Blaðamenn hótuðu Páli skipstjóra

thordis@frettin.isPáll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar sl. segir að sakborningar í RSK-sakamálinu séu m.a grunaðir um stafrænt kynferðisofbeldi. Það felur í sér að senda í stafrænu formi kynferðislegt efni. Í skýrslunni kemur fram að slíkt efni hafi verið í síma Páls skipstjóra, af honum og jafnöldru hans.

Lögreglan heldur þétt utan um upplýsingarnar um stafræna kynferðisofbeldið. Upplýsingar um það munu ekki koma fram fyrr en í ákærum.

Aftur liggja fyrir upplýsingar um hvernig blaðamenn deildu sín á milli upplýsingum úr síma skipstjórans. Töluvert er af gögnum þar sem blaðamenn ræða sín á milli í spjallhópi um stolnu gögnin, viðbrögð við lögreglurannsókn og samskipti við byrlara Páls.

Blaðamenn fengu veiku konuna sem byrlaði Páli til að gera honum tilboð. Ef hann drægi kæruna tilbaka um símastuldinn myndi skipstjórinn fá „frið frá fjölmiðlamönnum“, þ.e. blaðamönnum RSK-miðla, RÚV, Stundarinnar og Kjarnans. Að öðrum kosti hlyti hann verra af. Áður höfðu blaðamenn hæðst að skipstjóranum, búið til heila deild í kringum hann og ályktað út og suður um einkasamskipti hans. Í handraðanum höfðu þeir myndbandið af Páli skipstjóra. Það var hótunin.

Enn og aftur hugsuðu blaðamennirnir eingöngu um eigin hag. Brot byrlarans, líkamsárás með byrlun, er hegningarlagabrot sem ekki er hægt að fella niður þótt Páll drægi kæruna tilbaka. Ef hann á hinn bóginn myndi afturkalla kæru um símastuld myndu blaðamenn vera í annarri og betri stöðu.

Misnotkun á veikri konu stóð yfir í vikur og mánuði. Blaðamennirnir reyndu t.a.m. að fá hana til til að útvega sér útprentað yfirlit yfir einkareikning skipstjórans í banka. Gjaldkeri áttaði sig á að ekki væri allt með felldu, enda öllum augljóst sem hitta konuna að hún gengur ekki heil til skógar.

Eftir að blaðamenn urðu þess áskynja að lögreglurannsókn væri hafin kröfðust þeir að veika konan afhenti þeim símann sinn. Tilgangurinn var að fela slóðina, eyða gögnum úr síma byrlarans sem tengdu blaðamenn RSK-miðla við glæpinn. ,,Í símasamskiptum þessum kemur fram að fjölmiðlamaður er með í fórum sínum síma í eigu X," segir í greinargerð lögreglu frá 23. febrúar. X er byrlarinn.

Af samskiptagögnum, sem þegar eru kunn, má ráða að blaðamenn RSK-miðla hafi verið upp með sér að hafa í sínum fórum stolin gögn. Vitað er um nána samvinnu milli blaðamanna og stjórnmálamanna vinstriflokkanna. Ekki er hægt að útiloka að einhverjir þingmenn hafi fengið efni úr síma skipstjórans. Komi það á daginn verður spurt um ábyrgð handhafa löggjafarvaldsins að taka við stolnu efni og tilkynna það ekki lögreglunni.

RSK-sakamálið er víðtækara en svo að það snerti eingöngu blaðamenn.

2 Comments on “Blaðamenn hótuðu Páli skipstjóra”

  1. En höfundi finnst ekkert athugavert við að skipstjórinn væri greinilega að í kynferðislegu sambandi við konu sem gengur greinilega ekki heil til skógar?

  2. Er ekki að verða komið nóg af þessum augljósa áróðri??

    Hvar eru greinar Palla kennara um skæruliðadeild Samherja?
    Hvar eru greinar Palla kennara um glæpi Samherja? Hvers vegna skrifar hann ekkert um mútur samherja? eða hvernig stjórn samherja hefur komist undan réttvísinni í áratugi?

    Þær munu ekki vera skrifaðar þar sem Palli kennari er leigupenni sem er á launum hjá Samherja við að sverta þá blaðamenn sem voga sér að skrifa neikvætt um fyrirtækið.

    Þessi halarófa af innihaldslausum skrifum um fjölskylduharmleik Palla skipstjóra er augljós afleiðing leigupennasamnings um ákveðinn fjölda greina á ákveðnu tímabili. Grey kennarinn er að verða algerlega andlaus skrifandi um það sama í síbylju.

Skildu eftir skilaboð