Sameiginlega skyndihersveitin og Íslendingar

frettinArnar Sverrisson, Pistlar4 Comments

Eftir Arnar Sverrisson:

Ráðamönnum Stóra-Bretlands hefur verið tíðförult til Svíþjóðar og Finnlands til að fullvissa frændur vora og frænkur um hernaðartryggð breska ríkisvaldsins. Þessi bardagavinátta á sér sérstaka sögu.

Í Wales var haldinn fundur æðstu ráðamanna í Nató árið 2014, þegar Bandaríkjamenn gerðu stjórnarbyltingu í Úkraínu. Þar voru lögð drög að stofnun Sameiginlegu skyndihersveitarinnar (SS - Joint Expeditionary Force). Heraflann skipa hermenn frá Eystrasalts- og Norðurlöndunum. Bretar eru í forsvari.

Breska utanríkisráðuneytið kunngerir, að „SS sé í færum til að berjast hvarvetna í heimi hér, þar sem tveim aðildarríkjum þurfa þykir.“ Stofnun SS er hluti af viðbragðsáætlun Nató, sem, að sögn, er unnin með hliðsjón af innrás Rússa í Úkraínu. Leiðtogarnir segja: „Árásir Rússa gegn Úkraínu hafa skekið hugsýn okkar um Evrópu sem óskipta, frjálsa og friðsamlega.“ Það kemur varla á óvart, að SS sé þjálfuð á sama hátt og her Úkraínu, þ.e. samkvæmt Nató stöðlum og samhæfingu.

Íslendingar hafa einnig girt sig í vígaloðbrókina eins og Ragnar loðbrók forðum og grafið upp atgeirinn. Þeir sameinuðust í fyrra skjaldmeyjum í Noregi, Danmörku, Bretlandi, Eistlandi, Lettlandi, Lithaugalandi og Hollandi. Svíar og Finnar gerðust þátttakendur í SS, þegar árið 2017. Ári síðar var SS í stakk búin til að halda æfingar með Nató.

Eins og gefur að skilja eru Bandaríkjamenn himinlifandi með þetta hernaðarframtak. SS var boðin þátttaka í árlegri heræfingu, tengdri ímyndaðri ógn á og við Eystrasalt, BALTOPS, undir forystu Bandaríkjamanna.

Á fundi æðstu leiðtoga í fyrra, tveim dögum fyrir innrás Rússa í Úkraínu 24. febrúar, lýstu þeir yfir, „að SS sé hópur samstilltra forvirkniþjóða, sem aðhyllast sömu gildi og markmið, og beina sameiginlegri athygli að öryggi og stöðugleika við Norður-Atlantshaf og Eystrasalt. Þau sameinuðust m.a. gegn aukningu í herafla Rússa við landamæri Úkraínu og frekari árásum þeirra á Donbass svæðinu.“ Tveim dögum síðar gerðu Rússar einmitt innrás í Úkraínu.

Forvirkni felur í sér staðsetningu margvíslegra vígtóla meðfram vesturlandamærum Rússlands frá Finnlandi til Norður-Makedóníu - og heræfingar vitaskuld. Æfingin 2019 var kölluð „Verndarar Eystrasalts“ (Baltic Protector). Þetta er í fullu samræmi við nýheimsvaldastefnu Bandaríkjanna.

Utanríkisráðherra Breta, Ben Wallace, segir, „hersveitir okkar munu sameinast bandamönnum og samstarfsaðiljum í Nató og SS til að sýna samstöðu og styrk í viðamesta vígaviðbúnaði, eftir að kalda stríðinu lauk.“ Annað er nú reyndar skollið á.

Þegar þetta er skrifað hafa leiðtogar Lithaugalands, í umboði Evrópusambandsins, hótað Rússum lokun landflutninga til Kalingrad, en þar er Eystrasaltsflotastöð þeirra. Stríðshaukarnir í Bandaríkjunum lögðu fyrir nokkrum árum síðan áherslu á nauðsyn þess að hrifsa Kalingrad úr höndum Rússa.

Samtímis undirbúningi vígtólaátaka heldur áfram sálhernaðurinn. Það er ekki bara eitruð karlmennska, sem skapar fólki ugg, og vondar veirur á sveimi, heldur er nú endurvakin Rússagrýlan, sem grenjar ógurlega. Reyndar hefur einn af mikilhæfustu leiðtogum Vesturlanda, forsætisráðherra Breta, Boris Johnson, spunnið þetta saman í þá skýringu, að Úkraínustríðið stafi af eitraðri karlmennsku Valdimars Pútín – og auglýsir skiljanlega eftir fleiri kvenleiðtogum.

Fáir eru betur að sér í sál- og upplýsingahernaði, en einmitt Bretar, sem fyrrgreindur stríðshugmyndafræðingur stjórnar mildri hendi. T.d. höfðu Bretar veg og vanda að undirróðursstarfseminni gegn stjórn Sýrlands og Úkraínu í samstarfi við leyniþjónustu Bandaríkjanna.

Upplýsingahernaðurinn hefur það að markmiði að valda óróa, efa og skelfingu. Og hvað er þá betra en að skapa aðsteðjandi ógn. Þetta eru þekktar forsendur múgsefjunar, sbr. bók Mattias Desmet: „Sálfræði gerræðisins“ (The Psychology of Totalitarianism). Mikilvægasti aflvaki múgsefjunar er óbundið angistarflæði, sem áróðursmeistarar beina í ákveðinn farveg, þ.e. finna því útrás í blóraböggli eða einfaldri skýringu.

Meðal Jón og Gunna í Svíþjóð og Finnlandi, skelfingu lostin, samþykkja nú formlega inngöngu í Nató. Þessar þjóðir hafa í hrossakaupunum samþykkt að framselja til Tyrkja fjölda manna, sem þeir skilgreina sem hryðjuverkamenn, rétt eins og Bandaríkjamenn skilgreina Julian Assange. Aukin heldur lofa Svíar og Finnar að aflétta banni á vopnasölu til Tyrkja. Með inngöngu Svía og Finna herða Bandaríkjamenn og Bretar enn frekar tökin á vestrænum lýðræðisríkjum í baráttu sinni gegn Rússlandi og Kína.

Finnar og Svíar leggja traust sitt á hina margumræddu grein fimm í samþykktum Nató, sem kveður á um að verði aðildarþjóð fyrir vopnaárás geti hún beðið hinar um liðsinni. En SS er sem sé ekki bundin af slíkri grein.

„Íslenski herinn“ hefur á að skipa víkingasveit, sem alténd gæti aðstoðað SS. En leynivopn Íslendinga er kvenfrelsunarherinn, sem fór í útrás og hefur m.a. aflað mikilvægrar reynslu í Afganistan. Honum mætti ef til vill beita til að frelsa rússneskar konur undan álögum Valdimars, en þær ku hafa kiknað í hnjáliðunum, þegar hann birtist ber að ofan á hestbaki, hálfnakti, rússneski riddarinn.

Pistillinn með heimildum.

4 Comments on “Sameiginlega skyndihersveitin og Íslendingar”

  1. Hver skrifar þetta eiginlega ? Virðast vera nafnlaus skrif ? Finnst ykkur það í góðu lagi ?

  2. Já, nákvæmlega, hver skrifar þetta. Ég vil bara NATÓ áróður í morgunmat með réttri undirskrift.

  3. What really happened after 1945 by David Wilcock explains your false reality for decades and decades again it us the darknes you supported that lured you into you believing a 180 degrees from what you all thought reality .Know this truth help others with it and it ofcourse was what will eventually give you peace of mind.MARISKA VAN DER MEER SIGLUFJORDUR

  4. Beautiful souls always love the truthcand always share and also always try to support you as darknes keeps it away and thinks you would ever give up .Well we need the truth love to you all

Skildu eftir skilaboð