„Njóttu lífsins og vertu alls kyns“ – ríkishugmyndafræðin um kyn

frettinArnar Sverrisson, KynjamálLeave a Comment

Arnar Sverrisson sálfræðingur skrifar:

Áhugverð fræðsla fyrir foreldra skólabarna um námsefni handa börnum þeirra – frá ríkisvaldinu: „Alls kyns um kynferðismál – Kynjafræðsla fyrir unglingastig.“ Höfundur er Þórdís Elva Þorvaldsdóttir, kvenfrelsari m.m.

Á síðunni er fleira áhugavert að skoða. Þó sýnist mér vanta Kynungabók Katrínar Jakobsdóttur. Sú bók er eins og þessi, skrifuð af annáluðum kvenfrelsurum í þjónustu ríkisvaldsins.

Fátt kemur unglingum væntanlega á óvart í þessari fræðslumynd. Mér reyndar ekki heldur, nema villandi upplýsingar um millikyn (intersex) og kynskiptinga (transgender). En það er ástæða til að ætla, að hér sé lýst opinberri kynhugmyndafræði yfirvalda.

Úr fyrri pistli: „Kynungabók Katrínar. Kvenfrelsunarbiblía handa börnum:“

„Ritstjórar verksins eru: Berglind Rós Magnúsdóttir, uppeldisfræðingur; Guðrún Margrét Guðmundsdóttir, mannfræðingur; Jóna Pálsdóttir, menntunarfræðingur; Kristín Ástgeirsdóttir, sagnfræðingur, og Kristín Jóndóttir, sagnfræðingur. Allar eru þær ástríðuþrungnir kvenfrelsarar, kennarar og fyrirmyndir hinna ungu og miðaldra meyja, sem um þessar mundir gera kvenfrelsunargarðinn frægan eins og t.d. félagsskapurinn, „Öfgar.“

Markmið:

„Veita raunsæja mynd af stöðu kynjanna í samfélaginu. Sýna fram á að jafnréttismál varða bæði kynin. Vekja ungt fólk til umhugsunar um áhrif kynferðis á líf þess. Fjalla um mismunandi mótun kynjanna út frá menningu, umhverfi og tíma. Vekja ungt fólk til meðvitundar um réttindi sín.“

„Smám saman hefur dregið úr því kynjamisrétti sem viðgengist hafði í aldanna rás. … Talið er að rekja megi núverandi kynjamisrétti til þeirra tíma er eingöngu karlar úr valdastétt höfðu tækifæri til að móta samfélagið en það gerðu þeir út frá hagsmunum sínum. Gildismat þeirra varð undirliggjandi í trúarbrögðum, lögum, reglum, hefðum og siðum, eða í samfélaginu öllu. …

„Hugmyndir um að kynin séu ólík að eðlisfari eru algengar. Þær geta verið varhugaverðar, … Segja má að margs konar orsakir liggi að baki kynjamisrétti en ljóst er að rótgrónar hugmyndir um karlmennsku og kvenleika sem eru innbyggðar í samfélagsgerð okkar eru helsti þröskuldurinn. Þau sem berjast gegn þessum viðtekna hugmyndaheimi og vilja auka fjölbreytni og athafnarými fyrir hvort kyn skilgreina sig gjarnan sem femínista. … Femínisti er kona eða karl sem veit að jafnrétti kynjanna er ekki náð og vill gera eitthvað í því. …

(Úr formála Katrínar:)

Kynungabók byggir á femínískum hugmyndum og mótunarhyggju sem er andstæða eðlishyggju. Mótunarhyggja hafnar því að ólíkt eðli kynja sé ástæðan fyrir ólíkri hegðun, hlutverki og stöðu kynjanna. Hver einstaklingur fæðist með ólíka skapgerð en ekki er hægt að setja alla einstaklinga sem fæðast af sama kyni undir einn hatt hvað varðar eiginleika og skapgerð. Manneskjan mótast af þeim hugmyndum um karlmennsku og kvenleika sem eru við lýði hverju sinni. …““

„Mótunarhyggja“ merkir þá grillu kvenfrelsara, að kyn mótist að geðþótta hvers og eins. Þetta er ríkiskynhugmyndafræðin. Hugtakið, „kynleiðrétting,“ er sótt í sömu hugmyndafræði.

Nokkrir höfunda Kynungabókar hafa einnig skrifað „Kynjamyndir í skólastarfi.“

Úr fyrri pistli, „Kynjamyndir í skólastarfi 6:“

„Árið 2005 sameinuðust helstu kvenfrelsunarfræðingar æðri menntastofnana á Íslandi, þ.e. Háskóla Íslands og Kennaraháskóla Íslands, í því sameinaða átaki að skrifa bók um kvenfrelsun og menntun. Um er að ræða ritgerðasafn.

Ritstjórar segja: „Bókin Kynjamyndir í skólastarfi er ætluð nemendum og kennurum á ýmsum skólastigum en ætti að nýtast öllum þeim sem áhuga hafa á efninu.“ …„Það er von höfunda að bókin verði skólafólki og öðrum sem áhuga hafa á jafnréttismálum til gagns. Vonandi verður hún jafnframt lóð á vogarskálar jafnréttis í íslensku samfélagi.““

Þetta er dæmi um, hversu gegnsýrð stjórnsýslan er orðin af kvenhugmyndafræðinni. Katrín Jakobsdóttir gengur ötulast fram í þessu trúboði og otar sínum tota í stjórnsýslu og stjórnmálum, hvar sem hún kemur, jafnvel á Natófundum (og trúlega einnig á fundum í Alþjóðaefnahagsráðinu, þar sem frelsun barna og kvenna er endurtekið á dagskrá).

Kjarni trúboðsins er þessi: Frá upphafi mannlífs hafa konur verið kúgaðar af eitruðum körlum, sem gera konum illt og svívirða þær í kynlífi. Kynlíf gagnkynhneigðra er í sjálfu sér kynkúgun. Kvenfrelsunarrannsóknir hafa þann tilgang að afhjúpa kúgun karla. Kvenfrelsunarbarátta felst í því að frelsa konur undan þessu oki, fækka körlum og/eða kvengera, gera þá valdalausa.

Nýjasta dæmið um þetta er frelsun kvennemenda í íslenskum framhaldsskólum. Barnamálaráðherra og skólastjórnendur Menntaskólans við Hamrahlíð hafa þó beðist afsökunar á kúguninni.

Fræðslumyndbandið má sjá hér.

Skildu eftir skilaboð