Lyfjafræðingur hætti í lyfjameðferð við krabbameini og náði bata með Ketó mataræði

frettinHeilsan, Lyf1 Comment

Greinin birtist í Morgunblaðinu 9. maí 2022

Lyfjafræðingarnir Reynir Eyjólfsson og Böðvar Jónsson skrifuðu í vikunni grein í Morgunblaðið: „Er hægt að lækna krabbamein með mataræði?“

Böðvar hafði byrjað lyfjameðferð við illvígu krabbameini en hætti sökum erfiðra aukaverkana og tók þá ákvörðun að fara á „ketófæði“ og er í dag laus við krabbameinið.

Reynir og Böðvar velta því fyrir sér hvort hægt sé að lækna krabbamein með réttu mataræði.

Þeir segja að mörg ný krabbameinslyf hafi komið fram á síðustu árum en samt sem áður gangi baráttan við krabbamein illa. Tölur frá Bandaríkjunum benda til þess að dauðsföll af völdum krabbameina hafi staðið í stað undanfarinn áratug.

„Almennt er talið að krabbamein séu frumukjarnaerfðasjúkdómar (e.nuclear genetic diseases), þ.e. að þau stafi af breytingum á genum, sem stjórna því hvernig frumurnar í okkur starfa, einkum hvernig þær vaxa og skipta sér,“ segja Reynir og Böðvar en benda þó á að Thomas Seyfried, lífefnafræðingur og prófessor í líffræði við háskólann Boston College í Bandaríkjunum, telji á hinn bóginn að krabbamein séu svokallaðir hvatberaefnaskiptasjúkdómar (e. mitochondrial metabolic diseases).

„Grunnkenningin er sú, að krabbameinsfrumur séu sykurleysandi (glycolytic), þ.e. að þær noti meiri glúkósa (blóðsykur) en heilbrigðar frumur. Thomas telur því að með því að takmarka magn sykurs og kolvetna í fæðunni sé hægt að svelta krabbameinsfrumurnar í hel ef svo mætti að orði komast. Heilbrigðar frumur geta hins vegar umbreytt öðrum efnum í fæðunni, einkum fitu, í glúkósa sér til vaxtar og viðurværis. Þetta geta krabbafrumur ekki,“ segja lyfjafræðingarnir.

Þeir segja einnig að þótt Thomas og samstarfsmenn hans hafi fært fram gild rök fyrir kenningum sínum og tekist að halda illvígum krabbameinum í mönnum í skefjum hafi þessari nýlundu ekki verið tekið með fögnuðu hjá hinni hefðbundnu læknisfræði.

„Þar sitja menn fastir við sinn keip um að krabbamein séu erfðasjúkdómar eins og þeim var og er kennt í skóla og að Thomas fari með fleipur,“ segja þeir en þessi mataræðismeðferð, svokallað ketómataræði, hefur notið talsverðra vinsælda á undanförnum árum. Benda þeir á að hún sé einföld, ódýr og nánast aukaverkanalaus en krefjist vissulega staðfestu hjá sjúklingum.

„Hefðbundin krabbameinslyf hafa hins vegar öll miklar og erfiðar auka- og eiturverkanir eins og kunnugt er. Stundum er það svo, að lyfjameðferðin gerir út af við sjúklinginn en ekki meinið,“ segja þeir og bæta svo við að annar þeirra, Böðvar, hafi byrjað lyfjameðferð við illvígu krabbameini.

Vegna mjög erfiðra aukaverkana hætti Böðvar í meðferðinni og kaus að lækna sig með „ketófæði“.

„Það tókst og nú fjórum árum síðar eru engin merki um krabbamein í Böðvari. Hann segist fús til þess að liðsinna fólki ef svo ber undir.

Þegar öllu er á botninn hvolft erum það við sjálf sem berum ábyrgð á okkur og heilsu okkar,“ sögðu þeir að lokum.

One Comment on “Lyfjafræðingur hætti í lyfjameðferð við krabbameini og náði bata með Ketó mataræði”

  1. Lyfjaiðnaðurinn hefur engan áhuga á að styrkja rannsóknir á lækningu á krabbameini sem felur í sér mat! Þeir vilja selja sem mest af dýrum lyfjum. Ég vona að flestir notfæri sér þessar leiðbeiningar.

Skildu eftir skilaboð