Trú, synd og sannindi

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar, Stjórnmál, Umhverfismál1 Comment

Páll Vilhjálmsson skrifar:

Trú gerir ráð fyrir eilífðarsannindum, það er sjálfur grunnur trúarbragða. Önnur umræða er hversu vel eða illa menn fara með sannindin í eigin lífi og í samfélagi við aðra.

Annað sameiginlegt trúarbrögðum er syndin. Í heiðni reiddust goðin misgerðum manna. Í kristni refsaði guð fyrrum en fyrirgaf syndurum þegar nær dró samtíma okkar. Engin trú er án mennskrar túlkunar, það gefur augaleið.

Við lifum guðlausa tíma. Algild sannindi eru leifar fortíðar. Sumir segjast trúa á vísindin, aðrir á manninn. Þær trúarjátningar eru mótsögn. Maðurinn er brigðull. Gildir um allar afurðir mannsins, vísindin meðtalin. Þau eru alltaf með fyrirvara um stöðu núverandi þekkingar. Vísindaleg sannindi gærdagsins úreldast með nýrri vitneskju. Eða öllu heldur; nýjum kenningum.

Þar sem trúin var áður eru sannindi sem má kenna við umræðuna. Sannindi umræðunnar eru þær staðhæfingar um lífið og tilveruna sem njóta mestra vinsælda hverju sinni. Enginn einhlítur mælikvarði er á umræðusannindin. En þeir eru margir sem ota þar sínum tota.

Vinsælustu umræðusannindin eiga einatt syndina sameiginlega trúarbrögðum. Vinsæl umræðusannindi síðustu ára er að loftslag jarðar sé manngert. Þeir sem aðhyllast sjónarmiðið eru uppfullir af vandlætingu um syndir mannsins gagnvart loftslaginu. Fylgjendur hafa jafnvel komið sér upp frelsara. Sænskt stúlkubarn með fléttur minnir okkur á syndugt líferni höstugum rómi og boðar ragnarök sjáum við ekki að okkur.

Maðurinn hefur ríka þörf fyrir trú. Jesú bauð okkur himnaríki en Gréta helvíti. Það væri synd að segja það framfarir.

One Comment on “Trú, synd og sannindi”

  1. Guðleysingjar munu tortíma heiminum, við vitum öll hver er endastöðin ef við fylgjum þeim (þó svo að guðleysinginn telji sig á réttri vegferð).

Skildu eftir skilaboð