Breskir útgerðarmenn eru hneykslaðir á ákvörðun Færeyinga um að leyfa Rússum að veiða fisk á sameiginlegum hafsvæðum ríkjanna, segir í breska blaðinu The Express á mánudaginn.
Færeyjar höfðu í nóvember í fyrra veitt Rússlandi kvóta upp á 75 þúsund tonn af kolmunna, á hafsvæði þar sem þeir deila veiðirétti með Bretlandi. Fimm togarar undir rússneskum fána lágu í síðustu viku við hafnir í Færeyjum, þar sem þeir fá fulla þjónustu.
Bretar sökuðu Færeyinga um að leyfa Rússum að hagnast á fiskveiðum, sem mundi hjálpa þeim við stríðsrekstur sinn. Ulla Wang, hátt settur ráðgjafi sjávarútvegsráðuneytis Færeyja, kvað samninginn „mikilvægan fyrir þau“, en fjórðungur útflutningsins sé sendur til Rússlands. Hún kvað þó mögulegt að samningurinn yrði endurskoðaður þannig að Rússar fengju einungis að veiða á færeysku hafsvæði. „Ég er óviss um hvort það sé eitthvað sem Bretland er að biðja um.“
Færeyingar telja að frekari refsiaðgerðir gagnvart Rússlandi muni valda margfalt meira tjóni í Færeyjum en Rússlandi. Góð tengsl séu mikilvæg fyrir þjóð sem telur aðeins 53.800 manns, sem vill jafnframt tryggja aðgang að gjöfulum þorskmiðum í Barentshafinu.
Sjúrour Skaale, fulltrúi Færeyinga á danska þinginu sagði: „Þar til í Febrúar áttum við í afar nánum tengslum við Rússland. Amk. 25% af útflutningi okkar var seldur til Rússlands. Það hefur stöðvast. Nú er hann 0% vegna viðskiptabanns. Við erum með fiskveiðisamninga við Rússlands til ársloka. Ríkisstjórn okkar er ekki tilbúin að slaufa þeim samningi.“ Þau eru hinsvegar ekki viss um að Rússland muni endurnýja samningana, en viðræður hefjast aftur í haust.
Fiskur er aðalútflutningsvara Færeyinga, eða um 90%, og hefur Rússland verið aðalkaupandinn.
Bretar sjálfir enn í viðskiptum við Rússland
Bretar eru sjálfir þó hvergi nærri hættir í viðskiptum við Rússland, en til að mynda flytja þeir ennþá inn jarðefnaeldsneyti þaðan. Breska ríkisútvarpið greindi frá því að Bretland áætlaði að kaupa olíu frá Rússlandi til ársloka og hætta því svo, en ekkert kom fram um það hvort þeir myndu hætta að kaupa kol.
NATO ríkin höfðu samanlagt keypt jarðefnaeldsneyti fyrir meira en 54 milljarða Bandaríkjadollara frá því að innrás Rússlands í Úkraínu hófst þann 24. febrúar sl. til 4. júní sl.