Lygum hæfa laun ill

frettinJón Magnússon, PistlarLeave a Comment

Jón Magnússon skrifar:

Illt er að vinna hjá vanþakklátum vinnuveitanda. Enn verra ef vinnuveitandinn skipar þér til verka og skammar þig síðan fyrir að gera það sem fyrir þig er lagt. 

Hugsið ykkur starfsaðstöðu Útlendingastofnunar og lögreglu við að framfylgja lögum um útlendingamál. Lögin kveða á um ákveðna framkvæmd, sem ákveðin er af Alþingi og stjórnvöld skipa starfsfólki Útlendingastofnunar og lögreglu til verka í samræmi við lögin. Síðan kannast stjórnmálamennirnir ekki við neitt og fordæma jafnvel lögreglu fyrir að vinna þau verk sem þeir hafa sjálfir lagt fyrir hana að vinna. 

Forsætisráðherra harmar að lögregla skuli hafa farið að lögum og krefst rannsóknar og fjármálaráðherra og umhverfis- og orkumálaráðherra, sem báðir sækjast eftir formannsstöðu í Sjálfstæðisflokknum fara undan eins og hérar í málinu þegar um er spurt. 

Til stóð að flytja 28 ólöglega innflytjendur úr landi í gær, en 13 fundust ekki og eru því hér enn ólöglega. Áróðursmiðill opinna landamæra á Íslandi RÚV brást við með því með einhliða áróðursfréttum og torveldaði störf lögreglunnar og gerði þau tortryggileg. Útvarpsstjóri sem var lögreglustjóri ætti að hafa þá starfsskyldu að benda starfsfólki sínu á skyldu sína skv. lögum m.a. um hlutlægni í fréttaflutningi. En útvarpsstjóri virðist ekki hafa fundið sér neitt verkefni enn. Forveri hans las þó altént fréttir þannig að ekki var hann með öllu ónýtur.

Biskupinn yfir Íslandi þverar forsíðu Fréttablaðsins og biður um miskunn fyrir ólöglega innflytjendur, sem hefur þegar verið sýnd öll sú miskunn, sem útlendingalög kveða á um og þar er af miklu að taka enda hefur miskuninn þegar kostað skattgreiðendur hundruði milljóna hvað þessa ólöglegu innflytjendur eina varðar. Sjálf telur þessi biskup ekki neina ástæðu til að sýna öðrum þessvegan undirmönnum sínum neina miskun og hefur hamast við að gleyma dæmisögu Jesú um bersyndugu konuna. (Sá yðar sem syndlaus er o.s.frv.)

Loks geltir Viðreisnarþingmaðurinn fyrrverandi, sem var talinn út af þingi eftir síðustu kosningar í leiðara Fréttablaðsins og segir að við búum við "fjandsamlega stefnu í útlendingamálum" Maðurinn veit greinilega ekki að það er engin þjóð í Evrópu, sem hefur jafn vinsamleg lög hælisleitendum og við Íslendingar.

Stjórnmálaelítan og fréttaelítan ásamt Garminum í Gnipahelli í líki biskupsins yfir Íslandi eru annað hvort á harðahlaupum undan eigin ákvörðunum eða stefna að því væntanlega vísvitandi, að eyðileggja íslenskt velferðarkerfi, öryggi og velferð þessarar þjóðar með því að skipta um þjóð í landinu. Aumt er að sjá þetta lið allt í einni lest eins og Bólu Hjálmar orti á sínum tíma.

Eru virkilega ekki til stjórnmálamenn á Íslandi sem þora að stíga fram og taka upp baráttuna fyrir íslenska þjóð, menningu og gildi og standa vörð um að þessi auðæfi glatist ekki í þjóðarhafinu vegna skammsýni stjórnmálafólks, sem þorir ekki að standa við sannfæringu sína og eigin aðgerðir en varpar meintri sök á þá,sem skipað er til þeirra verka sem það sjálft hefur krafist af þeim.

Skildu eftir skilaboð