Íslensk Covid rannsókn: smit í skólum og alvarleg veikindi barna fátíð

frettinInnlendarLeave a Comment

Ný íslensk rannsókn, SARS-CoV-2 smit hjá börnum, birtist í tímaritinu, The Pediatric Infectious Disease Journal, 8. júlí sl. Höfundar rannsóknarinnar eru þeir Ásgeir Haraldsson barnalæknir, Valtýr Stefánsson Thors barnalæknir, Þorvarður Jón Löve gigtarlæknir og Kristín L. Björnsdóttir (vantar á myndina). Rannsóknartímabilið er 28. febrúar 2020 til 31. ágúst 2021.

Í rannsókninni voru smit meðal barna á Íslandi skoðuð í þremur smitbylgjum og leiddi hún í ljós að smit í skólum væru fátíð, innlagnir barna voru engar á rannsóknartímabilinu og sjúkdómurinn væri ekki alvarlegur meðal barna.

Þess má geta að a.m.k. tveir höfundanna, þeir Valtýr og Ásgeir barnalæknar mæltu með Covid bólusetningum barna. Ásgeir taldi þær „bráðnauðsynlegar“ og Valtýr taldi nauðsynlegt að verja börnin þrátt fyrir að þau veiktust ekki alvarlega. (Bólusetningar 5-12 ára hófust í janúar 2022,   bólusetningar 12-15 ára hófust í ágút 2021, 16 -18  ára voru flest bólusett um vorið/byrjun sumars 2021). Kollegar þeirra á Norðurlöndunum voru þessu ósammála.

Niðurstaða rannsóknar:

Alls voru 1749 börn smituð af SARS-CoV-2 í þremur smitbylgjum. Allar bylgjur voru svipaðar varðandi alvarleika sjúkdómsins en tíðnin var fimmfalt hærri í þriðju bylgjunni (3,5 á móti 0,73/1000 börn/mánuði). Engin börn voru með alvarleg einkenni, 81 (4,6%) voru með miðlungsmikil einkenni, 1287 (73,9%) voru með væg og 374 (21,5%) voru einkennalaus. Einkenni frá efri (n = 839, 48%) og neðri öndunarvegi (n = 744, 43%) voru algengust. Miðgildi á lengd einkenna var 5 dagar og unglingar voru í meiri hættu á lengri veikindum [OR:1,84 (1,39–2,43)]. Nítján (1,1%) börn þurftu á læknisaðstoð að halda en ekkert barn var lagt inn á sjúkrahús. Uppruni sýkingar var í 65% tilvika aðili á heimilinu.

Samantekt og umfjöllun um rannsóknina sem fylgir hér neðar í þýðingu má lesa hér og sjálfa rannsóknina hér.

1) Það var aldrei mikil útbreiðsla smita í skólum, 65% barna smituðust á heimili (af heimilismanni), en aðeins 12% í skóla eða dagvistun.

2) Lág tíðni fylgikvilla SARS-CoV-2 sýkinga meðal barna styður þá skoðun að COVID-19 hjá börnum veldur almennt ekki alvarlegum einkennum, og þrátt fyrir að helmingur tilfellanna hafi átt sér stað á meðan hið skæðara delta afbrigði var í útbreiðslu var ekki var þörf á neinum innlögnum á sjúkrahús.

3) Sú staðreynd að í íslenska hópnum sem samanstóð af 1749 smituðum börnum, þurfti ekkert barn að leggjast inn á sjúkrahús bendir til þess að innlögn á sjúkrahús í þessum aldurshópi, 0 til 17 ára, sé ekki hærri en 0,1%–0,3% eins og greint er frá í norskri rannsókn.

Hvers vegna er þessi litla rannsókn frá svo litlu landi stórar fréttir fyrir þá sem búa utan Íslands?

Svarið, svo vitnað sé beint í rannsóknina, er mikilvægt:

„Þrátt fyrir að þetta úrtak sé ekki mjög stórt, þá hefur rannsóknin þann mikla kost að innihalda öll börn með staðfesta SARS-CoV-2 sýkingu á Íslandi á rannsóknartímabilinu.

Uppruni sýkingar hjá nær öllum smituðum fullorðnum og börnum var rekjanlegur vegna strangra reglna íslenskra heilbrigðisyfirvalda um sýnatökur, rakningar og einangrun á þeim tíma. Á rannsóknartímanum voru flest börn sem og flestir fullorðnir, sem greindust smituð, þá þegar í sóttkví og ólíklegt að margar sýkingar meðal barna hafi „farið fram hjá kerfinu.“

Þessi rannsóknarhópur endurspeglar einnig óskilgreindan hóp barna með staðfesta sýkingu frekar en eingöngu börn sem voru lögð inn á sjúkrahús eins og raunin er í flestum öðrum rannsóknum og hjálpar íslenska rannsóknin því til við að varpa ljósi á sanna tíðni fylgikvilla og alvarlegra sýkinga meðal barna.“

Með öðrum orðum, þessi rannsókn tekur til allra barna á Íslandi með COVID-19 og er því síður hlutdræg en stærri rannsóknir í Bandaríkjunum og annars staðar þar sem eingöngu er verið að skoða þau börn sem voru lögð inn á sjúkrahús, oft af öðrum orsökum en COVID-19.

Niðurstaðan er skýr: Þáttur barna í útbreiðslu smita er nánast hverfandi og þótt flestir sérfræðingar séu nú sammála um að forðast beri lokanir skóla og leikskóla, hafa mörg börn orðið fyrir truflunum á skólastarfi. Tilgangurinn með lokunum skóla var að stöðva útbreiðslu veirunnar. Ávinningurinn af lokunum skóla er í besta falli ósannaður og í versta falli skaðlegur.

Skildu eftir skilaboð