Sólveig Anna svarar ásökunum RÚV um að Efling hafi ekki staðið skil á skattgreiðslum

frettinInnlendarLeave a Comment

RÚV sagði frá því í dag að Stéttarfélagið Efling hafi ekki staðið skil á skatt- og lífeyrisgreiðslum starfsmanna frá því fjármálastjóri félagsins hætti störfum í byrjun sumars.

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, svarar þessum ásökunum á facebook fyrir stuttu:

„Fréttastofa RÚV í stuði. Heldur því fram eins og ekkert sé að ekki hafi verið staðið skil á skatt og lífeyrisgreiðslum starfsfólks Eflingar vegna þess að fjármálastjóri "hafi verið látinn fara". Fyrrum fjármálastjóri félagsins sagði sjálfur upp störfum, áður en ég var kjörinn formaður. Staðreyndin er sú að bókhaldsfyrirtæki sem sér um launagreiðslur hjá Eflingu gerði mistök og þessvegna skiluðu gjöld af launum starfsmanna sér ekki á áfangastað. Um leið og það uppgötvaðist var farið í að leiðrétta málið. Framkvæmdarstjóri félagsins hefur svarað því starfsfólki sem hafði samband við hana og útskýrt málið.“

„En auðvitað þarf að nota tækifærið og berja á félaginu með því að flytja fáránlega ekki-frétt. Og auðvitað er tækifærið notað og Gabríel Benjamín, manninum sem hefur gert það að áhugamáli sínu að vera með mig á heilanum, gefið enn eitt tækifærið til að röfla í míkrófón. Fréttamaður RÚV segir að Gabríel hafi áður farið um mig "hörðum orðum". Hið rétta er að Gabríel hefur borið út róg um mig og m.a. kallað mig lygara í einka-skilaboðum til karlmanna útí bæ þegar ég sagði frá grafalvarlegri hótun sem beindist að mér og heimili mínu. Hann er með þráhyggju sem beinist gegn mér og hefur verið með lengi. Meðal annars lét hann bóka það sérstaklega í fundargerð samráðsfundar sem að lögmaður stjórnar Eflingar átti með honum sem trúnaðarmanni að ég vildi framkvæma skipulagsbreytingu á skrifstofu félagsins vegna þess að ég "þyrði ekki að horfa í augun á honum og reka hann". Að hann sé aumkunarverður maður er það skársta sem ég get sagt.“

„Ég vona að hann fari að fá eitthvað annað fólk en mig á heilann. Eða nei, ég óska engri manneskju þess að Gabríel Benjamín fái hana á heilann,“ sagði Sólveig Anna.

Skildu eftir skilaboð