Namibíumálið og glæpurinn gegn Páli skipstjóra

frettinPáll VilhjálmssonLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

RÚV, Stundin og Kjarninn, RSK-miðlar, bjuggu til Namibíumálið á grunni upplýsinga frá Jóhannesi Stefánssyni, fyrrum starfsmanns Samherja í Namibíu. RSK-miðlar töpuðu Namibíumálinu í fyrrahaust þegar dómstóll í Namibíu vísaði frá ákærum á hendur Samherjamönnum. Ekkert er að frétta af þeim anga Namibíumálsins sem er til rannsóknar hér heima.

Namibíumálið snýst um meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra aðila. Jóhannes heldur fram þessum ásökunum en þær eru óstaðfestar og ósannaðar. Öll gögn málsins hafa verið lögð fram en það er ekkert að frétta.

Allar líkur eru á að ásakanir Jóhannesar haldi ekki. En af pólitískum ástæðum, hér á Íslandi og í Namibíu, eru málin ekki felld niður. Athygli vakti að þegar namibísk sendinefnd kom til Íslands um daginn hitti Jóhannes ekki Namibíumennina, sem hann þó segist í bandalagi við. Jóhannes vill undir engum kringumstæðum fara til Namibíu. Uppljóstrarinn er í felum frá raunheimum. Til hans sést aðeins á samfélagsmiðlum.

Páll Steingrímsson skipstjóri hjá Samherja gagnrýndi málflutning RSK-miðla. Í framhaldi skipulögðu RSK-miðlar aðför að Páli. Skipstjóranum var byrlað. Á meðan hann var á gjörgæslu var síma hans stolið og hann afritaður á Efstaleiti.

Glæpurinn gegn Páli skipstjóra er sjálfstætt sakamál, algerlega óháð Namibíumálinu. Fjórir sakborningar eru í byrlunar- og símastuldsmálinu, svo vitað sé, allt blaðamenn á RSK-miðlum. Líkt og uppljóstrarinn Jóhannes eru blaðamennirnir í felum frá raunheimum, neita að mæta í yfirheyrslu, sjást aðeins í fjölmiðlum.

Kjarninn birti frétt um helgina þar sem látið var líta út eins og Namibíumálið og glæpurinn gegn Páli skipstjóra væru eitt og sama refsimálið. Ekkert er fjarri sanni. Páll skipstjóri kom hvergi nærri Namibíumálinu. Jóhannes Stefánsson hefur aldrei borið sakir á skipstjórann. Eina ,,afbrot" Páls er að taka þátt í opinberri umræðu um óvandaðan fréttaflutning RSK-miðla. Blaðamannaböðlarnir tóku til sinna ráða og skipulögðu aðför að heilsu og eigum skipstjórans.

Frétt Kjarnans er tilraun til að fela glæpi blaðamanna RSK-miðla gegn Páli skipstjóra.

Skildu eftir skilaboð