Samfylkingin er í raun dauð

frettinPistlarLeave a Comment

Björn Bjarnason skrifar:

Leið Kristrúnar til flokksformennsku opnar sýn á ákaflega veikburða flokk. Tveimur nýjum þingmönnum tekst á nokkrum mánuðum að ná flokksvöldunum.

Vinnumálaráðherra Frakka, Olivier Dussopt, sagði á sínum tíma skilið við Sósíalistaflokkinn og gekk til liðs við Emmanuel Macron Frakklandsforseta og miðjuflokk hans. Í grein í Journal du dimanche í dag (21. ágúst) segir hann jafnaðarstefnuna, sósíal-demókratismann, dauða. Öfga vinstriöfl hafi yfirbugað hana og gleypt, sósíal-demókratismi hafi ekki lengur neitt inntak. Dussopt hvetur til þess að fyrrverandi flokksbræður sínir átti sig á þessu og hallist frekar að því sem hann kallar progressisme framfara- eða framsóknarstefnu. Hún eigi við um framfarir á öllum sviðum samfélagsins.

Emmanuel Macron á undir högg að sækja á franska þinginu þar sem hann skortir meirihluta til að hrinda stefnu sinni í framkvæmd. Fyrir Dussopt vakir ekki síst að fá stuðning við ný lífeyrislög og vara jafnframt við því sem hann kallar öfga vinstriöflin sem sameinuðust á bak við Jean-Luc Mélenchon í þingkosningunum í júní sl.

Sumarfríinu í frönskum stjórnmálum lýkur næstu daga og flokkarnir búa sig undir vetrarstarfið. Sama gerist hér. Föstudaginn 19. ágúst tilkynnti Kristrún Frostadóttir (34 ára) að hún gæfi kost á sér til formennsku í Samfylkingunni á landsfundi undir lok október. Tilkynningunni hefur verið tekið þannig af gömlu samflokksfólki og áhrifavöldum að augljóst er að enginn væntir neinnar andstöðu við framboðið.

Í samtali við Fréttablaðið laugardaginn 20. ágúst segir Kristrún, sem lauk MA-prófi í alþjóðafræði með áherslu á hagstjórn og alþjóðafjármál frá Yale-háskóla 2016 og starfaði sem aðalhagfræðingur Kviku banka hf. 2018–2021, að annars staðar á Norðurlöndunum sé „viðskiptafólk .. ekkert endilega til hægri“. Jafnaðarmenn trúi á sambland ríkis og markaðar.

Tilviljun hafi hins vegar ráðið að hún sneri sér að stjórnmálum. Árið 2020 hafi Jóhann Páll Jóhannsson, fyrrv. blaðamaður á vinstri vefsíðunni Stundinni, hringt og hvatt hana til framboðs. Kristrún og Jóhann Páll komust á lista Samfylkingarinnar í flokkskjöri í Reykjavík og síðan á þing í kosningunum 25. september 2021. Flokkurinn fékk aðeins 9,9% atkvæða og 6 þingmenn eins og Flokkur fólksins og Píratar. Dagar Loga Einarssonar á formannsstóli voru taldir.

Leið Kristrúnar til flokksformennsku opnar sýn á ákaflega veikburða flokk. Tveimur nýjum þingmönnum tekst á nokkrum mánuðum að ná flokksvöldunum. Hvorki heyrist hósti né stuna frá gömlu þingmönnunum fjórum.

Örlög Samfylkingarinnar koma heim og saman við lýsingu franska vinnumálaráðherrans: hún er í raun orðin að engu eins og franski jafnaðarmannaflokkurinn.

Náin samvinna Kristrúnar og Jóhanns Páls við Pírata á alþingi er ekki í anda jafnaðarmennsku heldur vinstri lýðhyggju sem franski vinnumálaráðherrann kennir við öfgar.

Samfylkingin er í raun dauð sem stjórnmálaaflið sem hún átti að verða árið 2000. Dauðastríðið hófst undir forystu Jóhönnu Sigurðardóttur árið 2009.

Kristrún Frostadóttir blæs hvorki lífi í gömlu Samfylkinguna né Alþýðuflokkinn í faðmi Pírata. Hver er stefnan?

Skildu eftir skilaboð