Selenskí játar ósigur í Donbass – friður í augsýn?

frettinPistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Úkraínustríðið snerist í upphafi fyrst og fremst um austurhluta landsins, héruðin Donetsk og Luhansk, sem sameiginlega kallast Donbass. Rússar eru þegar komnir með stærstan hluta svæðisins undir sína stjórn, auk héraða í Suður-Úkraínu.

Eftir stríðsátök á sjötta mánuð fyrirskipar Selenskí forseti brottflutning almennra borgara af því litla landssvæði sem stjórnin í Kænugarði ræður enn í Donetsk-héraði. Orðræðan hingað til hefur verið að Úkraínuher muni innan skamms endurheimta tapað landssvæði.

Játning á ósigri, þó óbein sé, gæti verið til marks um stefnubreytingu í Kænugarði. Í lok júní boðaði Selenskí að stríðinu yrði að ljúka fyrir árslok. Um sama leyti var tilkynntur undirbúningur Úkraínuhers fyrir stórsókn í héraðinu Kherson í Suður-Úkraínu. Ekki bólar enn á þeirri sókn. Sérfræðingar hlynntir Úkraínu telja mánuð eða mánuði í að suðursóknin hefjist. Kannski að Selenskí, og bandamenn hans í vestri, telji nú að átökum verði að linna fyrr.

Vestræn aðstoð er ekki nóg til að Úkraínuher haldi víglínunni í austri. Þótt Rússar sæki ekki fram með hraði gera þeir það hægt og örugglega.

Ef austurhéruðin falla Rússum í hendur eiga þeir þrjá kosti. Í fyrsta lagi að treysta stöðu sína þar, t.d. með töku borgarinnar Karkhíf í norðri. Í öðru lagi vestursókn með hótun að leggja alla Úkraínu undir sig. Í þriðja lagi að sækja að hafnarborginni Ódessu, sem liggur í suðri, vestur af Kherson.

Stöðumat stjórnarinnar í Kænugarði hlýtur að taka mið af vígvellinum. Þegar ekki er kostur á sigri er skásti ósigurinn besti kosturinn. Um áramót er ekki víst að neitt verði eftir af Úkraínu haldi fram sem horfir.

One Comment on “Selenskí játar ósigur í Donbass – friður í augsýn?”

  1. Frettin.is hefur ekki farið leynt með að hún tekur afstöðu með Rússum. Rússar eiga ekkert gott skilið í þessu stríði sínu „sérstakri hernaðaraðgerð“ þeir geta kallað þetta hvað sem þeir vilja en það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir eru að ráðast á sjálfstæða þjóð og drepa fólk, menn konur og börn. En í þetta skiptið mæta þeir mikilli mótstöðu heimamanna með stuðningi USA og NATO. Þetta stríð gæti stigmagnast í heimstirjöld ef fleir lönd dragst inn í þetta.

Skildu eftir skilaboð