Mannréttindadómstóll Evrópu – enginn venjulegur dómstóll

frettinIngibjörg GísladóttirLeave a Comment

Aðeins þrjú dómaraefni sóttu um stöðuna sem losnaði við Mannréttindadómstól Evrópu og þar af hafa tveir hæstaréttarlögmenn dregið umsóknir sínar til baka. Því þarf að auglýsa aftur.

Davíð Þór Björgvinsson, fyrrverandi dómari við réttinn, lætur að því liggja í viðtali við Moggann að trúlega hafi efasemdir um hæfi þeirra valdið því; en íslensk nefnd hafði metið alla umsækjendur hæfa. Nefndin sem velur úr umsækjendum hefur ekki hingað til gert kröfu um dómarareynslu. Samkvæmt skýrslu samtakanna ECLJ, "NGOs and the Judges of the ECHR  2009 – 2019", hafði rúmur helmingur dómara á þeim tíma ekki slíka reynslu. Róbert Spanó, fráfarandi dómari, var varadómari í héraðsdómi árin 1997-1998 samkvæmt Wikipediu, það var öll reynsla hans, og vinkona hans, tyrkneski dómarinn við MDE, Saadet Yüksel, hafði unnið sem lögfræðingur frá 2005 samkvæmt sömu heimild.

Samkvæmt skýrslu ECLJ hefur hugmyndafræði umsækjenda meira vægi en hæfni þeirra. Hlutverk MDE sé að vera lifandi dómstóll sem fylgi tíðarandanum - eða leiða hann kannski? Að minnsta kosti 22 af 100 dómurum við réttinn 2009-2019 hafi ýmist fyrrum unnið fyrir samtök Sorosar, Open Society Network, eða fyrir samtök sem hann hefur fjármagnað og í fæstum tilfellum hafi þeir lýst sig vanhæfa þótt mál tengd fyrrum vinnuveitenda hafi komið fyrir dóminn. Í skýrslunni segir að alþjóðlegu kerfi til verndar mannréttindum hafi verið komið á eftir seinni heimstyrjöldina til að takmarka vald þjóðríkjanna yfir borgurum sínum en til hafi orðið nýtt yfirþjóðlegt vald fyrir áhrif hinna ýmsu samtaka aktívista. Open Society Foundation sé þeirra áhrifaríkast í baráttu sinni fyrir tjáningarfrelsi, menntun Róma fólks, afglæpavæðingu fíkniefna og vændis, stuðningi við rétt til fóstureyðinga og LGBT fólk auk baráttu fyrir rétti flóttamanna og minnihlutahópa.

Stundum finnst mönnum sem MDE misbeiti valdi sínu, svo sem þegar það stöðvaði flug Breta með hælisleitendur frá Frakklandi á hótel í Rwanda. Meiningin var að yrði hælisumsókn þeirra samþykkt þá kæmu þeir aftur til Bretlands. Danir hafa líka kvartað undan því að þurfa að sitja uppi með heilu erlendu glæpafjölskyldurnar vegna MDE og hafa ekkert nema kostnað og vandræði af. Einn versti skandall MDE er þó dómurinn í máli austurrískrar konu að nafni Elisabeth Sabaditsch-Wolff (2018) sem var ekki talin hafa mátt orða spurningu um hvort Múhammeð gæti kallast barnaníðingur (aldur Aishu er studdur traustum hadíðum). Dómurinn vísaði ekki að vísu til sjaríalaga en taldi að málfrelsið yrði að víkja ef menn segðu eitthvað sem gæti raskað friði í landinu og ECLJ segir frá því að yfirvöld í Alsír hafi vísað til dómsins til að réttlæta dóm um guðlast.

Kannski leist hæstaréttardómurunum tveimur einfaldlega ekkert á hugmyndafræði og dómaframkvæmd MDE.

Skildu eftir skilaboð