Alræðisvald Stefáns útvarpsstjóra

frettinPáll Vilhjálmsson1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson blaðamann og kennara:

Stefán Eiríksson útvarpsstjóri setti RÚV siðareglur í sumar. Siðareglurnar var hann með í smíðum í nokkra mánuði, samanber fundargerð 23. febrúar. Fjórða grein siðareglna RÚV er svohljóðandi:

Starfsfólk Ríkisútvarpsins rækir störf sín af ábyrgð, heilindum og heiðarleika. Starfsfólk Ríkisútvarpsins forðast að kasta rýrð á Ríkisútvarpið eða skaða ímynd þess og traust með framkomu sinni.

Í febrúar var upplýst að Þóra Arnórsdóttir ritstjóri Kveiks væri sakborningur í lögreglurannsókn, RSK-sakamálinu.

Sakborningur verður sá er lögreglu grunar að sé sekur um refsiverða háttsemi. Stefán útvarpsstjóri veit þetta. Hann er lögfræðingur og fyrrum lögreglustjóri.

Engu að síður lætur Stefán Þóru annast umræðuþátt á RÚV vegna sveitarstjórnarkosninga í vor. Þóra hafði þá verið sakborningur í þrjá mánuði. Hún beitti undanbrögðum að komast hjá skýrslutöku hjá lögreglu og beitir enn.

Í þriðju grein siðareglna RÚV segir um grunngildi að stofnunin skuli stuðla að „félagslegri samheldni“ þjóðarinnar.

Ekki stuðlar það að félagslegri samheldni að sakborningur í lögreglurannsókn, er varðar m.a. líkamsárás með byrlun, gagnastuld og stafrænt kynferðisofbeldi, stjórni umræðuþætti í aðdraganda kosninga.

Með því að gera sakborning að umræðustjóra í lýðræðislegum kosningum er réttarríkinu gefið langt nef. Þóra umræðustjóri er ígildi yfirlýsingar um að starfsmenn ríkisfjölmiðilsins séu hafnir yfir leikreglur samfélagsins. Það veit ekki á „félagslega samheldni.“

Í títtnefndum siðareglum segir í tíundu grein:

Um brot gegn siðareglum þessum og afleiðingar slíkra brota fer eftir eðli máls hverju sinni. Útvarpsstjóri, eða eftir atvikum stjórn Ríkisútvarpsins ef málefnið varðar útvarpsstjóra sjálfan, skal þó ávallt hafa endanlegt ákvörðunarvald.

Stefán útvarpsstjóri getur ekki dæmt í eigin sök. Það stendur upp á stjórn RÚV að grípa í taumana. Stjórn RÚV er skipuð níu einstaklingum, sem tilnefndir eru af alþingi. Einn að auki situr stjórn, fulltrúi starfsmanna.

Stefán útvarpsstjóri og grunaðir starfsmenn hafa brotið gegn fjórðu grein siðareglna RÚV: „kastað rýrð á Ríkisútvarpið“ og „skaðað ímynd þess og traust með framkomu sinni.“ Brotin eru framin af ásetningi, ekki slysni.

En þá vaknar spurning. Hvernig og hvert er hægt að kvarta undan broti á siðareglum RÚV? Um leið og Stefán útvarpsstjóri setti nýjar siðareglur í sumar lagði hann niður siðanefnd. Ellefta og síða greinin segir þetta skýrt:

Siðareglur þessar öðlast þegar gildi. Samhliða falla úr gildi eldri siðareglur og siðanefnd, sem starfar samkvæmt þeim, lætur af störfum.

Ef ekki er hægt að kvarta undan broti á siðareglum og enginn úrskurðar eru siðareglurnar orðin tóm. Síðasti úrskurður fráfarandi siðanefndar fordæmdi vinnubrögð samstarfsmanns Þóru, Helga Seljan. Stefán kemur í veg fyrir þann möguleika að dómbærir aðilar, óháðir RÚV, úrskurði um málefni stofnunarinnar. Siðferði innanhúss á Efstaleiti er ekki upp á marga fiska.

Siðareglur Stefáns eru með þeim innbyggða ómöguleika, hvað útvarpsstjóra sjálfan varðar, að stjórn RÚV getur ekki virkjað siðareglurnar nema fyrst lýsa yfir vantrausti á útvarpsstjóra.

Með siðareglunum tekur Stefán útvarpsstjóri sér nánast alræðisvald að úrskurða um siðferðisleg álitamál. Valdheimildirnar notar Stefán til að skjóta skjólshúsi yfir sakborninga í refsimáli annars vegar og hins vegar hindra að þjóðin verði upplýst um aðild starfsmanna RÚV að líkamsárás með byrlun, stafrænu kynferðisofbeldi, gagnastuldi og broti á friðhelgi einkalífs.

One Comment on “Alræðisvald Stefáns útvarpsstjóra”

  1. Þessi endalausu greinar komandi frá Palla kennara um fréttamenn sem eru undir sleggju skæruliðadeildar Samherja, eru orðnar dáltið úldnar. Það þarf ekki mikið ímyndunarafl til að skilja hvaðan hvati Palla til skrifana kemur.

    Hvers vegna sjáum við engar fréttir á þessum miðli um hina fjölmörgu glæpi Samherja; hvaða hrjeðjartak hefur þetta fyriræki á yfirvöldum á íslandi sem draga lappirnar í rannsókn á mútum Samherja í Namibíu? Og hvaða manneskja sem kallar sig heiðarlega getur tekið upp hanskann fyrir þetta skítafyrirtæki.

Skildu eftir skilaboð