Baldur og sykur-pabba kenningin

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Smærri þjóðríki eiga að leita sér skjóls hjá stórveldum. Þetta er kenning Baldurs Þórhallssonar prófessors í HÍ. Kenninguna smíðaði Baldur til að rökstyðja aðild Íslands að ESB. Smáríkjastofnun HÍ, sem Baldur setti á laggirnar, fær peninga frá Evrópusambandinu fyrir boðskapinn.

En þegar kemur að Úkraínu gildir sykur-pabba kenning Baldurs ekki. Þá heitir það að leyfa ríkj­um að ákveða sjálf, í krafti full­veld­is síns, hvernig þau vildu haga sinni ut­an­rík­is­stefnu... Kenningarleg nauðsyn verður frjálst val á augabragði.

Samkvæmt kenningu Baldurs ætti Pútín að vera sykur-pabbi Selenskí, rétt eins og Ísland ætti að vera hjálenda ESB. Baldur er ekki fræðimaður heldur aðgerðarsinni sem teygir og togar kenningar eftir hvernig vindurinn blæs hverju sinni.

Baldur beyglar og afflytur staðreyndir í þágu málstaðarins. Hann segir: Pútín hef­ur í raun haft neit­un­ar­vald um inn­göngu þeirra í NATO. Úkraína er ekk­ert á leið í NATO og hef­ur ekki verið það síðan 2008.“

Allir sem fylgjast með alþjóðamálum vita að Nató hefur frá 2014 þjálfað og vopnað úkraínska herinn og samhæft hann Nató-stöðlum. Úkraína var á fullri ferð að verða Nató-ríki, vantaði aðeins stimpil frá Brussel. Alvöru stjórnmálafræðingar, John Mearsheimer til dæmis, hafa vakið athygli á þessari staðreynd. Baldur stingur höfðinu í sandinn að hætti aðgerðasinna sem rekast á staðreyndir er henta ekki málstaðnum.

Ástæða stríðsins í Úkraínu er að ráðamenn í Kænugarði gerðust málaliðar Nató og ESB gegn Rússlandi. Í staðinn kæmi sú umbun að fá aðild að Brusselklúbbunum tveim.

Rússar létu um og eftir aldamótin það yfir sig ganga að Nató stækkaði í austur, þrátt fyrir vilyrði, ef ekki loforð, um að það yrði ekki gert þegar Rússar samþykktu sameiningu Þýskalands eftir fall Berlínarmúrsins.

Nató gekk á lagið og innbyrti gömul Varsjárbandalagsríki og setti upp herstöðvar á vesturlandamærum Rússlands. Nató er hvorki skátafélag né saumaklúbbur heldur hernaðarbandalag. Rússum fannst sér ógnað, lái þeim hver sem vill, og sögðu hingað og ekki lengra þegar Nató lýsti því yfir á fundi í Búkarest 2008 að næst yrðu Úkraína og Georgía tekin inn í bandalagið.

Síðsumars 2008 réðust Rússar inn í Georgíu, sem ekki verður Nató-ríki í bráð. Þá var eftir Úkraína sem bjó við óstöðugt stjórnarfar og talið spilltasta ríki Evrópu og þó víðar væri leitað. Stjórnarbylting 2014, studd af Bandaríkjunum og ESB, steypti af stóli forseta vinveittum Rússlandi. Í framhaldi tóku Rússar Krímskaga og studdu uppreisnaröfl í Donbass.

Friðarsamningar milli Rússlands og Úkraínu, Minsk I og II, voru gerðir 2015 en ekki uppfylltir. Úkraínuher fær fjármagn, þjálfun og stuðning frá Nató allar götur síðan.

Aðdragandi Úkraínustríðsins er að Rússum fannst sér ógnað af Nató. Fullvalda ríki skilgreina sjálf öryggishagsmuni sína þótt Baldur geri því skóna að vesturlönd ein eigi þann rétt. Einu sinni hét það heimsvaldastefna, núna alþjóðahyggja. Frá og með 24. febrúar tala vopnin.

Ráðandi frásögn vestrænna fjölmiðla er raðlygi að Úkraínuher gjörsigri Rússa, sem kunni varla að halda á vopnum og sé stjórnað af fjöldamorðingjum. Staðreyndir á vígvellinum segja aðra sögu. Mun liðfærri, með um 150 - 200 þús. hermenn, sigra Rússar hægt en örugglega um 500 þús. manna her Úkraínu.

Heiðarlegir fræðimenn, t.d. Martin van Creveld, viðurkenna villur síns vegar. Baldur rígheldur í blekkinguna og falsar söguna til samræmis við sniðmát alþjóðahyggjunnar.

Skildu eftir skilaboð