SCO leiðtogafundurinn og þörfin fyrir nýja hnattræna öryggisstefnu

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, StjórnmálLeave a Comment

Þýdd grein eftir Matthew Ehret, blaðamann, fyrirlesara og stofnanda Canadian Patriot Review. Birtist hjá veftímaritinu Stratetic Culture þann 18. september 2022.

Þýðandi Erna Ýr Öldudóttir.

Klukkan tifar hratt og ef við missum af tækifærinu nú, gæti langur kjarnorkuvetur fylgt eina friðnum sem heimurinn má vænta.

Pútín og Xi hittust á nýafstöðnum leiðtogafundi Shanghai-stofnunarinnar (e. Shanghai Cooperation Organisation, SCO)  í Samarkand [í Úsbekistan]. Þar staðfesti kínverski leiðtoginn bæði skilning sinn á hinum sögulegu tímum sem nú móta heiminn, sem og því mikilvæga hlutverki sem hann skilur að bæði Rússland og Kína þurfi að gegna við að sigla mannkyninu í gegnum storminn sem fylgir, og sagði:

„Kæri Pútín forseti, elskulegi gamli vinur minn. Ég er mjög ánægður með endurfundinn. Andspænis gífurlegum breytingum samtímans á heimsvísu, af áður óþekktu umfangi í sögunni, stöndum við með rússneskum starfsbræðrum okkar til að vera fordæmi fyrir ábyrgu heimsveldi.“

Xi ávarpaði aldavin sinn Pútín hlýlega og lofaði samstöðu.

Fundurinn var sérstaklega stefnumótandi. Hann var fyrsti fundurinn með Íran sem fullgildum meðlim og Hvíta-Rússlandi á hraðri leið inn á næstunni, ásamt fleiri ríkjum. Þar á meðal eru Sameinuðu arabísku furstadæmin, Barein, Mjanmar, Kúveit og Maldíveyjar. Það er mjög áberandi hvernig grunnurinn að nýrri öryggissamvinnu er að rísa, en hún felur einnig í sér mikilvægan fjárhagslegan þátt. Ef til vill er það ástæða þess að skyndileg blóðug átök kviknuðu þegar Aserbaídsjan réðist gegn SCO meðlimnum Armeníu. Einnig á milli Kyrgyzstan og Tadsjikistan (bæði ríkin eru SCO meðlimir sem hýsa rússneskar bækistöðvar og mikilvæga kínverska Beltis- og brautar-tengda innviði). Þó enn liggi ekki allar upplýsingar fyrir um kveikju átakanna, þá lykta tímasetningin og eðli þeirra af aðgerðum vestrænna (e. Anglo) leyniþjónusta.

Sameiginlegt umræðuefni SCO leiðtogafundarins og fjölpólabandalagsins í víðara samhengi hverfðist um almannahag, sameiginlegt öryggi og samhæfingu aðgerða til að bæta lífskjör þjóða og fullvalda ríkja eins og lýst er í Sáttmála Sameinuðu þjóðanna (sem er allt annars eðlis en „alþjóðlegt skipulag bundið af reglum“ sem einpólaristar elska að fjasa um þessa dagana).

Því miður virðast jafnvel skynsemisraddir sem almennt eru ekki litaðar af pólitík á meðal vestrænna ríkja, vera algjörlega ómeðvitaðar um þær tímamótaákvarðanir sem nú eru teknar af bandamönnum fjölpólabandalagsins. Þeir hafa gert það ákaflega ljóst að þeir myndu frekar vilja samvinnu við ríki Atlantshafsins heldur en að stofna til styrjaldar, þó atburðir líðandi stundar hafi neytt þá til að búa sig undir hið síðara á þann hátt sem fáir hefðu getað ímyndað sér fyrir örfáum árum.

Ef það væri einhvern tíma tími fyrir auðmýkt og sjálfsígrundun á meðal leiðtoga Vesturlanda, þá er sá tími núna.

Eðli friðarfunda fortíðarinnar

Á tímum fyrir kjarnorkuvopnakapphlaupin, voru friðarráðstefnur alltof oft ekki haldnar fyrr en eftir margra ára hrikaleg stríð og þegar blóðsúthellingarnar voru orðnar óþolandi.

Við sjáum dæmi um slíkar ráðstefnur í formi Vestfalíufriðarins frá 1648 sem varð í kjölfar 30 ára stríðsins og rammaði nútíma fullvalda þjóðríkiskerfi inn í hjarta þjóðaréttar. Veik tilraun var gerð á Vínarfundinum árið 1815 eftir tveggja áratuga löng Napóleonsstríð sem lögðu Evrópu í rúst. Önnur slík tilraun reis með Þjóðabandalaginu í kjölfar hakkavélar Fyrri heimsstyrjaldarinnar og aftur með Sameinuðu þjóðunum og Bretton Woods kerfinu sem voru sett á laggirnar eftir Seinni heimsstyrjöldina.

Fullgildingareiður Münster-sáttmálans svarinn, liður í Vestfalíu-friðarsamkomulaginu 1648. Olía á kopar eftir Gerard Terborch.

Stundum mótuðust þessar alþjóðlegu ráðstefnur af heiðarlegum dagskrárliðum og stundum ekki, en í öllum tilfellum voru allir aðilar sammála um að nýtt kerfi væri nauðsynlegt til að forðast stríð.

Til allrar óhamingju eru menn gleymnir og býzantískum vef valdapólitíkur ensk-ameríska djúpríkisins verður ekki auðveldlega umbreytt með ráðstefnum eða samningum um að leika fallega við nágrannana.

Þar sem við stöndum nú enn eina ferðina á barmi styrjalda og efnahagshruns, hefur tilvist kjarnorkuvopna gert mistök fortíðarinnar óbærileg á 21. öldinni. Þó að sumar Rand Corp-hugveitur og fulltrúar hernaðariðnaðarins vilji trúa því að ný heimsstyrjöld sé spennandi möguleiki og jafnvel vinnanlegt spil (samkvæmt tölvulíkönum þeirra), er raunveruleikinn allt annar.

Veruleikinn er sá að slíkt stríð væri aldrei hægt að vinna, og tilvist næstu kynslóðar hljóðfrárrar eldflaugatækni sem bæði Rússland og Kína hafa afhjúpað, að meðtöldum neðansjávardrónum, hefur sýnt fram á að einokun NATO á að verða fyrri til að skjóta er draumsýn. Enga árás væri hægt að gera á Rússland né Kína án grimmra hefndarárása sem myndu þurrka allar helstu borgir hins alþjóðlega frjálsa heims, byggðum á reglum, út.

En hvað er hægt að gera?

Auðvitað væri einn valkostur að Rússar, Kínverjar, Indverjar og aðrar þjóðir sem nú skipuleggja sig í kringum fjölpólabandalagið afsali sér 1) fullveldi sínu og 2) löngunum til að koma á nýju kerfi sem byggist á farsælli samvinnu ríkja.

Þessar þjóðir yrðu þá líka að samþykkja Mikla endurræsingu (e. Great Reset) heimsins samkvæmt skilmálum einpóla-æðstuprestanna úr hreiðri tæknikrata nýrrar alheimsstjórnar ofan á skipulag kjörinna stjórnvalda. Það myndi auðvitað þýða eyðingu eða endurritun Stofnsáttmála Sameinuðu þjóðanna sem nú er forsenda þjóðaréttar um helgi fullvalda ríkja, frið og gagnkvæma samvinnu. Þessi ríki þyrftu einnig að samþykkja ný kerfi um drakóníska fólksfækkun undir yfirskriftinni „samdráttur kolefnislosunar“. Væri þetta gert er okkur sagt að hægt væri að ná nýrri heimsskipan friðar, vaxtar og sjálfbærni. Langþráður útópískur „endir sögunnar“ yrði loksins í sjónmáli. 

Klaus Schwab, formaður Alþjóðaefnahagsráðsins WEF vill endilega endurræsa heiminn og sér tækifæri til þess opnast í hinum ýmsu áföllum og hörmungum.

Svipmyndir, orð og frammistaða leiðtoga fjölpólabandalagsins hafa undanfarinn áratug sýnt glöggt, að þeir muni ekki velja þennan kost.

Þörfin fyrir annars konar endurstillingu

Hinn valkosturinn væri að leiðtogafundur færi fram ÁÐUR en næsta kjarnorkustríð breytir mannkyninu í tilraun sem misheppnaðist. Fremur en hina mannfjandsamlegu Miklu endurræsingu, eða trans-mennska (e. transhumanist) Nýja alheimsstjórn (e. New World Order), yrðu mótaðir skilmálar og markmið sem allir jarðarbúar geta verið sammála um og Franklin D. Roosevelt lagði grunninn að með Fjórfrelsinu (e. Four Freedoms).

Frelsi frá skorti, frelsi frá ótta við stríð, málfrelsi og samviskufrelsi eru algild og burðarás í anda bæði Atlantshafssáttmálans (fyrir endurskoðun Biden/Bojo), sáttmála Sameinuðu þjóðanna og upprunalegu gerð Bretton Woods kerfisins. Þessu algilda frelsi var aftur lýst í mannréttindayfirlýsingu Sameinuðu þjóðanna frá 1947 og í Meginreglunum fimm um friðsamlega sambúð (e. Five Principles of Peaceful Coexistence) sem kom fram á Bandung ráðstefnunni árið 1955 og gaf tóninn fyrir Hlutleysisstefnuna (e. Non-Aligned Movement).

Með Bretton Woods var nýtt fjármálakerfi búið til á tveimur vikum, byggt á meginreglum bankastarfsemi sem krafðist fastgengis til að koma í veg fyrir ótakmarkaða spákaupmennsku. Hún hafði verið notuð sem efnahagslegur hernaður gegn fátækum þjóðum um aldir. Upphaflega hugmyndin var að gefa út langtímalán fyrir stór verkefni til að alþjóðavæða New Deal á tímabili sem fyrirséð var að yrði fjölpóla samvinnuþróun öllum til heilla. Sameinuðu þjóðirnar, eins og Franklin D. Roosevelt eða Henry Wallace sáu fyrir sér, var heldur aldrei ætlað að vera heimsstjórn. Þær áttu að vera vettvangur fyrir samræður og samræmingu öryggis- og efnahagslegra hagsmuna siðaðra þjóða.

Franklin Roosevelt og Henry Wallace í Val-Kill Cottage í Hyde Park, NY. August 8, 1940

Þrátt fyrir þá staðreynd að Bretton Woods stofnanir eins og Alþjóðagjaldeyrissjóðnum og Alþjóðabankanum (og sjálfum bandarískum stjórnvöldum) hafi verið rænt af djúpríkissmönnum sem standa fyrir verstu fákeppnishneigðir mannkyns frá Seinna stríði, þá skyldi ekki hunsa sannleikann um göfugan uppruna þessara stofnana, sem John F. Kennedy (og í minna mæli en engu að síður Trump) reyndu að endurlífga.

Hví ekki að skipuleggja svipaða ráðstefnu í dag þar sem saman koma leiðtogar fjölbreyttra þjóða?

Eins og ég nefndi í upphafi þessarar skýrslu er þessi umræða þegar hafin og hana leiða fulltrúar meirihluta jarðarbúa eins og við sáum í Samarkand.

Samarkand í Úsbekistan þar sem leiðtogarnir hittust, hefur verið í byggð síðan í fornöld og þykir ein fegursta borg í heimi.

Þróunaráætlanir, sem þegar hafa verið kynntar af afkastamiklum fjármálaspekingum Kína og vaxandi fjölda bandamanna þess, hafa þegar leyst úr læðingi yfir 3 billjónir Bandaríkjadala fyrir stórar innviðafjárfestingar til hins stækkandi Beltis- og brautar verkefnis. 

Í vaxandi mæli er það bundið við Evrasíska efnahagsbandalagið að leggja með hraði grunninn að nýju fjármálainnviðakerfi. Kerfið er byggt á raunheimagildum sem Sergey Glazyev hefur margoft lýst, og sýnir að skýr vilji meirihluta siðaðra þjóða stefnir í þá átt að vilja að komast af og fá að blómstra á 21. öldinni.

Kaldhæðnin sem felst í því að Fjórfrelsi Franklin D. Roosevelt sé nú borið uppi af Evrasíuveldum sem af mörgum eru talin „ó-amerískustu“ hóparnir á jörðinni, ætti ekki að fara framhjá neinum.

Það er enginn skortur á samvinnuverkefnum til að byggja upp víðs vegar um Asíu, Evrópu, Miðausturlönd, Afríku og Ameríku. Verkefni sem gætu auðveldlega skapað alvöru atvinnu, endurreist niðurgrotnaðar verksmiðjur og innviði, og komið á trausti meðal þjóða sem hafa legið hverri annarri á hálsi of lengi. Heilvita öfl óviljug að fórna hefðum sínum, vestrænir borgarar og stefnumótandi aðilar myndu gera vel, með því að skipuleggja sig sem aldrei fyr,r við að koma þjóðum sínum í sátt við þessa heilbrigðari umræðu sem nú á sér stað.

Klukkan tifar hratt og ef við missum af tækifærinu nú, gæti langur kjarnorkuvetur fylgt eina friðnum sem heimurinn má vænta.

Skildu eftir skilaboð