ASÍ, Ísland hf. og veröld sem var

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, VerkalýðsmálLeave a Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

ASÍ er lamað vegna deilna. Alþýðusambandið er eini sameiginlegi vettvangur verkalýðsfélaga á almennum vinnumarkaði. Ástæðan fyrir upplausn ASÍ er öðrum þræði persónuleg, formenn með stórt egó en lítinn félagsþroska. Hinum þræðinum er skýringin samfélagsbreytingar.

ASí kom fram fyrir hönd launamanna á almenna vinnumarkaðnum gagnvart stjórnvöldum. Í tengslum við kjarasamninga, sem ASÍ gerir ekki heldur einstök verkalýðsfélög, voru sett þjóðfélagsleg markmið t.d. í húsnæðismálum og atvinnuleysi (ef um það var að ræða) og verðbólgu (þegar hún var og hét).

Þegar sól ASÍ reis hvað hæst, við þjóðarsáttina gegn verðbólgu fyrir rúmum 30 árum, var embætti forseta ASÍ ígildi ráðherraembættis hvað völd og áhrif í samfélaginu áhrærði. Á þessum tíma var hægt að tala um Ísland hf. og ASÍ var stór hluthafi.

Um aldamótin, í kjölfar EES-samningsins, tók staða ASÍ að veikjast og verkalýðshreyfingarinnar almennt. Ísland var orðið hluti af alþjóðlegum vinnumarkaði. Samningar voru gerðir hér á landi en starfsmannaleigur fluttu inn vinnuafl, einkum frá Austur-Evrópu, á kjörum sem tóku mið af upprunalandi.

ASÍ vildi verða hluti af alþjóðlegri þróun og tók upp stefnu Samfylkingar, ESB-aðild. Sambandið fórnaði pólitískum og menningarlegum trúverðugleika sem hafði byggst upp í nær öld. ESB-bröltið skóp fordæmi fyrir sértækri pólitík aðgerðasinna.

Síðustu árin er ASÍ orðið að þjónustustofnun verkalýðsfélaga. Stærstu verkalýðsfélögin, VR og Efling, komust í hendur róttæklinga er líta á hreyfingu launamanna sem pólitískt verkfæri sértækra hagsmuna.

Félagsauður verkalýðsfélaga hefur jafnt og þétt skroppið saman síðustu ár og áratugi. Félagsleg virkni er nálega engin. Róttæku aðgerðasinnarnir nýttu sér samfélagsmiðla að ná til um 5 til tíu prósent skráðra félagsmann. Það nægir til að ná stjórn á hálfdauðum félagseiningum. Ef eftirspurn væri eftir róttækni myndi félagsleg virkni aukast. Hún gerir það ekki.

Svarið við óvinveittri yfirtöku á verkalýðsfélögum hlýtur að vera að auðvelda launþegum að standa utan verkalýðsfélaga. Nánast skylduaðild að verkalýðsfélagi. Digrir félagssjóðir eru aðdráttarafl þeirra róttæku, sem bæði geta úthlutað bitlingum og stundað pólitík með ímyndarherferðum í fjölmiðlum. Með valkvæðri aðild yrði forysta félaganna knúin til að sinna félagsmönnum en ekki persónulegum metnaði til áhrifa og valda.

Verkalýðshreyfing í höndum aðgerðasinna þjónar ekki hagsmunum almennra launþega. Forystumenn VR og Eflingar geta ekki beitt sögulegum rökum fyrir nauðsyn stéttarfélaga. Sögulegur samnefnari verkalýðsbaráttu er ASÍ með sín hundrað ár og sex betur. Formenn Eflingar og VR eyðilögðu þá sögu í vikunni.

Skildu eftir skilaboð