Smáfylkingin og ESB

thordis@frettin.isPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Samfylkingin gerðist ESB-flokkur með svindli. Tilfallandi höfundur veit það því hann var í flokknum á þeim tíma.

Haustið 2002, fyrir tuttugu árum, efndi Samfylkingin til innanflokkskosninga um þessa spurningu:  „Á það að vera stefna Samfylkingarinnar að Íslendingar skilgreini samningsmarkmið sín, fari fram á viðræður um aðild að Evrópusambandinu og að hugsanlegur samningur verði síðan lagður fyrir þjóðina til samþykktar eða synjunar?“

Þessi lævísa spurning var lögð fyrir flokksmenn í póstkosningum haustið 2002. Forysta flokksins vildi ekki umræður á vettvangi flokksins. Safnað var liði til að taka hús á flokksmönnum að innheimta atkvæðaseðla. Um þriðjungur flokksmanna hafði fyrir því að svara og meirihluti þeirra sagði já. Það þýðir að rétt um 15% flokksmanna jánkuðu því að skilgreina samningsmarkmið Íslands. En þau markmið voru aldrei skilgreind.

Á þessum grunni var haldið í vegferð sem leiddi til aðildarumsóknar að ESB sumarið 2009 - í æðibunugangi eftirhrunsins. Samfylkingin hafði þá nýverið fengið 30 prósent fylgi í kosningum og myndað með Vinstri grænum ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttir. ESB-umsóknin dagaði uppi áramótin 2012-2013 eða fyrir tíu árum.

ESB-ferli Samfylkingar hófst á þeim tíma sem flokkurinn ætlaði að verða „hinn turninn“ í íslenskum stjórnmálum, mótvægi við Sjálfstæðisflokkinn. Engin sannfæring fylgdi ESB-stefnunni. Viðkvæðið var að Íslendingar myndu græða á aðild. Í reynd voru þetta fáeinir háskólamenn sem vildu tryggja sér betri atvinnumöguleika í Brussel. Að öðru leyti var ESB-stefnumótunin samþykkt af þeirri ástæðu einni að Sjálfstæðisflokkurinn var á móti.

Í tylft ára, allt frá sigrinum 2009, hefur fylgi Samfylkingar legið niður á við. Um tíma virtist Smáfylkingin við það að ná ekki inn á alþingi.

Ásamt ESB-málinu er stjórnarskrármálið myllusteinn um háls Smáfylkingarinnar. Kristrún Frostadóttir, rétt ókrýndur formaður flokksins, hefur ekki áhuga að dröslast í tíu prósent fylgi á jaðri stjórnmálanna. Hún fórnar ESB-aðild og stjórnarskrármálinu í þeirri von að komast til áhrifa.

Ef að líkum lætur mun Samfylkingin einnig fórna nafninu. Smáfylkingin er turninn sem byggður var á sandi. Helga Vala ætti að biðjast afsökunar á því að vera hluti fortíðarinnar að fleiri en einu leyti.

Vinstri grænir áttu að vera jaðarflokkur, samkvæmt hugmyndafræði þeirra sem stofnuðu Samfylkinguna. Jaðarflokkurinn er á sínu öðru kjörtímabili sem forystuflokkur í ríkisstjórn. Smáfylkingin er í eyðimörkinni að leita sér að nafni og pólitískri stefnu.

Þannig fer þegar vegferð hefst á svindli.

Skildu eftir skilaboð