Rangfærslur Dags B. um flugvöllinn

frettinPistlarLeave a Comment

Eftir Björn Bjarnason - greinin birtist fyrst á bjorn.is.

Ef til vill kemur fáum á óvart að Dagur B. túlki opinberar skýrslur á rangan hátt til að rökstyðja veikleika í málstað sínum gegn Reykjavíkurflugvelli.

Vegna eldgossins sem hófst í Meradölum á Reykjanesi miðvikudaginn 3. ágúst eru enn á ný umræður um framtíð Reykjavíkurflugvöllur. Í stað hans var rætt að reisa nýjan flugvöll í Hvassahrauni á Reykjanesi. Þykir sá kostur nú alfarið úr sögunni.

Fréttamaður ríkisútvarpsins ræddi við Dag B. Eggertsson borgarstjóra laugardaginn 6. ágúst. Hann sagði að leggja yrði varaflugvöll fyrir Keflavíkurflugvöll einhvers staðar á suðvesturhorni landsins, þar sem hægt yrði að taka á móti síauknu alþjóðaflugi hingað til lands. Máli sínu til stuðnings vísaði hann í skýrslu sem Þorgeir Pálsson, fyrrverandi flugmálastjóri, tók saman fyrir nokkrum árum. Reykjavíkurflugvöllur væri „of lítill til þess að vera fullgildur varaflugvöllur“.

Þegar Dagur B. lét samskonar ummæli falla um skýrslu Þorgeirs á sínum tíma sagði öryggisnefnd Félags íslenskra atvinnuflugmanna (FÍA) í umsögn (dags. 27. nóvember 2020) um tillögu til þingsályktunar um þjóðaratkvæðagreiðslu um framtíð Reykjavíkurflugvallar að borgarstjóri færi með rangt mál, hann rangtúlkaði skýrslu Þorgeirs.

Í lok umsagnarinnar sem Ingvar Tryggvason, formaður ÖFÍA, undirritar segir:

„Það er útaf fyrir sig rétt sem borgarstjóri sagði í umræddu útvarpsviðtali, að Reykjavíkurflugvöllur dugar ekki einn og sér sem varaflugvöllur á íslandi. Þetta höfum við verið meðvituð um í áratugi, en það er ekki þar með sagt að það sé tilefni til að leggja hann niður, í ljósi þess hve fjölbreyttu hlutverki hann gegnir.

Skýrsla Þorgeirs Pálssonar markar raunverulega vatnaskil þar sem hún varpar ljósi á það víðtæka almannavarnarhlutverk sem Reykjavíkurflugvöllur þjónar, enda á afar heppilegum stað til að gegna hlutverki sínu sem öryggisflugvöllur.“

Ef til vill kemur fáum á óvart að Dagur B. túlki opinberar skýrslur á rangan hátt til að rökstyðja veikleika í málstað sínum gegn Reykjavíkurflugvelli. Að við slíkan málflutning sé unað ár eftir ár eða jafnvel áratugum saman um mikilvægt mál sem þetta sýnir hve miklu skiptir að haldið sé þræði í opinberum umræðum. Þeim sé ekki haldið áfram eins og ekkert hafi í skorist þótt fyrir liggi handbær, skilgreind gögn sem afsanna spuna eins og þann sem fráfarandi borgarstjóri leyfir sér að hafa nú og hefur haft um Reykjavíkurflugvöll og framtíð hans.

Sperra-flugskyli

Flugskýli landhelgisgæslunnar sem nú rís við Reykjavíkurflugvöll er enn eitt minnismerkið um tvískinnunginn í flugvallarmálinu undir forystu Dags B. Eggertssonar (mynd: lhg.is)

Njáll Trausti Friðbertsson, þingmaður Sjálfstæðisflokksins, birti umsögn ÖFÍA á Facebook sem athugasemd við greinargóða færslu þar eftir Þorkel Sigurlaugsson, varaborgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, sjá hér 

Nú er að ljúka smíði nýs flugskýlis landhelgisgæslunnar við Reykjavíkurflugvöll. Í Morgunblaðinu 21. maí 2021 birtist frétt um að viðreisnarmaðurinn Pawel Bartoszek, þáv. formaður skipulagsráðs borgarinnar, vísaði stjórnendum gæslunnar á Hvassahraun, Reykjavíkurflugvöllur væri „eðli málsins samkvæmt ... víkjandi í skipulaginu“. Skýlið rís samt, minnisvarði um tvískinnung og vandræðaganginn við stjórn Reykjavíkur undir forystu Dags B. Eggertssonar. Nú leggur framsóknarmaðurinn Einar Þorsteinsson blessun sína yfir tvöfeldnina og hún heldur áfram.

Skildu eftir skilaboð