarmannsins sem "hennar" og það auki á ótta og kvíða kvenna sem þurfi að afplána í sama fangelsi og karlar sem segjast vera konur að eiga von á að vera refsað fyrir að nota "röng" persónufornöfn í samskiptum við þá. Líkamsleit í fangelsi er framkvæmd er af karlmanni, hvaða kyni sem hann telji sig tilheyra, geti valdið konum áfalli. Maureen segir að þessar reglur eigi sér ekki stoð í lögum og hafi þróast án opinberrar umræðu. Nauðsynlegt sé að taka þær strax til endurskoðunar. Skyldi þessi niðurstaða hennar teljast hatursorðræða?
Skaðleg þöggun sakir þjóðernisuppruna
Í Bretlandi er það einnig vandamál að gagnrýni á ákveðna þjóðernishópa telst hatursorðræða eða rasismi. Pakistönsk gengi hafa áratugum saman komist upp með að hneppa smástelpur í kynlífsánauð. Dr. Ella Hill, sem var ein af þessum stúlkum, telur líklegt að fórnarlömbin séu nærri hálfri milljón. Hún segir glæpi "grooming" gengjanna rasíska (lýsingarorðinu "hvít" hafi iðulega verið skeytt framan við skammaryrði ætluð sér) og meðferðin á henni réttlætt með trúarlegum tilvísunum.

Þeim sem vildu ekki þegja var ýtt til hliðar og enn er þetta risastóra hneykslismál þaggað niður eftir bestu getu. Tommy Robinson er að vísu enn að reyna að vekja athygli á gengjunum í Telford með heimildamyndum en meginstraumsmiðlarnir sýna vinnu hans engan áhuga og lögregluyfirvöld í Telford ekki heldur (í fyrstu myndinni sýndi hann fram á að einn þeirra hafði þegið mútur fyrir að stinga kærum undir stól).

En þessi ótti við að vera ásakaður um hatursorðræðu eða rasisma bitnar líka á stúlkum innan minnihlutahópa innflytjenda sem hafa haldið í menningu og trú heimalandsins.
Í
glænýrri breskri skýrslu kemur fram að þær mæta skilningsleysi hjá heilbrigðisstarfsmönnum kvarti þær undan því sem kallað hefur verið "heiðursofbeldi". Þar getur verið um að ræða fóstureyðingu ef það kemur fram í sónarskoðun að barnið sé stúlka, þvinguð hjónabönd, þvingaðar fóstureyðingar, nauðgun, eftirlit allan sólarhringinn, bann við að fara í framhaldsnám og aðrar tegundir félagslegra þvingana. Vinna megi gegn "óttanum við að vita" með réttri þjálfun heilbrigðisstarfsfólks. Skýrsluhöfundar leggja til að hætt sé að tala um heiðursofbeldi, því í því felist viss réttlæting, en tala í þess stað eingöngu um heimilisofbeldi og heilbrigðisyfirvöld þurfi að koma því skýrt til skila að það sé skylda lækna og annarra heilbrigðisstarfsmanna að sinna öllum fórnarlömbum heimilisofbeldis - án tillits til hvaða samfélagshópi þau tilheyra.

Er einhver þörf á starfshóp um hatursorðræðu á Íslandi? Er meiningin að sjálfsmyndarhópar fái vettvang til að viðra fórnarlambsstöðu sína? Verður það talin hatursorðræða að mótmæla því að karlar geti skilgreint sig sem lesbíur eða verður það talin hatursorðræða að mótmæla glæpum innflytjenda? Mun hatursorðræða gegn hvítum, gagnkynhneigðum Íslendingum verða undanskilin? Hvað er Katrín að hugsa?

Skildu eftir skilaboð