Göbbels og Gróa á Glæpaleiti

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Siðanefnd Blaðamannafélags Íslands taldi fréttamann RÚV, Brynjólf Þór Guðmundsson, ekki brotlegan við þriðju grein siðareglna blaðamanna þegar hann staðhæfði í frétt að Arna McClure lögfræðingur Samherja væri meðlimur í

skæruliðadeild Samherja sem hafði sam­ræmt at­lögu að frétta­mönn­um sem fjölluðu um fram­göngu Sam­herja í Namib­íu og ásak­an­ir um lög­brot fyr­ir­tæk­is­ins og stjórn­enda þess.

Það er ekki og var ekki skæruliðadeild hjá Samherja til að gera blaðamönnum grikk. Arna og Páll skipstjóri Steingrímsson höfðu sín á milli talað um að þau væru í skæruhernaði gegn stjórnendum Samherja. Örn Arnarson blaðamaður á Viðskiptablaðinu ræddi ummælin í pistli:

Þegar þær afhjúpanir sem Kjarninn og Stundin birtu um málefni Samherja á sínum tíma eru skoðaðar ofan í kjölinn sést glögglega að á vegum Samherja var engin „skæruliðadeild“ rekin og fyrirtækið ekki hvetjandi til þess. Eins og sjá má af fréttaflutningi ofangreindra miðla kom hugtakið „skæruliðadeild“ fyrir í tveggja manna spjalli innanhússlögmanns Samherja og skipstjóra á forritinu Whatsapp því þeim fannst stjórnendur Samherja, stjórnarmenn í fyrirtækinu og utanaðkomandi ráðgjafar ekki gera nóg til að svara gagnrýni á fyrirtækið í fjölmiðlum.

Skæruliðadeildin gegn blaðamönnum er hugarfóstur Kjarnans og Stundarinnar. Brynjólfur Þór endurtók skáldskapinn í frétt á RÚV og það er tilefni kæru Örnu.

Þriðja grein siðareglna BÍ segir: „Blaðamaður vandar upplýsingaöflun sína, úrvinnslu og framsetningu svo sem kostur er og sýnir fyllstu tillitssemi í vandasömum málum. Hann forðast allt, sem valdið getur saklausu fólki, eða fólki sem á um sárt að binda, óþarfa sársauka eða vanvirðu.“

Frétt RÚV byggði á skáldskap Kjarnans og Stundarinnar. Það kallast ekki „vönduð upplýsingaöflun.“ Fréttir sem byggja ekki á heimildum eru slúður. Siðanefnd BÍ hefði, líkt og Örn Arnarson blaðamaður Viðskiptablaðsins, getað kynnt sér frumgögnin, þau sem komu úr síma Páls skipstjóra, og komist að hinu sanna, að frétt RÚV er slúður.

En hvað gerir siðanefnd BÍ. Jú, í úrskurði nefndarinnar segir þetta:

Um­rædd frétt fjall­ar um niður­stöðu Lands­rétt­ar og er for­saga máls­ins rak­in stutt­lega með vís­an í orðalag sem margoft hef­ur verið notað í op­in­berri umræðu. Fram­kom­in gögn styðja þann gild­is­dóm sem fram kem­ur í þeirri setn­ingu sem nefnd er í kær­unni. (Undirstrikun pv)

Gögnin styðja ekki fréttina. Úrskurður siðanefndarinnar er efnislega rangur, sannanlega. Skæruliðadeild Samherja gegn blaðamönnum var ekki til, það er tilbúningur, slúður. Gögnin sýna það svart á hvítu.

Lykilorðið í úrskurði siðanefndar er ,„margoft“. Ef slúðrið er endurtekið nógu oft verður það almannarómur og viðtekin sannindi. Göbbels og Gróa á Glæpaleiti fallast í faðma.

Fimmmenningarnir í siðanefnd BÍ starfa í sama anda og dómnefnd stéttafélagsins, sem verðlaunar glæpi.

BÍ er stéttafélag slúðurbera og sakborninga.

One Comment on “Göbbels og Gróa á Glæpaleiti”

  1. Þetta er áróðursgrein skæruliðadeildar Samherja númer ein skriljón og fimtíu og ein.

    Eru lesendur ekki að fá upp í kok af þessum endalausa áróðri sem þetta fyrirtæki spúir yfir landsmenn. Þeir hafa greinilega einsett sér að heilaþvo landann með endalausum áróðursgreinum eins og þessu kvaki hanns palla, sem er þynnra en léleg sápuópera. Í þessari grein er spunnið til að telja almenningi í trú um að skæruliðadeild samhejra sem stýrir þessum áróðri sem þessi grein er og Páll Vilhjálmsson tilheyrir sé ekki til. …. og klykkir svo út með að e3f slúðrir er endurtekið nægilega oft þá trúir fólk því … er það ekki einmitt það sem þú ert að vonast til með þessu flóði af greinum um ekki neitt?

    Hvar eru greinar þínar um siðleysi samherja og endalausa halarófu af glæpum þessa fyrirtækis í gegnum áratugi???

Skildu eftir skilaboð