Fishrot, TI-IS, IPPR og OECD

frettinPistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason fv. dómsmálaráðherra skrifar:

Þetta er í raun einn undarlegasti þráður Fishrot-málsins hér á landi. Sé spillingarnefnd OECD með hann til rannsóknar kemst hún ekki hjá því frekar en aðrir að kalla blaðamennina sem hlut eiga að máli fyrir sig.

Hér á landi er stunduð blaðamennska á gráu svæði og færist hún frekar í aukana en hitt. Nefna má svonefnt Samherjamál þessu til stuðnings. Þar taka blaðamenn á nokkrum miðlum höndum saman um að segja frá þáttum málsins án þess að greina þá á þann veg sem nauðsynlegt er til að lesendur, hlustendur eða áhorfendur fái rétta mynd. Til liðs við þessa blaðamenn eru nú gengnir fulltrúar Íslands í gagnspillingarsamtökunum Transparency International Iceland (TI-IS).

Af erlendum fjölmiðlum má ráða að fulltrúar TI-IS og samtaka í Namibíu, Institute for Public Policy Research (IPPR), beiti sér af þunga gagnvart yfirvöldum í Namibíu til að knýja á um að þau krefjist framsals á þremur Íslendingum vegna Fishrot-málsins svonefnda um meintar mútugreiðslur Samherja til namibískra aðila. Birtist sameiginleg fréttatilkynning IPPR og TI-IS 8. júní 2022 þar sem hvatt var til að grunaðir bæði á Íslandi og Namibíu yrðu látnir svara til saka fyrir the Fishrot corruption scandal, Fishrot-spillingarhneykslið sem fyrst var sagt frá opinberlega rétt fyrir þingkosningar í Namibíu 27. nóvember 2019.

Sakborningar í Fishrot-spillingar hneykslismálinu í Namibíu. Mynd frá í febrúar 2022.

Fyrir helgi birtust fréttir um að slóvenski lögfræðingurinn Drago Kos, yfirmaður vinnuhóps OECD gegn mútum, segði „ótrúlegt að horfa á íslensk stjórnvöld draga lappirnar í tengslum við rannsókn á mútugreiðslum Samherja í Namibíu. Stjórnvöld í Namibíu dragi vagninn í málinu og það sé nánast vandræðalegt fyrir Ísland,“ svo að vitnað sé í vefsíðuna Kjarnann 18. júní.

Í frétt sinni vitnar Kjarninn í viðtal við fréttastofu Stöðvar 2 og Vísis við Kos sem sagði það valda áhyggjum að íslenskir rannsóknarblaðamenn hefðu „verið boðaðir í yfirheyrslur af hálfu lögreglu með réttarstöðu grunaðra“, blaðamenn væru „bandamenn í baráttunni gegn spillingu og raunar ótrúlegt að eitthvað þessu líkt [hefði] átt sér stað á Íslandi, að lögreglan [hefði] farið á eftir blaðamönnum í stað þeirra grunuðu“.

Til hvers er spillingarlögfræðingurinn að vísa? Ef það er rannsókn lögreglu á farsímastuldi frá Páli Steingrímssyni skipstjóra er þar um sjálfstætt sakamál að ræða þar sem nokkrir blaðamenn hafa ekki í stöðu grunaðra heldur sakborninga. Þeir hafa árangurslaust gripið til allra ráða til að hindra rannsókn lögreglunnar og gera hana tortryggilega sem lögbrot.

Þetta er í raun einn undarlegasti þráður Fishrot-málsins hér á landi. Sé spillingarnefnd OECD með hann til rannsóknar kemst hún ekki hjá því frekar en aðrir að kalla blaðamennina sem hlut eiga að máli fyrir sig.

Ýmislegt af því sem haft er eftir Drago Kos bendir til að orð hans séu reist á því sem TI-IS og IPPR hafa miðlað til hans. Helga Vala Helgadóttir, þingflokksformaður Samfylkingarinnar, vitnaði svo í Kos í grein í Morgunblaðinu 20. júní og sagði orðspor Íslands væri í húfi vegna Fishrot-málsins. Klíndi hún málinu á fjármálaráðherra af því að héraðssaksóknari fengi ekki næga fjármuni!

Saksóknari í Namibíu sá haustið 2021 ekki ástæðu til að ákæra neinn Íslending. Að orðspor Íslands sé í hættu vegna þess stenst ekki. Hringrás málsins í flokkspólitískum tilgangi sýnir hins vegar grátt svæði íslenskrar fjölmiðlunar.

Skildu eftir skilaboð