RSK-miðlar og tilræðið við Pál skipstjóra

frettinInnlendarLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

RSK-miðlar, RÚV, Stundin og Kjarninn, skipulögðu tilræði að heilsu og einkalífi Páls skipstjóra Steingrímssonar. Tilræðismaðurinn sjálfur var nákominn Páli. Hans bíður ákæra um tilraun til manndráps.

Skipulagið gekk út á að byrla fyrir Páli skipstjóra, stela af honum símanum á meðan hann var óvígur, afrita innihaldið og skila símanum áður en skipstjórinn kæmist til meðvitundar.

Eitrað var fyrir Páli 3. maí fyrir hálfu öðru ári. Um nóttina var hann fluttur á gjörgæslu með sjúkraflugi og vart hugað líf. Áætlunin gekk eftir. Síminn komst í hendur RSK-miðla sem afrituðu. Tækinu var komið aftur fyrir í föggur skipstjórans á meðan hann vissi hvorki í þennan heim né annan.

Aðalsteinn Kjartansson fréttamaður á RÚV skipti föstudaginn 30. apríl 2021 um vinnustað, fjórum dögum áður en Páli var byrlað. Hann gaf loðin svör í viðtali daginn sem hann hættir, talar um ,,persónulegar ástæður" og segist á leiðinni í frí. En síðdegis sama dag er Aðalsteinn kominn á ritstjórn Stundarinnar sem gefur út sérstaka tilkynningu. Almenningur vissi ekki að á bakvið tjöldin voru RÚV, Stundin og Kjarninn einn og sami miðillinn.

Aðalsteini var ætlað að vinna úr símagögnunum en mátti ekki hafa starfsstöð á Efstaleiti. Þórður Snær á Kjarnanum var í sama hlutverki. Miðstöðin var á Efstaleiti en Stundin og Kjarninn sáu um dreifinguna. Það var gert með nákvæmu skipulagi. Kjarninn og Stundin birtu samhljóða fréttir að morgni dags 21. maí. Skipulagið var svo nákvæmt að daginn áður höfðu Aðalsteinn og Þórður Snær samráð um hvenær skyldi hringt í skipstjórann.

En hvers vegna var beðið með að birta fréttir úr síma Páls í rúman hálfan mánuð? Símanum var stolið 4. maí en engar fréttir fyrr en 21. maí. Sæmilega vanur blaðamaður skrifar svona frétt á 2-4 klukkustundum, þekki hann til málsins.

Skýringin er að Pál skipstjóra átti ekki að gruna að gögnin væru frá honum komin. Og ef hann skyldi fá hugboð um hvers kyns væri átti að vera ómögulegt að sanna aðild RSK-miðla. Snjallsímar skrá staðsetningu sína og geyma upplýsingarnar 14 daga aftur í tímann. Eftir tvær vikur er símtækið búið að ,,gleyma" hvar það var dagana á undan.

En þegar Páll skipstjóri komst til meðvitundar eftir nokkra daga á gjörgæslu sá hann að átt hafði verið við símann. Hann slökkti á tækinu til að staðsetningarbúnaðurinn myndi ekki uppfærast. Páll var búinn að kæra málið til lögreglu áður en fréttirnar birtust í Kjarnanum og Stundinni 21. maí.

Í símanum var einnig smitrakningarforrit, vegna COVID-19. Lögreglan gat séð hvaða símar voru nálægt síma Páls á meðan tækið var í þjófahöndum. Í framhaldi fékk lögreglan heimild til að hlera blaðamenn grunaða um glæp. Á grunni þeirra gagna verður ákært.

Að minnsta kosti fjórir blaðamenn eru með stöðu sakbornings vegna byrlunar- og gagnastulds. Fjölmiðlar segja sama og ekkert um málsatvik en gera gælur við sakborninga.

Þórður Snær ritstjóri Kjarnans mætti í viðtal hjá RÚV, nema hvað, til að útskýra sakleysi sitt: „Það getur verið faglega íþyngjandi og náttúrulega persónulega íþyngjandi að sitja undir svona í svo langan tíma.“  En það er ekkert íþyngjandi að verða fyrir eitrun sem fylgir innlögn á gjörgæslu og árás á einkalíf sitt í kaupbæti. Gjörvöll blaðamannastéttin finnur til með Þórði Snæ. Eins og sést á fjölmiðlum.

Skildu eftir skilaboð