Karlasláturhúsið Úkraína

frettinArnar Sverrisson, Pistlar2 Comments

Eftir Arnar Sverrisson:

„Utanríkismál” (Foreign Affairs) er eitt þeirra rita í Bandaríkjunum, sem að töluverðu leyti endurspeglar og mótar utanríkisstefnu stjórnvalda. Fyrir skömmu birtist áhugaverð grein með fyrirsögninni, „Nú er kominn tími til, að Nató láti að sér kveða í Úkraínu.“ Greinarhöfundar boða beina hernaðaríhlutun bandalagsins, en láti ekki þar við sitja að puðra til Úkraínu vopnum og fjármunum. Síðustu sex mánuði hafa Úkraínumenn þegið átta milljarða dala.

Vopnin, þar á meðal hreyfanlegar eldflaugar (High Mobility Artillery Rocket Systems), eru talin auðvelda gagnsóknir og varnir. En það eru einmitt þessi vopn, sem Rússar hafa eytt, m.a. í Ódessa. Bent er á ályktun síðustu Nató ráðstefnu, þar sem Rússar eru úthrópaðir sem aðalfjendur Nató. Greinarhöfundar túlka sem svo, að þessi ályktun ætti hafa í för með sér meiri hernaðarumsvif. Þjálfa beri fleiri úkraínska hermenn. En Bandaríkjamenn hafa verið, ásamt Bretum og Kanadamönnum, sérstaklega iðnir við þann kolann – einkum eftir valdaránið árið 2014.

Boðskapur höfunda skýtur þó að sumu leyti heldur skökku við, því ekki ber á öðru en að vestræn stjórnvöld séu í anda raunsæisstjórnmála að gefa eftir í efnahagsstríðinu við Rússa; útbúnaði til gasleiðslunnar, Nord Stream I, var hleypt til Rússlands; flutningar til Kalingrad með járnbraut eru leyfðir; bresk tryggingafélög eiga samstarf við rússnesk; ESB gerir undantekningu á vissum viðskiptum með landbúnaðarvörur, áburð og olíu - samtímis því, að Tyrkir og Rússar endurnýja ástir sínar og blása lífi í viðskipti sín á milli. Þar að auki má aftur ræða gjörspillinguna í Úkraínu í meginstraumsfjölmiðlum. Meira að segja RÚV flytur fréttir af ómannúðlegri meðferð fatlaðs fólks (án þess að bendla Vladimir Putin við skömmina).

Þetta er hakkavél helvítis

Staðan á sláturvöllunum, þar sem ungum karlmönnum frá Rússlandi og Úkraínu er att á foraðið, virðist allt öðruvísi en greinarhöfundar og vestrænir miðlar óska sér. Úkraínskur hermaður segir á þessa leið: Það er varla svo, að árásum sé svarað frá varnarvirkjum okkar. Andskotarnir skjóta sprengjum fyrirhafnarlaust í skotgrafirnar og sprengja múrveggi þeirra í tætlur á svipstundu. Við hörfum stöðugt - ekkert hlé og engin hvíld. … Þetta er hakkavél helvítis þar sem hermennirnir nota líkama sína sem skildir væru.

Amnesty International sendi skoðunarhóp til Úkraínu. Í skýrslu hans var Úkraínumönnum álasað fyrir þá herkænsku, að staðsetja bardagasveitir og vopn í íbúðabyggð og í stofnunum. Það þarf varla herfræðinga til að gera sér í hugarlund, að það hafi í för með sér dráp á almennum borgurum. Þetta fór að vonum illa fyrir brjóstið á Volodomyr. Samtökin hafa nú sent afsökunarbeiðni (eða því sem næst). Amnesty benti einnig á, að samtökin hefðu fundið vísbendingar um tilefnislausar árásir Rússa á íbúðarhverfi.

Meðan drápsæðið geisaði í Úkraínu, sátu stjórnvöld vestrænna ríkja, Íslendingar meðtaldir, á rökstólum um það, hvernig reisa mætti Úkraínu úr rjúkandi rústum þess stríðs, sem mörg þeirra eru beinlínis meðábyrg fyrir. Hrossalækningar, þ.e. nýfrjálshyggjulækningar, samkvæmt aðferðum Alþjóðabankans (World Bank) og Alþjóða gjaldeyrissjóðsins (International Monetary Fund) voru til umræðu. Þessi aðferð var m.a. reynd á Rússum á síðasta áratugi síðustu aldar. Rannsókn frá Barnahjálparstofnun Sameinuðu þjóðanna (UNICHEF) gaf til kynna, að þetta ævintýri undir leiðsögn William (Bill) Jefferson Clinton og Boris Nikolayevich Yeltsin (1931-2007), hefði kostað 3.2 milljónir Rússa lífið.

Leiðandi Úkraínuherfræðingar í Bandaríkjunum og Evrópu beita nú fyrir sig „samskipunarfrelsunarfræðunum“ (intersectionalism) þ.e. baráttufræðum kvenfrelsaranna, þar sem öllum, sem aumir teljast, er skipað í sömu stríðsskör. Enda er kveðið á um það í svokallaðri Lugano áætlun Nató, að jafnrétti kynjanna og meðveru (inclusion) annarra hópa, sem telja sig beitta misrétti, skuli tryggð. Hér ganga í heilagt hjónaband nýfrjálshyggja (neoconservativism) og félagsleg stríðshyggja (social justice warriors). Eymdarhyggjuheimsveldið (woke imperium) kynni að vera í deiglunni.

En það á ekki af íbúum Úkraínu að ganga – sérstaklega karlmönnum. (Konum, börnum, hundum og köttum er komið í skjól.). Drápin halda áfram og berjast skal til síðasta karls. Nýjasta aðildarþjóð Nató, Svíar, ætlar nú opinberlega að leggja sitt lóð á drápsvogarskálina með herþjálfun fleiri úkraínskra pilta. Óskhyggjan um úkraínskan sigur er lífseig og á henni alið.

Heimildir með grein Arnars má sjá hér.

2 Comments on “Karlasláturhúsið Úkraína”

  1. Smá ónákvæmni hjá greinarhöfundi: Túbínunni til Nord Stream1 gasleiðslunnar sem var í viðhaldi í Kanada var ekki „hleypt til Rússlands“ því öll sú viðhaldsvinna var á vegum framleiðandans Siemens-fyrirtækisins, sem ætlaði svo að gefa út útflutningspappíra til Rússlands, en sem heimamenn þar taka ekki góða og gilda, því þeir munu falla undir viðskiptabann EB. Nú síðast í dag, 11.8. grátbað Scholz, Þýskalandskanslari Rússa að taka samt sem áður við gripnum en þeir síðastnefnu kæra sig ekkert um það, enda stutt í að kólna fari í veðri í Þýskalandi :-).

    Vöruflutningar til Kaliningrad (í austur-vesturátt) voru heldur ekki bannaðir, heldur takmarkaðir tímabundnir, því eftir að Rússar bentu
    heimamönnum í Eyrsasaltsríkjunum á að nánast allur þeirra inn- og útflutningur (í norður-suðurátt) þarf að fara í gegnum Kalíningrad, þar sem auk þess þarf að skipta um undirvagna á járnbrautarvögnunum (úr breiðu spori yfir í mjótt), þá tóku Eystrasaltararnir sönsum (að vísu bara í þessu vissa máli) og hættu að minnast á takmarkanir á þeim flutningum.

  2. Frettin.is hefur ekki farið leynt með að hún tekur afstöðu með Rússum þó farið sé um víðan völl í þessari grein. Rússar eiga ekkert gott skilið í þessu stríði sínu „sérstakri hernaðaraðgerð“ þeir geta kallað þetta hvað sem þeir vilja en það breytir ekki þeirri staðreynd að þeir eru að ráðast á sjálfstæða þjóð og drepa fólk, menn konur og börn. En í þetta skiptið mæta þeir mikilli mótstöðu heimamanna með stuðningi USA og NATO. Þetta stríð gæti stigmagnast í heimstirjöld ef Rússar far inn í önnur lönd og/eða önnur lönd dragst inn í þetta, td. Kína, Íran, Hvítrússland. Svo bíða önnur stríð á hliðarlínunni Kína/Taiwan-USA, Íran/USA, Iran/Ísrael og N.kórea klæjar í langdrægu kjarnorkuflauga puttana ef eitthvað af þessu gerist á sama tíma eða ætti ég að segja þegar eitthvað af þessu gerist á sama tíma verður WWIII.

Skildu eftir skilaboð