Bloggarinn og Namibíubókin: hótanir og aðgerðir

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar1 Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Mér var hótað í vor að drægi ég ekki tilbaka ummæli um tvo blaðamenn Kjarnans, og bæðist afsökunar á þeim, yrði mér stefnt fyrir dóm. Ekki dugði hótunin og því var mér stefnt í haust.

Í gær var tilkynnt, samkvæmt tengdri frétt, að málflutningur verði í febrúar. En það er önnur hótun, þriggja ára gömul, sem fékk athyglina.

Stórfrétt Stundarinnar er að fyrir þremur árum hafi bókaútgáfu verið hótað af Samherja málssókn ef útgáfan innkallaði ekki bók um Namibíumálið, sem innihélt staðlausa stafi. Aðrir fjölmiðlar taka málið upp. Þriggja ára frétt er bersýnilega veruleg tíðindi þegar það hentar í umræðunni.

Þórður Snær ritstjóri Kjarnans, sem stefnir bloggara fyrir að segja almælt tíðindi, gerir uppslátt úr frétt Stundarinnar. Á ritstjóranum er að skilja hótanir séu síðasta sort.

Samherjamenn höfðuðu aldrei mál. Þeir stefndu ekki bókaútgáfunni. Eina sem hefur gerst síðan í bókarmálinu er að Páll skipstjóri Steingrímsson skrifaði ritdóm í nokkrum færslum á fésbók og hrekur helstu staðhæfingar bókarinnar. Höfundar bókarinnar, blaðamenn RSK-miðla, hafa ekki sagt múkk um nýlegan ritdóm skipstjórans en þess meira um þriggja ára gamla hótun.

Hótun um málssókn er orð. Málssókn er aftur aðgerð. Þegar í húfi er tjáningarfrelsið skýtur skökku við að meint fórnarlömb, blaðamenn RSK-miðla, skulu grípa til aðgerða gegn frelsi manna að tjá sig. Blaðamenn segjast í orði kveðnu standa vörð um frjálsa miðlun upplýsinga. En þegar upplýsingar, blaðamönnum ekki hagfelldar, eru bornar á borð krefjast þeir miskabóta.

Samherjamenn beittu orðum, eins og siðaðra manna er háttur í lýðfrjálsu samfélagi. Blaðamenn RSK-miðla þola ekki umræðuna þegar hún er þeim mótdræg og grípa til aðgerða gegn málfrelsinu.

Samkvæmt RSK-miðlum er málfrelsið aðeins fyrir útvalda. Þeir sem voga sér að andmæla þeim fá hótanir. Dugi það ekki er lögmönnum sigað á þá sem ekki láta segjast. Verðlaunuðu fréttahetjurnar heimta inngrip dómstóla þegar hallar á þær í umræðunni.

One Comment on “Bloggarinn og Namibíubókin: hótanir og aðgerðir”

  1. ég var sjálfur að spá í að kæra greinarhöfund fyrir að vera leiðinlegur og síendurtaka sama Samherjaáróðurinn í síbylju.

    En hætti við þar sem einungis verst gefnu einstaklingarnir trúa því sem frá þessum penna kemur og ALLIR vita að hann er í liði með glæpamönnum Samherja og er áróðurspenni þeirra.

    Við lestur þessarar greinar varð ég hugsi yfir því hvaða orðum þessir sómamenn Samherja beittu, eins og er siðaðra manna háttur í lýðræðisþjóðfélagi, þegar þeir mútuðu ráðamönnum í Namibíu og buðu þeim í frí til íslands??

    Kanski að Palli leigupenni skrifi um það líka …

Skildu eftir skilaboð