Vísindakreppan 3: Ritrýni, réttsýni og vísindatrú

frettinArnar Sverrisson, PistlarLeave a Comment

Eftir Arnar Sverrisson:

Bandaríski vísindablaðamaðurinn, David H. Freedman skrifaði: „Enda þótt vísindamenn og vísindablaðamenn hafi iðulega mörg orð um ágæti ritrýninnar (peer review), viðkenna rannsakendur hver fyrir öðrum, að hún sé bjöguð (biased), ósönn, og að jafnvel hreinar svikarannsóknir standist ritrýni.

Í Nature, hefðarfrú (grande dame) vísindatímaritanna, gaf árið 2006 þetta að lesa í ritstjórnargrein: „Vísindamenn hafa þann skilning, að ritrýni í sjálfri sér tryggi aðeins lágmarksgæði og það sé fjarri lagi, að ritrýni sé gæðamerki eins og almenningi er tamt að trúa.“

Þýska þríeykið

Þetta kom eftirminnileg í ljós árið 2017, þegar stofnað var þríeyki til höfuðs slælegri eða vondri fræðimennsku. Það skipuðu Helen Pluckrose, sagnfræðingur, James A. Lindsay (f. 1979), stærðfræðingur, og Peter Boghossian (f. 1966), heimspekingur.

Þríeykið settist niður og skrifaði um tvo tugi ”fræðigreina” á sviði menningar og vitundar (t.d. kynjafræða) og einnig svonefndra ”rýnikenninga” (postmodern theory/ critical theory/constructionism). Þessar kenningar fengu byr undir báða vængi um tveim áratugum, eftir lok síðustu heimsstyrjaldar eða um það leyti, sem stúdentaóeirðirnar stóðu sem hæst.

Í stórum dráttum er inntak kenninganna, að í engu megi treysta skilningi á veruleikanum, því hugtökin um hann séu huglægs eðlis. Kenningasmiðirnir segja nauðsynlegt að rífa niður (afbyggja) ríkjandi hugtök um heiminn, svo afhjúpa megi þá kúgun, sem í þeim endurspeglast. (Kvenfrelsarar annarrar og þriðju bylgju gripu þessa speki á lofti og hafa teygt hana út úr allri skynsemi - svo kastar tólfunum.)

Þríeykið skrifar m.a.: „Rauði þráðurinn í niðurrifi þessarar meintu „hugsmíða“ (social construction) og sem mestum áhyggjum veldur, er trúin á brýna nauðsyn þess að rífa niður þann einfalda sannleik, að vísindin séu almennt betur til þess fallin að útskýra hlutlægan veruleika hinna ýmsu fyrirbæra heldur en óvísindaleg nálgun á grundvelli hefðar, menningar, trúarbragða, hugmyndafræði og töfra, [vísindi, sem] í farteskinu hafa bestu, þekktu aðferðirnar til söfnunar upplýsinga, tölfræðilegrar greiningar, prófunar tilgátna, afsönnunar og endurtekningar niðurstaðna.“ „… í huga harmkvælafræðimanna eru vísindin sjálf og vísindaleg aðferð í eðli sínu vandkvæðum bundin, jafnvel beinlínis þrungin kynþáttafordómum og kynfólsku.

Því liggur við borð, að þau þurfi að endurskapa til að hlaða undir stjórnmál, sem skipa harmkvælavitundarvakningu ofar hlutlausri sannleiksleit. Þetta gildir einnig um „vestræna“ heimspekihefð, sem litin er hornauga, þar eð áhersla er lögð á skynsemi fremur en tilfinningu, gjörhygli (rigor) fremur en sjálfsveruhyggju (eigingirni), rökvísi fremur en hugljómun.“

Þríeykið skrifaði fjölda tímaritsgreina, sem þau lýsa þannig: „Greinar okkar … eru unnar á grundvelli afar óvandaðra aðferða eins og … ósennilegrar talnanotkunar…, staðhæfinga, sem engin fótur er fyrir í [fals]gögnunum … og eigindlegra greinina af hugmyndafræðilegum toga. Vafasamar aðferðir á borð við sjálfsskoðun … og skáldlegt innsæi eru einnig notaðar.“

Vafasöm siðfræði

„Í mörgum greinanna gerumst við talsmenn afar vafasamrar siðfræði eins og að þjálfa karlmenn sem hundar væru…, refsa hvítum, karlkyns háskólanemum fyrir þrælahald, sem heyrir sögunni til, með því að biðja þá um að sitja hlekkjaðir á gólfinu og halda kjafti í kennslustund. Ætlast var til, að þeir drægju lærdóm af óþægindunum.

[Í sama anda var] lífshættulegri fitusöfnun [hampað] sem heilsusamlegum valkosti í lífinu …, sjálfsfróun [karla] í einrúmi var kynnt sem kynferðislegt ofbeldi gegn konum … og [einnig var kynnt til sögu] forritun yfirburða gervigreindarkonu með alls konar vitleysu og hugmyndafræðilegu þvaðri, áður en henni var gefinn laus taumurinn í veröldinni.

Sömuleiðis var borinn á borð allra handa kjánaskapur. Staðhæft var [til dæmis] að blíðlega hefði verið látið að kynfærum tæplega tíu þúsund hunda, meðan eigendur þeirra voru spurðir spjörunum úr um kynlíf seppanna. [Einnig] var það sveipað dulúð, að gagnkynhneigðir karlar löðuðust að konum; staðhæft, að tilraun, þar sem fjórir karlar voru látnir glápa þúsundir klukkutíma á gróft klám um eins árs skeið, meðan þeir fylltu hvað eftir annað út … [hugrenningalista], gæti varpað ljósi á kvenfrelsun. [Aukin heldur] voru bornar brigður á aukinn áhuga fólks á kynfærum þeirra, sem það hygðist eiga samræði við og karlmönnum ráðlögð ítroðslufróun í endaþarm í því skyni að milda kynskiptafælni sína, auka kvenfrelsunarvild og vakna betur til vitundar um skelfingar nauðgunarmenningarinnar.

Af athugasemdum ritrýnenda varð ekki ráðið, að þeir depluðu við þessu auga, nema … þar sem skráð var „hundanauðgun á klukkutíma fresti“ í hundaviðrunargarði í Portland, Oregon.“

Kanadíski blaðamaðurinn Donna Laframboise

Skoðum önnur sjónarhorn. Donna Laframboise (f. 1963) er kanadískur blaðamaður, ljósmyndari og rithöfundur, með BA gráðu í kvenna- eða kvenfrelsunarfræðum (women studies). Hún skrifaði árið 1996 bókina, “Konungsdóttirin í ljóranum. Andófssjónarhorn kvenfrelsara á karla, konur og kynjastjórnmál” (The Princess at the Window: A dissident feminist view of men, women and sexual politics).

Donna hefur víða komið við. Hún hefur t.d. beitt sér í umhverfismálum og skoðað spillinguna í kanadískum kvennaathvörfum. Þar uppgötvaði ég, segir hún; „fjárhagslega óreiðu, veikburða ábyrgð, ákærur um afbrot, lögsóknir, fjöldauppsagnir og grimmileg, innbyrðis átök. … Umfram allt vakti ég athygli á, að þjónusta, sem væri til þess ætluð að skapa öruggt umhverfi, ylli aftur á móti tjóni.“ Donna hefur ríka réttlætiskennd til að bera. Hún stóð í fylkingarbrjósti, þegar barist var fyrir endurupptöku dóma Guy Paul Morin (f. 1961), sem sat saklaus í fangelsi í sextán ár, fyrir nauðgun og morð á nágrannastúlku.

Það er tvennt, sem einkum gerir Donnu að sérkennilegum kvenfrelsara. Í fyrsta lagi skarpskyggni og hæfileikar til að rökræða staðreyndir. Í öðru lagi dálæti hennar á frelsi – ekki síst málfrelsi. Hún sat um árabil í stjórn „Kanadísku samtakanna um borgaraleg réttindi“ (Canadian Civil Liberties Asssociation). Því má skilja gagnrýnið viðhorf hennar til allra handa rétttrúnaðar eins og t.d. hamfarahlýnunar og kvenfrelsunar.

Donna hefur einnig skrifað bók um umhverfismál, ”Vandræðaunglingurinn, sem af misgáningi var talinn fremsti sérfræðingur heims um umhverfismál,” (The Delinquent Teenager Who Was Mistaken for the World’s Top Climate Expert). Þar brýtur hún m.a. til mergjar skýrslu Alþjóðlegs sérfræðingaráðs á vegum Sameinuðu þjóðanna (Intergovernmental Panel on Climate Change (IPCC)) um umhverfismál.
Það er trúlega vænting flestra, að þar sitji að skrafi og rannsóknum úrvalshópur vísindamanna úr víðri veröld. En samkvæmt rannsóknum hennar er því alls ekki að heilsa. Skýrsluhöfundar eru flestir miðlungar á sínu sviði, hálfskólaðir sérfræðingar og námsmenn – að ógleymdum snotrum aðgerðasinnum. Verulegur hluti undirstöðugagna skýrslunnar er vísindalega vafasamur.

Þetta minnir óneitanlega á aðra stofnun Sameinuðu þjóðanna, kvenfrelsunaráróðursdeild samtakanna, „UN Women.“ Vísindin á þeim bæ eru þó líklega enn þá miklu lakari en hjá IPCC.

Donna hefur í umboði „Stefnumótunarstofnunar um hlýnun hnattarins“ (Global Warming Policy Foundation) skrifað skýrslu um efnið. Stofnunin hefur aðsetur í Lundúnum. Skýrsla kom út árið 2016. „Þar er útskýrt, að helmingur allra útgefinna vísindagagna [um efnið] gæti verið út í hött, þar með taldar rannsóknir á loftslagi, sem liggja til grundvallar áætlunun stjórnvalda með svimandi háa verðmiða (trillion dollar).“
Donna hefur einnig á vegum ofangreindrar stofnunar skrifað álit um ritrýni, sem ber titilinn: „Ritrýni. Hvers vegna efasemdir eru nauðsynlegar“ (Peer Review. Why Skepticism is Essential). Aðfaraorð rita eðlis- og stærðfræðingurinn, Christopher Essex, og fjölfræðingurinn, Matthew (Matt) White Ridley (f. 1958).

Þeir segja m.a., að rannsóknir Donnu á heimildavinnu Intergovernmental Panel on Climate Change, hafi leitt í ljós, að um fjórðungur tilvitnanna sé sóttur í svokölluð grámóskufæði; fréttatilkynningar, þrýstihópaskýrslur og því um líkt, fjarri því að vera ritrýnd vísindi, jafnvel þótt „[r]itrýni sé ekki og hafi aldrei verið almenn vörn gegn fordómum, rangfærslum eða misskilningi um vísindaleg málefni. … [R]itrýni er sannanlega oft og tíðum bjöguð (biased), fordómafull og til málamynda, andstæð algengum væntingum um vísindin í hvívetna.“

Christopher og Matthew og „umhverfisskýrsluhneykslið“

Christopher og Matthew minnast á „umhverfisskýrsluhneykslið“ (climate-gate), þ.e. tölvupósta meðhöfunda margumræddrar skýrslu, þess efnis, að ritrýndar rannsóknir, sem þeim hafði verið bent á, en fluttu boðskap, sem andstæður var rétttrúnaði þeirra um umhverfismál, yrði látinn liggja í láginni. Þeir sögðu á þessa leið; við munum sjá til þess, að boðskapurinn nái ekki inn í skýrsluna, jafnvel þótt við verðum að endurskilgreina ritrýni. Fleiri áþekk dæmi eru nefnd, t.d. svæsin aðferðagagnrýni á nokkrar uppistöðugreinar í skýrslunni.

Þeir félagar segja að lokum: „Hin þrúgandi og menntunarsnauða skírskotun til vísinda sem væru þau steinrunnin [kunnátta], sem einungis mætti leggja mat á samkvæmt siðferðilegum hreinleika fremur en nákvæmni um staðreyndir, hefur gert það að verkum, að sanngjörn umræða er því sem næst óhugsandi. [Þetta] hefur bakað okkur öllum feiknalegt tjón.“

Við þetta bætir Donna: „Reyndin er sú, að á líðandi stundu búa vísindin við „endurgerðarkreppu,“ sem er svo svæsin, að ritstjóri málsmetandi tímarits hefur lýst yfir, að „mikið af vísindaritum, jafnvel helmingur þeirra, gæti einfaldlega verið rangur.“

Heimildir:

Skildu eftir skilaboð