Transaktívistar og Antífa hyggjast mótmæla göngu lesbía í Leeds um helgina

frettinErlent, Ingibjörg Gísladóttir1 Comment

Nú um helgina ætlar hópur lesbískra kvenna að efna til göngu í Leeds á Bretlandi og er hún skipulögð af samtökunum Lesbian Strength Collective. Hópur transaktívista og Antífa í Leeds hyggst þó mæta til að mótmæla þeim og trufla göngu þeirra. Sá hópur lítur svo á að lesbíurnar séu transfóbískar af því þær viðurkenna ekki að karlar sem skilgreina sig sem konur og laðast kynferðislega að konum geti talist lesbíur.
Líffræðin skiptir sem sagt ekki máli í þeirra huga - aðeins hugarástandið. Lesbíunum finnst hins vegar að þeirra hugarástand eigi að hafa rétt á sér. Þær séu samkynhneigðar konur, hafi hvorki pung né typpi og laðist ekki að þeim sem séu þannig skapaðir.


Í yfirlýsingu til Post Millennial frá Lesbian Strength Collective segir: „Þetta eru kynbundnar ofsóknir ... Það er ráðist á okkur af því að við erum konur og alfarið samkynhneigðar. Þeir hafa túlkað kynvitund okkar sem transfóbíska og því má spyrja hvort  trans-hugmyndafræðin sé hómofóbísk?  ... Transaktívistar birtust á fyrstu Lesbian Strength göngunni 2019, eltu okkur eftir götum Leeds og ásökuðu okkur um hatur ásamt því að þeir kröfðust þess að við bæðum karla velkomna í hópinn. Hið pólitíska loftslag hefur hitnað mjög síðan og ofbeldi beitt á götusamkomum í Bretlandi og í BNA. En þeir gátu ekki stöðvað okkur í að hittast þá og þeir munu ekki stöðva okkur núna. Samkomur lesbía einkennast af gleði og jákvæðri orku - karlar munu aldrei geta skilið þá tilfinningu."

Breska baráttukonan, róttæki feministinn (og lesbían) Julie Bindel lýsir hinu nýja pólitíska landslagi í nýlegri grein í Spectator. Hún hefur barist fyrir réttindum kvenna allt frá því á áttunda áratugnum og var ein þeirra fáu sem höfðu hugrekki til að mótmæla tilvist „grooming" gengjanna bresku á þeim tíma sem þau þóttu hugarburður rasista.

Hún segir frá því að hópur lesbía, Get the L out UK, hafi reynt að taka þátt í gleðigöngu í Wales nýverið en að lögreglan hafi vísað þeim burt. Í stað þess að ræða við þá er æptu ókvæðisorð að þeim þá hafi lögreglan valið þá leið. Julie segir frá því að fyrsta gleðigangan sem hún tók þátt í hafi verið Lesbian Strength, 1981. Flestar  lesbíur sem hafi tekið þátt í stofnun samtaka samkynhneigðra á áttunda áratugnum hafi fengið nóg af kynjamisrétti þar - þeim hefði verið ætlað að hella upp á te og þjóna körlunum, rétt eins og þær væru gagnkynhneigðar.

Hún segir að er hún kom út úr skápnum sem lesbía á 8. áratugnum hafi viðkvæðið verið að „leiðrétta" mætti kynhneigð lesbía með samförum og hafi hún því fylgst með því með hryllingi hvernig ráðist sé á lesbíur nútímans fyrir að hafna körlum sem segjast vera konur sem rekkjunautum. Greininni lýkur Julie á orðunum: „frá mínum bæjardyrum séð eru konurnar í Get the L Out besta dæmið um konur sem neita að láta undan kröfum karla. Að vera lesbía í kvenfjandsamlegu samfélagi er fjandi erfitt. Transaktívistarnir ættu að vita það núorðið að okkur lessunum verður ekki snúið."

Norski feministinn Christina Ellingsen var ákærð fyrir hatursorðræðu í sumar sakir tvíta þar sem hún mótmælir því að karlar geti verið lesbíur. Það er skoðun hennar og flestra annarra. Gætu lesbíur ekki alveg eins kært transaktívistana og Antífaliðana fyrir hatursorðræðu gagnvart samkynhneigðum konum?

One Comment on “Transaktívistar og Antífa hyggjast mótmæla göngu lesbía í Leeds um helgina”

Skildu eftir skilaboð