Mannréttindafulltrúi SÞ krefst hlutlausrar rannsóknar á dauða ungrar konu í Íran

thordis@frettin.isErlent, Ingibjörg GísladóttirLeave a Comment

Samkvæmt Alarabya fréttastöðinni þá var banamein hinnar 22 ára kúrdísku Mahsa Amini sem féll í dauðadá og lést eftir að íranska siðgæðislögreglan handtók hana 13. september þungt högg á höfuðið en ekki hjartaáfall eins og lögreglan hafði haldið fram. Írönsk fréttastöð er sögð hafa fengið sjúkragögn hennar gegnum hakkara og eru þau sögð sýna greinilegt brot á höfuðkúpu, heilablæðingar og heilabjúg enda hafði fjölskylda hennar hafnað frásögunni um hjartaáfall því hún hefði verið við góða heilsu.

Að konur séu beittar ofbeldi og jafnvel drepnar í Íran eru svo sem ekki nýjar fréttir. Í grein í Lancet frá árinu 2020 þar sem fjallað var um aukið ofbeldi gegn konum vegna kóvidlokana er sagt að í Íran hefði verið mikið um ofbeldi gegn konum fyrir kóvid og hefðu þar verið tilkynnt 8.000 svokölluð heiðursmorð eða morðtilraunir frá 2010- 2014. Í sumum löndum er það talinn réttur og skylda karlmanna að refsa konum fyrir að setja blett á heiður fjölskyldunnar með óæskilegri hegðun s.s. með því að gera uppreisn og vilja sjálfar velja sér maka. Í grein Lancet segir að „heiðursmorð“ séu algengust í löndum þar sem pólitískt íslam sé ríkjandi (sjaríalög) en að trúarleiðtogar hafni því að slíkt ofbeldi gegn konum eigi rætur í íslam.

Hinn 20. september, gaf mannréttindafulltrúi SÞ, Nada Al-Nashif, út tilkynningu um málið og krafðist hlutlausrar rannsóknar á því hvað olli dauða Amini. Al-Nashif segir að á síðustu mánuðum hafi siðgæðislögreglan aukið umsvif sín á götunum og ráðist að konum sem beri hijabinn frjálslega með orðum, líkamlegu ofbeldi og handtökum. Mannréttindaskrifstofu SÞ hafi borist margar staðfestar upptökur þar sem sjá má konur beittar ofbeldi, þar á meðal slegnar í andlitið, barðar með kylfum og hent inn í lögreglubíla. Yfirvöld verði að hætta að ráðast á konur sem ekki fylgi hijabreglunum, segir al-Nashif og kallar eftir afnámi hijabskyldu (sem var komið á eftir að Khomeini komst til valda 1979).

Þúsundir hafa haldið út á göturnar víðs vegar um landið til að mótmæla dauða Amini, þar á meðal í Tehran, Isfahan, Karaj, Mashhad, Rasht, Saqqes and Sanandaj. Öryggissveitir eru sagðar hafa svarað með byssuskotum, gúmmíkúlum og táragasi. Að minnsta kosti tveir hafi verið drepnir og margir særðir. Fordæmir Al-Nashif þær aðgerðir og bendir á Íran hafi skrifað undir alþjóðasamning um rétt fólks til friðsamlegra mótmæla.

Skildu eftir skilaboð