Hagsmunasamtök heimilanna: Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

frettinInnlendar2 Comments

Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf

Hagsmunasamtök heimilanna sendu frá sér eftirfarandi yfirlýsingu og mótmæla harðlega þeim aðgerðum sem ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur og Seðlabankinn undir stjórn Ásgeirs Jónssonar eru að beita í baráttu við verðbólguna, enda gera þær aðgerðir einungis illt verra fyrir allan þorra almennings á Íslandi. 

Það er líka verulega ámælisvert að forsætisráðherra og fjármálaráðherra hafa varla sést á undanförnum vikum og mánuðum á meðan Ísland er að ganga í gegnum einhverja verstu efnahagskrísu í tugi ára, að bankahruninu 2008 undanskildu. Þau hafa með þessu skeytingar- og aðgerðaleysi sýnt hug sinn í verki gagnvart heimilum landsins. Annað gildir um Seðlabankastjóra sem virðist hins vegar hafa tekið stjórnina (á landinu) og gripið til harðra aðgerða sem gera ekkert annað en að fórna heimilum landsins í opið gin bankanna, án þess að þau fái nokkra björg sér veitt. Það verður að draga þá ályktun að þögn sé sama og samþykki og ríkisstjórn Katrínar Jakobsdóttur styðji þessar aðgerðir.

Til vitnis um fáránleika þessara aðgerða má benda á könnun ASÍ og Íslandsbanka frá því í júní en þá þegar höfðu mánaðarleg útgjöld fjögurra manna fjölskyldu hækkað um 81.916 krónur á einum mánuði. Af því voru 15.250 krónur vegna hækkunar á mat og bensíni á meðan mánaðarlegar vaxtagreiðslur af 40 milljón króna óverðtryggðu láni höfðu hækkað um 66.666 krónur eða fimmfalt það sem verðbólgan kostaði fjölskylduna.

Daginn eftir að RÚV birti þessa frétt hækkaði Seðlabankinn svo vexti um heilt prósentustig í viðbót sem leiddi til þess að vaxtabyrði þessarar sömu fjölskyldu óx á einu bretti um 33.333 krónur og fór upp í 99.999 sem nær sjöfaldaði byrði þessarar fjölskyldu á einu bretti.

Á sama tíma berast fregnir af methagnaði bankanna, heilum 32 milljörðum á fyrri helmingi þessa árs.

Sá hagnaður samsvarar því að hver einasti íslendingur í 360.000 manna þjóðfélagi hafi lagt tæpar 90.000 krónur í þennan hagnað sem samsvarar 355.000 á hverja fjögurra manna fjölskyldu á hálfu ári. Haldist hagnaður bankanna eins, en vaxi ekki eins og allar líkur eru á, verða þetta 180.000 á mann og 710.000 þúsund á fjölskylduna sem samsvarar meðalmánaðartekjum einnar fyrirvinnu.

Þetta er ekkert annað en gróf upptaka á ráðstöfunarfé og eignum heimilanna.

Það er ljóst að þó verðbólgan sé illviðráðanleg mun meginhluti heimila ráða við hana en hins vegar munu aðgerðir ríkisstjórnarinnar og Seðlabankans steypa mörgum fjölskyldum í auknar skuldir, greiðsluerfiðleika og vanskil sem enda munu með aðförum, nauðasamningum eða heimilismissi.

Við hjá HH þekkjum þessi ferli og það þarf ekki hagfræðing til að sjá að fjölskyldur með meðaltekjur eða minna, munu ekki ráða við tuga þúsunda kostnaðarauka á hverjum mánuði, ofan á verðbólgu sem er alveg nóg fyrir flest heimili að takast á við.

Katrín Jakobsdóttir, Bjarni Benediktsson og Sigurður Ingi Jóhannsson, ykkar verður ábyrgðin ef svo fer sem horfir. Hagsmunsamtök heimilanna vilja minna ykkur á að ykkar hlutverk er að vernda heimilin en ekki að fórna þeim.

Það skiptir máli að sigrast á verðbólgunni en fyrst og fremst þarf að verja þjóðfélagið, heimilin, fyrir afleiðingum hennar! Við hljótum að geta sammælst um að þið hjálpið ekki heimilunum með því að auka á erfiðleika þeirra með því að margfalda mánaðarleg útgjöld undir því yfirskyni að verið sé að verja þau fyrir áhrifum verðbólgu.

Afdrif heimilanna eru alfarið á ykkar ábyrgð og eitt heimili sem bankarnir hirða VEGNA svokallaðra "aðgerða gegn verðbólgunni" er einu heimili of mikið.

Snúið af þessari braut áður en það verður of seint því almenningur er ekki fóður fyrir fjármálakerfið!

f.h. stjórnar Hagsmunasamtaka heimilanna

Ásthildur Lóa Þórsdóttir, formaður

2 Comments on “Hagsmunasamtök heimilanna: Aðgerðir gegn verðbólgunni verri en verðbólgan sjálf”

  1. Við vitum öll að í kreppu er fjármagnseigendum alltaf bjargað á kostað almennings, þetta eru engin ný sannindi.

  2. Þessi forsætisráðherra er algerlega gagnslaus. Sést vel þegar hún talar um að skrifa glæpasögu, um sjálfan sig þá og Bjarna? Á meðan fólk er að við það missa heimilin sín?

Skildu eftir skilaboð