Er kerfið að loka sjálft sig úti?

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Í áríðandi pistli Ásgeirs Ingvarssonar, Gættu að því sem þú segir (á bak við innskráningarvegg, ekki áskriftarvegg), er að finna eftirfarandi lokaorð:

Líkt og René Gim­p­el kenndi ensku í fanga­búðunum ættu þeir, sem hafa áhyggj­ur af því hvaða stefnu heim­ur­inn virðist vera að taka, að kenna fólk­inu í kring­um sig að sýsla með raf­mynt­ir og nýta þá tækni sem er í boði til að sniðganga valda­mikið fólk og fyr­ir­tæki sem freista þess að sverfa að frelsi al­menn­ings.

Innblástur Ásgeirs er nýleg hótun PayPal um að sekta notendur sína fyrir skoðanir þeirra - hótun sem var dregin til baka undir því yfirskyni að um mistök hafi verið að ræða. Um þetta má lesa víða, t.d. hér (frettin.is) og hér (brownstone.org).

Lokaorð Ásgeirs fengu mig til að hugsa. Nú þénum við peninga, og þeir enda á svokallaðri bankabók. Svo virðist sem aðgengi yfirvalda sé nokkuð gott að þessum peningum. Þá má frysta, hirða og rýra með verðbólgu. Upphaflega var slíkt aðgengi réttlætt með tilvísun til hryðjuverkasamtaka, fíkniefnasala og landráðamanna en þau mörk eru óðum að víkka. Núna ná þau í raun til þín - löghlýðins skattgreiðenda sem gerir ekki flugu mein. Þér gætti dottið i hug að telja kynin bara vera tvö (en mögulega örlítið brotabrot fólks kannski vera á mörkum þeirra), sprautur óþarfar og jafnvel hættulegar, átök í Úkraínu vera staðbundið vandamál og líkama þinn vera þína eign. Afleiðingin? Mögulega sú að þú ert svipt(ur) eigum, lífsviðurværi, mannorði, vinum og sparnaði.

Fyrir skoðanir þínar.

Ekki skoðanir sem snúast um að vilja eyða, meiða, drepa og limlesta.

Nei, bara ósköp venjulegar skoðanir.

Hvað er til ráða í slíku umhverfi?

Safna Rolex-úrum? Kaupa rafmyntir? Gull? Platínu?

Þetta er spurning sem fer að verða nokkur áríðandi. Þú ert mögulega í rétta liðinu í dag en ekki endilega á morgun, og hvað þá? Kannski er ég í röngu liði í dag en enda í réttu á morgun, en er hægt að gera áætlanir byggðar á slíku?

Samfélagsmiðlar eru fyrir löngu búnir að tapa öllu trausti og valkostir við þá stóru komnir á lappir og smátt og smátt að stækka. En hvenær kemur að fjármálakerfinu? Fjölmiðlum almennt? Yfirvöldum?

Mögulega fyrr en síðar.

Sjáum hvað setur.

Skildu eftir skilaboð