Þrjár leiðir til að túlka orkustöðvar

frettinGuðrún Bergmann, Heimspeki, Pistlar1 Comment

Guðrún Bergmann skrifar:

Hér á eftir fylgir þýðing á grein eftir son minn Guðjón Bergmann www.gudjonbergmann.com sem hann skrifaði inn á vefinn www.patheos.com. Mér fannst hún svo áhugaverð að ég bað um að fá að birta hana á vefsíðunni hjá mér.

ÓLÍKAR LEIÐIR TIL AÐ TÚLKA ORKUSTÖÐVARNAR

Með því að breyta því út frá hvaða sjónarhorni við horfum á orkustöðvar líkamans getur orðið veruleg breyting á túlkun þeirra. Ólíkt mörgum öðrum lít ég ekki á orkustöðvarnar sem raunverulegan hlut heldur frekar sem öflugt tákn eða árangursríka tilraun til að kortleggja manneskjuna. Það felur í sér hinn efnislega líkama, orkukerfi hans, fjóra þætti sálarlífsins og hinn andlega kjarna.

MISMUNANDI SJÓNARHORN

Hefð er fyrir því að horfa á orkustöðvarnar lóðrétt, frá rótarstöð og upp í höfuðstöð. Þótt það sé hefðin, eru tvær aðrar leiðir til að horfa á þær, annað hvort lárétt eða á hvolfi. Með því að skoða orkustöðvarnar frá mismunandi sjónarhornum, getur það breytt túlkun okkar á þeim og veitt okkur nýja innsýn.

Til að byrja með skoða ég fyrst upprunalegu lóðréttu túlkunina, síðan þá láréttu og loks þá sem er á hvolfi. Þar sem orkustöðvarnar eru táknrænar og ætlast er til að þær séu túlkaðar, hvet ég þig til að láta ekki útskýringar mínar duga. Kannaðu endilega hverjar þína eigin eru.

LÓÐRÉTT: FRÁ LÍKAMA TIL HUGA TIL ANDA

Hefðbundin lóðrétt framsetning á orkustöðvunum hefst með rótarstöðinni, fæðingu og næringu mannslíkamans. Önnur orkustöðin táknar kraftmikla orku líkamans. Þriðja, fjórða, fimmta og sjötta orkustöðin tákna þróun sjálfsmyndar, ástar og samskipta, tjáningar og vitsmuna. Sjöunda orkustöðin táknar andlegan kjarna sem hægt er að upphefja með því að þróa hann frekar.

Út frá þessu sjónarhorni hefst mannslífið með líkamanum og orkunni. Síðan þróum við sjálfsmynd okkar, hæfni okkar til að elska, hæfileika okkar til að tjá okkur á ýmsan hátt og vitsmunalega getu.

Með því að byrja neðst og fara upp á við fylgir ferlið flestum fyrirmyndum um mannlegan þroska. Líkaminn er undirstaðan, síðan þróast sálarlífið og svo, sé þess óskað, er andinn upphafinn (reyndar ekki í flestum sálfræðibókum, en nóg til að eftir því sé tekið).

LÁRÉTT: FRÁ HJARTA TIL LÍKAMA OG ANDA

Með því að breyta sjónarhorni okkar og horfa á orkustöðvarnar úr frá láréttum líkama, verður túlkunin allt önnur. Þá lít ég strax á fjórðu orkustöðina (hjartað) sem miðjuna. Tölulega séð er það líka skynsamlegt, því talan fjórir er miðtalan í sjö.

Með hjartað í miðjunni tekur mannlífið á sig nýja merkingu. Orka kærleika, samkenndar, góðvildar og fórnfýsi streymir í sitt hvora áttina að sjálfinu, orku, líkama og tjáningu, vitsmunum og anda. Í þessu samhengi virðist tilgangur lífsins vera að hlúa að öllu með hjartaorkunni. Kærleikurinn verður því aðalatriðið.

LÓÐRÉTT Á HVOLFI: FRÁ ANDA TIL HUGA TIL LÍKAMA

Með því að vitna í Pierre Teilhard de Chardin (þótt sumir reki þessa tilvitnun til G. I. Gurdjieff), var Wayne Dyer vanur að segja:

„Þú ert ekki manneskja að fara í gegnum andlega reynslu. Þú ert andleg vera að fara í gegnum mannlega reynslu.”

Með því að horfa á orkustöðvarnar á hvolfi eða ofan frá og niður markar sjöunda orkustöðin eða andlega stöðin upphafið en ekki það sem við leitum eftir að öðlast. Andinn er fræið sem allt annað sprettur út frá. Í jógaheimspeki er andinn kallaður orsakalíkaminn, það er að segja orsök alls annars.

Lífið fær því nýja merkingu þegar litið er á andann sem upphafið frekar en endinn. Lífið verður þá að tjáningu andans, því þegar allt kemur til alls er andinn upphafið. Án anda væri engin greind, tjáning, hjarta, sjálf, orka eða líkami.

HEIL HEIMSPEKI

Eins og þú sérð af þessari stuttu tilraun með að hugsa hlutina á annan máta, getur heil heimspeki sprottið út frá því einu að breyta því hvernig við horfum orkustöðvarnar.

Ein túlkunin lítur á líkamann sem grunnurinn að því að hægt sé að þroska andann. Önnur lítur á hjartað sem miðpunkt mannlegrar tilveru. Sú þriðja beinist svo að því að andinn sé upphaf alls.

Ég er viss um að ef þú leikur þér með þá hugmynd að skoða hlutina frá mismunandi sjónarhornum, geturðu fundið aðrar túlkanir á ýmsu og byggt upp heila lífsspeki í kringum þær.

BREYTT SJÓNARHORN

Í kvikmyndinni Dead Poets Society hvatti persónan sem Robin Williams lék, strákana til að standa uppi á borði til að sjá heiminn frá öðru sjónarhorni. Þetta virtist í fyrstu vera kjánaleg tilraun, en hún leiddi til djúpstæðra áhrifa.

Bæði hans æfing og mín eiga það sameiginlegt að hvetja fólk til að hugsa öðruvísi um hluti sem það telur sjálfgefið að hugsa alltaf eins um.

Með því að breyta sjónarhorni okkar öðlumst við skilning sem annars hefði verið okkur hulinn. Hvert nýtt sjónarhorn býr yfir sannleikakjarna sem eykur skilning okkar á heildinni.

Guðjón Bergmann
Rithöfundur, lífsþjálfi og núvitundarkennari

www.gudjonbergmann.com

One Comment on “Þrjár leiðir til að túlka orkustöðvar”

  1. Mæli með námskeiðum natha yogacenter til að læra um orkustöðvarnar. sjá natha.is

Skildu eftir skilaboð