Ný meðferð í baráttunni við góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli

frettinErlent, PistlarLeave a Comment

Greinin birtist fyrst á Heilsuhringnum 5. júlí 2022.

Nýlega rak á fjörur okkar í Heilsuhringnum YouTube ræma um nýja tegund meðferðar við stækkuðum blöðruhálskirtli. Þetta vakti áhuga okkar og er hér stutt umfjöllun um þessa meðferð og hvernig hún gagnast. Fyrir þá sem vilja skoða ræmuna er slóðin hér.

Kynnirinn er læknirinn Richard Levin hjá Chesapeake Urology en Chesapeake er staðsett í Baltimore rétt norðan við Washington í Bandaríkjunum. Meðferðin kallast Rezum Treatment eða Rezum meðferð og er á margan hátt áhugaverð.

Stækkun á blöðruhálskirtli eða Benign Prostatic Hyperplasia skammstafað BPH eða góðkynja stækkun á blöðruhálskirtli. Mynd 1 er skjáskot úr umræddum fyrirlestri af blöðru og blöðruhálskirtli. Myndin til vinstri sýnir heilbrigðan blöðruhálskirtil en sú til hægri sýnir stækkaðan blöðruhálskirtil.

Munurinn á heilbrigðum blöðruhálskirtli og kirtli með BPH

Eins og sést er stækkunin að mestu leyti utan um þvagrásina og getur komið að því að þvagrásin verði illa leiðandi og þvaglát því orðið erfitt. Mikið er til af upplýsingum um þetta fyrirbæri á netinu og vitna ég hér í grein á vefnum þvagfæraskurðlæknir.is um almenn áhrif þessa heilsukvilla.

Í fyrsta lagi er gerður greinarmunur á krabbameini í blöðruhálskirtli og góðkynja stækkun (Benign Prostatic Hyperplasia, BPH). Síðarnefnda fyrirbærið er ekki illkynja krabbamein, getur ekki dreift sér um líkamann og er afar sjaldan hættulegur mönnum. Orsakir BPH eru ekki að fullu kunnar en ljóst að hormónar, einkum karlkynshormónið (testosterón) skipta þar miklu máli. Blöðruhálskirtillinn stækkar og eykst að rúmmáli og getur á þann hátt þrengt að þvagrásinni og stíflað afrennsli frá þvagblöðrunni við þvaglát.

Með hækkandi aldri eykst tíðni BPH. Á aldrinum 50-60 ára er tíðni BPH u.þ.b. 50% og hjá mönnum yfir áttrætt er tíðnin um 80%. BPH er oft á tíðum einkennalaus en getur valdið þvaglátaeinkennum. Er slíkum einkennum jafnan skipt í 2 meginflokka þar sem annars vegar er um að ræða svokölluð tregðueinkenni (treg þvaglát með dræmri tæmingu, slappri buni og erfiðleikum við að hefja þvaglát) og hins vegar svokölluð ertingseinkenni (tíð og bráð þvaglát, bráðaþvagleki og næturþvaglát).

Í vissum tilvikum geta menn lent í algeru, bráðu þvagstoppi, koma ekki frá sér deigum þvagdropa með tilheyrandi óþægindum. Gerist slíkt þurfa menn að leita sér hjálpar og oftast þarf undir þessum kringumstæðum að setja upp svokallaðan þvaglegg en þá er grönn slanga þrædd inn um þvagrás í blöðruna og hún tæmd á þann hátt. Uppblásinn belgur á enda leggjarins tryggir að hann renni ekki út úr blöðrunni og er þessi slanga oft skilin eftir í nokkra daga. Einnig þekkist það að sjúklingum sé kennd svokölluð hrein aftöppun (HIK) en þá lærir sjúklingurinn að tappa af sér með einnota þvagleggjum sem í lok hverrar aftöppunar eru dregnir út og hent. Á þann hátt er tryggt að blaðran tæmist.

Langvinn, stigvaxandi þvagteppa veldur oft á tíðum lúmskari einkennum en nái slík þvagteppa að ganga langt getur hún haft í för með sér skerta nýrnastarfsemi og myndun steina innan þvagblöðru.

Meðferð getur byggst á lyfjum eða aðgerð

Algengasta skurðaðgerðin er svokölluð heflunaraðgerð (TURP) en sú aðgerð er framkvæmd í mænudeyfingu, speglað er gegnum þvagrás og kirtilvefur „heflaður“ eða „fræstur“ í burtu. Við aðgerðina er losað um stífluna og þvaglát verða greiðari í kjölfarið. Sjúklingur dvelur alla jafna á sjúkrahúsi næturlangt og útskrifast oft með inniliggjandi þvaglegg sem dreginn er að nokkrum dögum liðnum.
Ef kirtillinn er mjög stór getur þó verið erfitt að framkvæma TURP og í þeim tilvikum getur þurft að gera opna skurðaðgerð. Þá eru svokallaðar laser-aðgerðir (HOLEP) að ryðja sér til rúms hér á landi þar sem hægt að er fjarlægja mun stærri kirtla með speglunartækni en ella. [2]

Dr. Levin talar um að í USA séu 12 milljónir karlmanna greindir með BPH og 790 þúsund nýgreiningar á ári hverju. Það er hellingur. Góðkynja stækkun blöðruhálskirtils hefur áhrif á 50% manna á aldursbilinu 51 – 60 ára. 90% karlmanna sem orðnir eru áttræðir finna fyrir stækkun blöðruhálskirtils.
Rezum aðferðin er að því leyti til spennandi að þeir sem fá meðferðina eru ekki nema ca klukkutíma undir læknishendi og eru undra fljótir að jafna sig. Meðferðin er áhrifarík og gagnast mörgum en eins og alltaf þá hentar hún ekki öllum.

Meðferðin felst í því að örlitlum skammti af gufu er sprautað inn í blöðruhálskirtilinn þar sem ofvöxturinn er. Það fer þannig fram að slöngu með sérstökum búnaði á endanum er þrætt upp um þvagrásina og numið staðar inn í blöðruhálskirtli. Þar er nál stungið í gegn um vegg þvagrásar, inn í kirtilinn og sáralitlum skammti af gufu sprautað inn. Orkan sem losnar úr læðingi þegar gufa breytir um fasa úr gufu við 100°c og í vatn við 99°C er talsverð og það er akkúrat sú orka sem gerir galdurinn. Orkan sem losnar er 540kkal/per gr. af vatni.

Nál stungið í gegn um þvagrásina inn í ofvaxinn vefinn.

Örlitlu magni af gufu er sprautað út um nálaraugað sem kólnar svo í vefnum og drepur þann aukavef sem hefur myndast. Þetta þarf að gera á nokkrum stöðum þar sem vefurinn umlykur þvagrásina og þegar það hefur verið gert samkvæmt viðeigandi reglum þá drepst allur vefurinn. Líkaminn sér síðan um að fjarlægja dauða vefi og innan tveggja vikna finnur sjúklingur fyrir auknum léttleika við þvaglát og innan þriggja mánaða er hann orðið alveg eðlilegur. Þó hefur reynslan sýnt að 20% þeirra sem hafa fengið þessa meðferð finna strax mun á sér.

Þessi aðgerð hefur ótvíræða kosti. Það þarf ekki að svæfa sjúkling. Sjúklingur mætir á stofu og er innan við 15 mínútur í aðgerð. Aðgerðin hefur engar aukaverkanir gagnvart t.d. þvagrás eða kyngetu og sjúklingur getur verið kominn í eðlilega rútínu innan fárra daga. Dr. Levin tekur það fram að þó þetta sé frábært fyrir suma þá hentar þetta ekki öllum og verður alltaf læknisfræðilegt mat að liggja fyrir. Forvitnilegt verður að vita hvort þessi meðferð verði notuð á Íslandi í framtíðinni.

Þýtt og endursagt af YouTube myndbandi, vef rezum.com og vef thvagfaeraskurdlaeknir.is
5.07.22
Valdemar G. Valdemarsson

Tilvitnanir
[1] Mynd 1 af blöðruhálskirtli. Skjáskot af YouTube myndbandi. 6.07.22


[2] Þvagfæraskurðlæknir.is. 6.07.22. 
[3] Mynd 2. Skjáskot af YouTube myndbandi. 6.07.22 


Skildu eftir skilaboð