Kosningar í Donbass/Úkraínu og „skrípaleikurinn“ á Vesturlöndum

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Pistlar, Stjórnmál2 Comments

Erna Ýr skrifar:

Nú er blaðamaður vöknuð eftir tæplega sólahrings ferð heim til Íslands frá Moskvu, en hún ferðaðist þangað, og þaðan til Donbass, til að fylgjast með íbúaatkvæðagreiðslu (e. Referendum) um framtíð fyrrum austur- og suðausturhéraða Úkraínu. Eitt það fyrsta sem hún rekur augun í á netinu í morgun er utanríkisráðherra Íslands, Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttur, að kalla atkvæðagreiðsluna í Donbass, auk tveggja héraða í Úkraínu, „skrípaleik“.

Förum aðeins yfir „skrípaleikana“ sem nú eru haldnir með miklu orðaskaki um víða veröld.

Hentisemi gagnvart alþjóðalögum jafngildir lögleysu

Þjóðaratkvæðagreiðslur voru haldnar samtímis á fjórum svæðum, annarsvegar tveimur sem þar til í septemberlok á þessu ári tilheyrðu Úkraínu, en hafa nú m.a. lýst yfir sjálfstæði, og tveimur sem lýstu yfir sjálfstæði þegar árið 2014. Ekki verður annað séð en að þjóðir og þjóðarbrot hafi til þess fullan rétt, samkvæmt Sáttmála Sameinuðu þjóðanna, og vegna fordæmis sem nú þegar er til staðar. Nú þegar afgerandi niðurstaða liggur fyrir og jafnvel áður, spara Vesturveldin ekki stóryrðin.

Blaðamaður er ekki lögfræðingur, en síðast þegar hún gáði gilti sú grundvallarregla, sem meðal annars er innsigluð í stjórnarskrá Íslands og í mannréttindasáttmálum, að allir séu jafnir fyrir lögunum. Til viðbótar og til grundvallar stendur í 3. kafla þingfararbálks Járnsíðu, lögbók Íslendinga sem hefur verið í gildi frá því á þrettándu öld:

… því að með lögum skal land vort byggja en eigi með ólögum eyða. En sá er eigi vill öðrum laga unna, hann skal eigi laga njóta.

Ef mönnum skyldi vanta fordæmi fyrir notkun og gildi Sáttmála Sameinuðu þjóðanna varðandi þetta atriði, þarf ekki að leita langt yfir skammt.

Ísland viðurkenndi sjálfstæði Kosovo-héraðs árið 2008

Sjálfstæðisyfirlýsing Kosovo-héraðs frá Serbíu var umdeild á sínum tíma árið 2008, vegna fordæmisins sem sett yrði með alþjóðlegri viðurkenningu á henni. Ýmsar þjóðir og þjóðarbrot eiga sér draum um sjálfstæði og vernd, ekki síst á umbrotasvæðum eins og til að mynda í fyrrum Júgóslavíu, á ýmsum svæðum í Afríku og í fyrrum Sovétríkjunum. Ákvörðun um að túlka Sáttmála Sameinuðu þjóðanna á þennan veg árið 2008 hefur þannig haft afleiðingar, sem enn sér ekki fyrir endann á. Ríkisstjórn Íslands undir forystu Geirs H. Haarde, viðurkenndi sjálfstæði Kosovo-héraðs þann 5. mars 2008, með bréfi sem Ingibjörg Sólrún Gísladóttir, þá utanríkisráðherra Íslands, sendi forsætisráðherra Kosovo.

Ríkin sem samþykkja sjálfstæðisyfirlýsingu Kosovo eru græn á litinn

Að lokum er það eftirtektarvert að ráðherra sjálfs Sjálfstæðisflokksins skuli fara með órökstuddum og innihaldslausum gífuryrðum gegn sjálfstæðisbaráttu og sjálfsákvörðunarrétti annarra þjóða. En það virðist vera pípan sem dansað er eftir hjá Vesturveldunum, þegar það hentar utanríkisstefnu Bandaríkjanna og Bretlands. Ef til vill er orðið löngu tímabært fyrir kjósendur á Íslandi og víðar í heiminum að byrja gefa heilbrigði sjálfstæðis sinna eigin ríkja, og réttarríkinu heimafyrir, nánari gaum - áður en það verður um seinan.

2 Comments on “Kosningar í Donbass/Úkraínu og „skrípaleikurinn“ á Vesturlöndum”

  1. Utanríkisstefna Íslendinga hefur verið skrípaleikur síðan ég man eftir mér.. Stefna Íslands á markan hátt byrjar sem minnisblað á skrifstofu einhvers í vestrænu landi.. hvort sem er með sóttvarnir eða utanríkisstefnu og hvað við eigum að samþykkja og hvað ekki.. Íslendingar misstu sjálfstæðið fyrir löngu og við erum engu nær að ná því til baka þegar stór hluti Íslendinga kýs með rassgatinu á sér.

Skildu eftir skilaboð