Mannréttindadómstóll Evrópu stöðvaði flug Breta með hælisleitendur til Rwanda

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir, PistlarLeave a Comment

Sú hugmynd bresku ríkisstjórnarinnar að senda hælisleitendur til Rwanda og halda þeim þar á meðan umsóknir þeirra eru afgreiddar fer ekki vel af stað. Boeing 767 vél hafði verið leigð og fleiri en 130 farendur áttu upphaflega að fara með fyrsta flugi en aðeins sjö stóðu eftir af þeim hópi á þriðjudagsmorgni eftir að hinir höfðu áfrýjað og Mannréttindadómstóll Evrópu (MDE) sló svo flugið af. Samkvæmt Telegraph gæti það þýtt að engar ferðir yrðu farnar til Rwanda næstu vikurnar því lagalega hliðin þarf að komast á hreint.

Nigel Farage vill klára Brexit

Snemma í maí varaði Nigel Farage (herra Brexit) við því að trúlega myndu 100.000 manns koma til Bretlands frá Frakklandi á uppblásnum gúmmíbátum á árinu 2022 og sækja um landvistarleyfi. Mikilvægt væri að ríkisstjórnin kæmi Rwandaferðunum af stað sem fyrst því annars myndi hún ekki ráða neitt við fjöldann og ef bara einn af þessum skilríkjalausu ungu mönnum reyndist ógn við öryggi ríkisins þá myndi Boris Johnson þurfa að segja af sér. Nigel vill sem sagt klára Brexit og skera á tengslin við MDE eins og Theresa May lofaði 2016 þótt hún vildi halda Bretum í ESB. Theresa hafði nefnilega ekki góða reynslu af MDA. Eftir tíu ára baráttu breskra yfirvalda við mannréttindasamtök, meðal annars MDE, var það hún sem innanríkisráðherra kom loksins öfgaklerkinum Abu Qatada, hægri hönd Osama bin Ladens í Evrópu, úr landi.

Bretar eiga nú þegar í vandræðum með að hýsa allan þann fjölda hælisleitenda er til þeirra leitar. Nýlega var ákveðið að hýsa allt að 1.500 karlkyns hælisleitendur í yfirgefinni herstöð í smáþorpinu Linton-on-Ouse nálægt York. Með því vildi ríkisstjórnin spara sér kostnað við að hýsa hælisleitendurna á hótelum en íbúarnir mótmæltu harðlega þessu opna fangelsi úti í sveit" þar sem þeir sjálfir yrðu í minnihluta og sendu bæði forsætisráðherra og innanríkisráðherranum mótmælabréf.

Almenningur í Bretlandi er ekki hrifinn af öllum þessum gestum" sem Frakkar bjóða heim en leita svo yfir Ermarsundið og eru hýstir og fæddir á hótelum á kostnað ríkisins. Biðlistar eftir félagslegum íbúðum eru langir og verðbólgan er tilfinnanleg, 6.2% í febrúar, langt yfir viðmiðum Seðlabankans, og hefur ekki verið svo há frá 1992. Fyrr á árinu viðurkenndi forstjóri Iceland, Richard Walker, að keðjan væri að missa viðskiptavini sem leituðu til matarbanka því þeir hefðu ekki lengur efni á að versla hjá sér og sumir væru svo illa staddir fjárhagslega að þeir afþökkuðu gjafamatvæli sem þyrfti að elda, s.s. kartöflur, því rafmagnið væri einfaldlega of dýrt.

Fingraför Sorosar

Fyrir um tveim árum var það í umræðunni að MDE hefði breytt um stefnu, hætt að hugsa um að ríkisstjórnir Evrópulanda færu að lögum en brytu ekki á þegnum sínum en farið í þess stað að reyna að hafa áhrif á löggjöf landanna í anda woke stefnu um opin landamæri og fjölmenningu. Skýrsla frá European Center for Law and Justice í Strasbourg sýndi að af þeim 100 dómurum sem hefðu starfað við MDE 2009-2019 hefðu 22 tengst stofnunum sem Georg Soros rekur eða styrkir. Einnig kom þar fram að í 88 skipti hefðu dómarar dæmt í málum sem félögin sem þeir höfðu áður unnið fyrir lögðu fram eða studdu og leynt því að þeir hefðu verið vanhæfir. Í franska blaðinu Valeurs Actuelles kemur fram að Sorosi sé lagið að skapa kaos í heiminum með því að þykjast bera hag annara fyrir brjósti. Lönd séu neydd til að lögleiða hjónabönd samkynhneigðra, rétt til fóstureyðinga, heimila að menn skipti um kyn í opinberum skrám, afnema lífstíðarfangelsi og lögleiða ættleiðingu samkynhneigðra para, meðal annars. Hvaðan fær MDE þessi völd? Ekki með lýðræðislegum hætti, svo er víst.

Skildu eftir skilaboð