Skipta skal um þjóð í landinu

frettinJón Magnússon, Pistlar, Stjórnmál2 Comments

Jón Magnússon skrifar:

Sumu fólki liggur á að skipta um þjóð í landinu.

Þeir sem þannig hugsa láta spurningu um framtíð íslenskrar tungu, íslenskrar menningar og sérkenna ekki þvælast fyrir sér. Allt er mælt á vog gróða og auðsköpunar í sumum tilvikum klætt í búning mannúðar. Allt skal gert til að dansinn í kringum gullkálfinn verði sem trylltastur. Þannig var það líka fyrir Hrun með þeim afleiðingum að íslenska ríkið þurfti að ala önn fyrir þúsundum atvinnulausra, sem pappírsbarónarnir höfðu flutt til landsins á tímum óráðssíunnar

Ekki er spurt að því hvort að íslenskir borgarar séu betur settir, þeim líði betur eða séu  öruggari með því að opna landamærin. Þjóðin er aldrei spurð.

Við tökum hlutfallslega við fleiri hælisleitendum en nokkur önnur þjóð og neyðarástandi hefur verið lýst yfir á landamærunum vegna vaxandi straums svonefndra hælisleitenda. Þetta hefur orðið til þess að opna augu ábyrgra aðila fyrir því að bregðast verður við og afnema íslenskar sérreglur sem beina straumi gerviflóttafólks til landsins oft fyrir tilstilli alþjóðlegra glæpasamtaka.

Staðreyndir um það óefni sem þessi mál eru komin í, valda þó ekki vökunum hjá fulltrúum þeirra sem vilja dansa sem hraðast og mest í kringum gullkálfinn.

Í grein Þorsteins Pálssonar í Fréttablaðinu í gær sem og í leiðara Fréttablaðsins í gær koma fram þau sjónarmið að skipta verði hratt og vel um þjóð í landinu þannig að við fáum fleiri vinnuþræla á lágmarkslaunum, sem mundu þá í leiðinni halda niðri launum í landinu. Að þeirra mati er það forsenda þess að gróðapungar fyllist alsælu og byggð haldist í landinu. 

Með þessu er verið að rugla umræðuna. Það er sitt hvort kerfið þeirra sem koma til að vinna og þar stendur landið opið fyrir meira en 500 milljónum manna á EES svæðinu. Allt annað á við um hælisleitendur. 

Staðreyndin er sú sbr. reynslu nágrannaþjóða, að sú klisja að það sé efnahagslega hagkvæmt, að fá innflytjendur á aðeins við um fámennan hóp velmenntaðra innflytjenda. Slíkar staðreyndir þvælast ekki fyrir hugmyndfræðingum Viðreisnar og formanni Allsherjarnefndar Alþingis. 

Raunar er merkilegt að það skuli vera jafnháværar raddir áhrifafólks úr nánast öllum stjórnmálaflokkum, sem keppast við að halda í sænsku leiðina í málefnum hælisleitenda eins og hún var á árum áður. Svíar hafa þó sjálfir viðurkennt,að sú leið hafi verið röng og skaðleg fyrir sænskt þjóðfélag og breytt reglunum. Svíar glíma þó í ríkum mæli við afleiðingar af þessari glórulausu stefnu sinni. Mörg samhliða þjóðfélög og hverfi eru þar sem lögregla eða sjúkraflutningafólk fer ekki inn í nema með vernd vopnaðrar lögreglu svo dæmi sé nefnt. Stórir hópar fólks hafa ekki aðlagast sænsku þjóðfélagi og svo illa hefur þjóðfélagið breyst í kjölfar þessa að flestar nauðganir í heiminum hlutfallslega eru í Svíþjóð.

Þannig þjóðfélag fáum við innan skamms ef ekki verður brugðist við og stefnu þeirra sem skipta vilja um þjóð í landinu hafnað.

Hvað svo sem líður ágreiningi um ýmis mál, þá má leiðrétta þau nánast öll síðar. Það verður hinsvegar aldrei leiðrétt, ef við missum tökin á straumi hælisleitenda inn í landið og það verður aldrei leiðrétt ef við glötum tungu okkar og menningu. 

2 Comments on “Skipta skal um þjóð í landinu”

  1. Auðvitað stefnir í óefni, því miður, en það er ekki hægt að rökræða af skynsemi við ´góða´ fólkið.

  2. Jón er vel gefinn raunsær maður en mælir upp í vindinn gegn fársjúku raunveruleika blindu fólki sem keppist við að sýna hvað það er yndislega gott og frábært að styðja það að hrúga hér inn alskonar misjöfnu fólki og kalla það fjarða skreyttum fallegum orðum kennt við fjölbreytileika meðan viðeigandi réttnefni væri Íslenskur harmleikur.

Skildu eftir skilaboð