Leikþröng*

frettinErlent, Erna Ýr ÖldudóttirLeave a Comment

Framtíð Evrópu er dökk. Hún er föst í spennitreyju eigin viðskiptaþvingana og vöruverðshækkana sem af þeim leiða. Evrópusambandið ráfar um í villu og svíma.

Þýdd grein „Zugzwang*" eftir Alastair Crooke, fv. breskan diplómat og stofnanda og forseta Beirut-based Conflicts Forum. Birtist hjá Strategic-Culture.org þann 20. júní 2022.

Vestræn sjálfseyðing – ráðgáta sem stangast á við allar einstakar orsakaskýringar – heldur áfram. Dæmin þar sem stefnumálum er fylgt af augljósu skeytingarleysi gagnvart öllu sem líkist vandlegri ígrundun eru orðin svo öfgakennd, að þau ýttu fyrrverandi yfirmanni breska hersins (og fyrrum yfirmanni herafla NATO í Afganistan), Richards lávarði, af stað til að hósta því upp að tengslin á milli stefnu og samræmingar markmiða, séu vonlaust rofin á Vesturlöndum.

Vesturlönd fylgja „sjáum hvað setur"- stefnu, eða með öðrum orðum, alls engri alvöru stefnu, heldur lávarðurinn fram. Margir myndu segja að sértrúarsöfnuður vægðarlausrar, takmarkalausrar, ofurbjartsýni, hafi kæft almenna gagnrýni. Hvernig stendur á því að Vesturlönd, þéttskipuð „hugveitum", komast án undantekningar að rangri niðurstöðu? Af hverju er það svo, að einfaldar myndir og sjónhverfingar, sem gefa sig út fyrir að vera alþjóðapólitík, fá litla sem enga áskorun? Tryggð við opinbera og almenna orðræðu er allt. Það er óhugnanlegt að fylgjast með þessu verða að venju, án þess að átta sig á hættunni sem þessu fylgir.

Skjálftamiðja vaxandi alþjóðlegs óstöðugleika í dag er staða vestræns hagkerfis: Svo sjálfsbirgingsleg hafa stjórnvöld verið að þau héldu að verðbólga myndi aldrei rugga báti bandarísks hagkerfis sem hvílir á varagjaldeyrissjóði. Gert var ráð fyrir að sveiflukenndum samdrætti hefði verið „útrýmt". Þessi atriði myndu aldrei aftur styggja neytendur (kjósendur), þökk sé peningaprentun; og bóluskuldum sem „skipta ekki máli".

Þessi einfalda skoðun gerði ráð fyrir að „forðastaða" í sjálfu sér, útrýmdi verðbólgu. Bensíndollarakerfið rak umheiminn stöðugt til að kaupa dollara til að fjármagna þarfir sínar. Það var flóðbylgja af ódýrum kínverskum neysluvörum. Ódýrir orkugjafar frá Rússlandi og Persaflóaríkjunum streymdu til vestræns iðnaðar og héldu verðbólgu í skefjum.

Vestræn ríkisútgjöld fóru úr böndunum í kjölfar kreppunnar 2008 og hreinlega sprungu í aðgerðum stjórnvalda vegna Covid.  Eftir það, í blindu æðiskasti í alþjóðamálum, voru þessi ódýra orka, og aðrar mikilvægar auðlindir sem liggja til grundvallar efnahagslegri velmegun, beitt hugsunarlausum viðurlögum, og jafnvel hótað banni.

Rósrauð sólgleraugu orkuskipta

Framámenn með rósrauð sólgleraugu orkuskipta neituðu einfaldlega að viðurkenna að EROI (e. Energy Return on Investment) hærri en en margfeldi af sjö, er nauðsynlegt til að nútímasamfélög virki.

Við sjáum nú afleiðingarnar: Gífurleg verðbólga, og Vesturlönd fálma út í loftið í leit að ódýrum valkostum sem „sprengja ekki bankareikninginn". En þeir eru fáir. Hver eru alþjóðapólitísku áhrifin? Í fáum orðum sagt, stórkostlegt kerfislægt varnarleysi. Þetta hefur nú þegar gjörbreytt bandarískum innanríkismálum. Hvorki vaxtahækkanir né eyðilegging eftirspurnar (með hruni eigna) duga á kerfislæga verðbólgu. Vestrænir hagfræðingar eru enn uppteknir af peningalegum áhrifum á eftirspurn, á kostnað þess að taka afleiðingarnar af því að berja sleggju viðskiptaþvingana á flókin kerfi, til greina.

Félagslegur sársauki verður gríðarlegur. Nú þegar þurfa margir Bandaríkjamenn að botna greiðslukortin til að kaupa í matinn og ástandið mun bara versna. Þó er vandinn dýpri. „Enskt" efnahagsmódel Adam Smith og Maynard Keynes – kerfi skuldadrifinnar neyslu, með offjármagnaða yfirbyggingu – hefur komið í stað raunhagkerfa. Neyslan er látin trompa það að búa til og útvega hluti. Kerfislega verður stöðugt minna af vel launuðum störfum, eftir því sem raunhagkerfið græðir minna, og skammvinn markaðsbóla kemur í þess stað.

En hvað á að gera við þau 20% fólks sem ekki eru lengur efnahagslega nauðsynleg í þessu veikburða hagkerfi?

Var þessi kerfisgalli ekki auðsjáanlegur? Fjármálakreppan 2008, sem olli næstum algeru kerfishruni, var hávær vekjaraklukka sem glumdi. En skammsýni ríkti aftur og peningaprentvélarnar voru settar á yfirsnúning.

Sjálfseyðandi refsiaðgerðir Evrópu, sem framkvæmdar voru af samtakamætti og með fagnaðarlátum, gegn rússneskri orku og auðlindum, skapa svipaða (eða verri) verðbólguhamfarir. Það er orðið einum of augljóst að Evrópusambandið gerði enga áreiðanleikakönnun (e. Due Diligence) áður en það refsaði Rússlandi. Möguleikanum á áfalli var einfaldlega vikið til hliðar í óráðsvímu kolefnishlutleysis (e. Net Zero) og hugmyndafræðilegs blaðurs. Eins varpaði Evrópa sér út í hernaðarátökin í Úkraínu, aftur án þess að hafa áhyggjur af því að skilgreina hernaðarleg markmið sín eða leiðir til að ná þeim – með barnalega bjartsýnum eldmóði fyrir „málstað" Úkraínu.

Verðbólga hér í Evrópu hefur er orðin tveggja talna. Samt, án þess að blikna, segir Lagarde forstjóri Evrópska seðlabankans (ECB): „Við höfum stjórn á verðbólgunni". Hagvöxtur sé fyrirsjáanlegur á árinu 2022, og hagvöxtur muni aukast 2023 og 2024. En Stefna? Samhæfð markmið? Orð hennar voru aðeins punktar úr tengslum við raunveruleikann.

Evrópskar ríkisskuldir gætu orðið óseljanlegar eða verðlausar

Þessi fundur ECB, hefur meiriháttar þunga í alþjóðapólitík. Á meðan Seðlabanki Bandaríkjanna (FED) hækkar vexti, verður auðséð að ECB hefur engin trúverðug tól til að fást við hækkun sem skrúfast upp og fjarlægist vaxtastig evrópskra ríkisskuldabréfa, fjarlægist alla samleitni. Evrópsk ríkisskuldakreppa er hafin. Það sem verra er, sumar ríkisskuldir munu að líkindum verða óseljanlegar og verðlausar.

Til að það sé á hreinu, þá grefur vaxandi verðbólgukreppa í Evrópu undan stöðu næstum allra helstu stjórnmálamanna á Evrusvæðinu, þar sem þeir munu mæta raunverulegri reiði almennings; á meðan verðbólgan étur upp millistéttina; og hátt orkuverð skerðir hagnað fyrirtækja.

Til viðbótar um getuleysi ECB: Seðlabankinn er að hækka vexti - vel meðvitaður um að það er of seint - til að hafa veruleg áhrif á verðbólgu (á Volcker tímabilinu náðu vextir FED 20%).

Vaxtahækkanir FED kalla á þá spurningu hvort hann hafi önnur markmið í huga, umfram verðbólgu í Bandaríkjunum: Væri Powell ósáttur við að sjá ECB og Evrusvæðið sökkva í kreppu? Hugsanlega ekki. Markaðsflækjur (aflands í Evrópu) á eurodollar og vaxtastefna ECB hafa í raun bundið hendur Powell.

Nú starfar FED sjálfstætt – og fyrst og fremst fyrir bandaríska hagsmuni – og ECB er í vandræðum. Hann mun þurfa að elta, og hækka vexti. FED er í eigu stóru viðskiptabankanna í NY. Þeir vita að Davos-Brussel „settið" stefnir að því að flytjast, þegar það getur, yfir í einn stafrænan gjaldmiðil ECB - en það er leikur sem ógnar mjög viðskiptamódeli bandarísku stórbankanna. (E.t.v. því engin tilviljun að stafrænir gjaldmiðlar hrynja mikið á sama tíma).

Michael Every frá Robobank skrifar: „Ef Bandaríkin misstu vald dollarans sem alþjóðlegs veðs – yfir í hrávöru sem veð – þá mun [bandaríska] hagkerfið og markaðir þess brátt fylgja á eftir [völdin sama skapi fjarlægð]".

„Kannski halda þessi rök ekki, en að FED sé í ránfuglsham í dag bendir til að svo sé." Powell sagði í mars að „það er hægt að hafa fleiri en einn varagjaldmiðil" er vissulega vísbending í átt að þessari þróun, þar sem Rússland tengdi rúbluna við gullgramm, og orku við rúbluna.

Bandarísku stórbankarnir, með Powell sem talsmann, eru því að setja „Davos" í gapastokkinn og láta Lagarde blakta úti á snúru. Þeir eru að setja bandaríska fjárhagslega hagsmuni í forgang. Þetta er mikil breyting frá tímum Plaza Accords.

Bandarískir hagsmunir fleygi Evrópu undir rútuna

Punkturinn er að Evrusvæði ESB var – að þýskum kröfum – byggt upp sem viðauki við dollarann. Nú einbeitir FED sér að því að stöðva skriðuna sem stefnir að hrávörum sem alþjóðlegu veði. Evrópu, með sína „Davos-ísku" forsendur, er kastað undir rútuna. Vogaðir dollarar í eurodollar kerfinu eru á „heimleið".

Er framtíð fyrir Evrusvæðið, í ljósi kunnrar vanhæfni þess til umbóta?

Athyglisvert er, að öll þessi umbrot eiga sér uppruna í Úkraínumálinu - og heljarstökki Vesturlanda ofan í allsherjar fjármálastríð gegn Rússlandi. Þannig rennur skjálftamiðja vestræns fjármálafúa saman við skjálftamiðju Úkraínudeilunnar, og þróast í seigfljótandi pólitíska ógæfu fyrir Evrópu og Bandaríkin. Þar sem verðbólgueldar í hagkerfum þeirra höfðu þegar kviknað, hefðu þau ekki getað valið verri tíma til að gera tilraunir með sniðganga allt rússneskt.

Alþjóðastjórnmálalegt gildi samruna fjármálaheimsins og hersins felst í framsæknum „síbreytilegum" vestrænum (sem sagt stefnumarkandi) markmiðum.

Til að byrja með átti að niðurlægja Pútín með hernaðarlegum ósigri. Síðan átti að draga úr hernaðarmætti Rússlands, til að landið gæti aldrei endurtekið hina „sérstöku hernaðaraðgerð" annarsstaðar í Evrópu. Þarnæst átti að takmarka hernaðarsigur Rússa í Donbass, síðan í Kherson og Zaporizhzhia. Svo breyttist það í orðræðu um að halda einfaldlega átökunum áfram, til að valda Rússum tjóni.

Nýlega hefur verið sagt að úkraínski herinn verði að halda áfram að berjast til að fá að hafa eitthvað um friðarsamninga að segja og ef til vill til að „bjarga" Odessa. Í dag [20. júní] er talað um að einungis Kænugarður geti tekið hina sársaukafullu ákvörðun um hve mikið af sjálfstæðu landsvæði þeir þola að missa, í þágu friðar.

Búið spil í Úkraínu

Í raun er „búið spil". Nú taka fingrabendingar við. Rússland mun setja sín eigin skilyrði gagnvart Úkraínu í krafti vítisvéla á svæðinu.

Stefnumótandi mikilvægi þessa, á enn eftir að síast inn að fullu: Það voru auðvitað hinir vestrænu leiðtogar sem gerðu mikið úr því að ósigur gagnvart Pútín mundi þýða endalok frjálslyndra samfélaga byggðra á lögum og reglu.

Til að sýna umheiminum að Vestrið hefði ekki gjörsamlega verið kveðið í kútinn, ákvað Biden-gengið að pota endurtekið í augað á Kína út af Taiwan. Nýlega á öryggisráðstefnu Shangri-la, krafðist Zelensky þess (eflaust að upplagi Vesturlanda), að Asíulöndin brygðust við þessari krísu fyrir Taiwans hönd, eða „töpuðu" ella. Til að „sigra", yrði hið alþjóðlega samfélag að „verða fyrri til", í stað þess að bregðast við eftir á.

Kínverjar urðu að vonum öskureiðir og erfiður fundur með Austin varnarmálaráðherra Bandaríkjanna og Wei hershöfðingja fylgdi. En hvert er markmiðið með því að stugga stöðugt við Kína, stóra samhengið?

Svo er það Íran. Eftir átta tilraunir, virðast Bandaríkin ætla að draga sig hljóðlega út úr kjarnorkuviðræðunum (JCPOA). Það er ráðstöfun sem bendir til að Bandaríkin séu tilbúin að sætta sig við að af Íran stafi ekki það mikil ógn, að hægt sé að réttlæta útgjöld eða beina takmarkaðri athygli Hvíta hússins þangað frá brýnni málefnum.

En svo breyttist allt hratt: Alþjóða kjarnorkumálastofnunin gagnrýndi Íran, sem hafði aftengt 27 eftirlitsmyndavélar sem andsvar. Ísrael hóf aftur að myrða íranska vísindamenn og gerði loftárásir á flugvöllinn í Damaskus. Ísrael er beinlínis að þrýsta á Vesturlönd að skáka Íran út í horn.

„Við erum rekald"

„Við erum rekald", sagði fyrrverandi sendifulltrúi Bandaríkjanna, Aaron David Miller, „Vonandi að Íran smíði ekki kjarnorkuvopn, Ísrael muni ekki gera neitt stórkostlegt, og Íran og fylgihnettir þess drepi ekki mikið af Bandaríkjamönnum í Írak eða annarsstaðar". Orð Miller ríma við orð Richards lávarðs „Þetta er ekki stefna".

Úkraínustríðið er vissulega mikilvægt fyrir Bandaríkin og Ísrael, þó svo að Miller komi ekki auga á það enn. Ef að nýja „kenningin" um Úkraínu er sú að Kænugarður skuli gefa eftir landsvæði til að stilla til friðar, þá hlýtur það sem er hæfilegt fyrir Úkraínu, að vera jafngott fyrir Ísrael.

Eðlilega barst skjálftinn frá hamförunum í Úkraínu víða, til stefnumótunarmála Suðurlanda og Indlands, og enn víðar.

En er þessi greining of þröng? Vantar ekki bita í stefnumótunarpússluspilið? Gegnumgangandi í því sem á undan er ritað, sést skeytingarleysi stjórnvalda á Vesturlöndum gagnvart vandlegri ígrundun, í bland við flókna menningarlega þrjósku og algera kröfu um einróma afstöðu, þar sem hið síðarnefnda veitir ekkert rými til að reyna áður hve skotheld hún sé.

Á þetta jafnframt við um Rússland og Kína? Alls ekki.

Ef við lítum á stefnu og markmið Rússlands: Að stokka upp alþjóðlega skipan öryggismála, og hrinda sókn Atlantshafsbandalagsins (NATO) austur fyrir línuna sem lá árið 1997. En í hvaða metnaðarfulla tilgangi?

Voru Vesturlönd beitt júdóbragði?

Snúum nú sjónaukanum við, og horfum í gegnum hann hinu megin frá. Vesturlönd hafa lengi horft á flísina í auga annarra, án þess að sjá bjálkann í sínu eigin hvað varðar innri mótsagnir og galla. Við vitum hins vegar að bæði Kínverjar og Rússar hafa rannsakað hið vestræna fjármála- og efnahagskerfi og greint kerfislægar mótsagnir þess. Þeir hafa sagt það sjálfir. Þeir hafa lagt þær á borðið (alveg frá því á 19. öld). Oft er vísað til þess hæfileika Pútín í júdó, þegar hann nær að nota líkamlegan yfirburðastyrk andstæðingsins til þess að fella hann.

Er ekki sennilegt að Rússar og Kínverjar hafi á sama hátt, horft á ótvíræðan efnahagsvöðvastyrk Vesturlanda, en einnig skynjað líkurnar á því að þau gætu teygt meintan yfirburðastyrk sinn of langt; og að þessi ofþensla gæti verið leiðin til að „fella þau"? Kannski þurfti bara að bíða eftir að hinar efnahagslegu mótsagnir myndu þroskast í óreiðu?

Framtíð Evrópu lítur illa út. Hún er í klípu vegna eigin refsiaðgerða og vöruverðshækkana sem af þeim leiða. Evrópusambandið er ennfremur svínbundið af eigin stofnanastirðleika sem er svo alvarlegur að báknið kemst hvorki aftur á bak né áfram. Það riðar um í óráðsvímu.

Hvernig getur Evrópa bjargað sér? Með því að rjúfa stefnumótunartengsl við Washington og semja við Rússland? Að öðrum kosti kollvarpist hún í krafti eigin refsiaðgerða? Gefum því tíma. Áður en yfir lýkur verður það niðurstaðan.

*Hugtak úr skák, þegar maður á leik, en sérhver mögulegur leikur gerir stöðu manns á borðinu verri.

Þýðing: Erna Ýr Öldudóttir

Skildu eftir skilaboð