Pútín gefur í og kveður fleiri í herinn

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Stjórnmál1 Comment

Vladimír Pútín Rússlandsforseti gaf út herkvaðningu að hluta frá og með deginum í dag, í ávarpi til þjóðar sinnar í morgun. Frá því greinir Russia Today í dag.

Ástæðuna kvað hann m.a. vera að hin sérlega hernaðaraðgerð Rússlands í Úkraínu og Donbass hafi dregist á langinn. Auk þess kvað hann Rússland þurfa að mæta „stríðsmaskínu Vesturlanda í heild sinni“ í Úkraínu. Kvaðningin tekur einungis til varaliðs auk þeirra sem þegar hafa gegnt herþjónustu, og hefst frá og með deginum í dag.

Að sögn varnarmálaráðherra Rússlands, Sergei Shoigu, er vonast til að safna saman 300 þúsund manna viðbótarliði með þessum hætti. Það sé rétt rúmlega eitt prósent af mögulegum mannafla rússneska hersins.

Kjarnorkuvopnum beitt ef þau verða notuð gegn Rússlandi

Pútín sakaði stjórnvöld í Kænugarði um að hafa hafnað öllum tillögum um að kæla ástandið, allri slíkri viðleitni hefði verið mætt með enn meiri stigmögnun með aðstoð erlendra vopna og málaliða.

Sumir háttsettir embættismenn í NATO-ríkjum hafa jafnvel gefið í skyn að það væri réttlætanlegt að nota taktísk kjarnorkuvopn gegn rússneskum hermönnum, að sögn Pútíns. Forsetinn lagði áherslu á að Moskva myndi ekki hika við að bregðast við slíkri árás með eigin kjarnorkuvopnum.

Ráðamenn á Vesturlöndum keppast nú við að svara þessu nýjasta útspili Pútíns, þeirra á meðal er Olof Scholz, kanslari Þýskalands, sem tísti og sagði kvaðninguna merki um „örvæntingu“. Rússland geti ekki sigrað þetta „glæpsamlega stríð“ og hafi frá upphafi vanmetið baráttuvilja úkraínsku þjóðarinnar og einingu vinaþjóða hennar.

Óskað er eftir að aðilar að átökunum ræði saman, sýni stillingu og leitist við að finna haldbæra sameiginlega lausn, er haft eftir talsmanni kínverska utanríkisráðuneytisins, Wang Wenbin.

One Comment on “Pútín gefur í og kveður fleiri í herinn”

  1. „Putin gefur í og skildar fleiri í herinn“ Nú ég hélt að þetta væri alveg „sérstök hernaðaaðgerð“…

Skildu eftir skilaboð