Óritskoðanlegir miðlar

frettinGeir Ágústsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Geir Ágústsson:

Stóru samfélagsmiðlarnir eru ekki samfélagsmiðlar heldur miðlar með ritstjórnarstefnu. Þetta er orðið alveg ljóst. Þeir eyða, loka, fela og banna eins og þeim sýnist með tilvísun í óljósa skilmála en eru í raun bara að velja og hafna skoðunum, rétt eins og eitthvað flokksblað.

Gott og vel, þannig er það.

Hvað gera þeir þá sem eru á annarri skoðun en ritstjórar hinna lokuðu samfélagsmiðla svokölluðu? Jú, leita annað.

Mastodon er valkostur við stóru miðlana og mér sýnist hann vera þannig hannaður að það sé ekki hægt að ritskoða notendur þar. Frábært ef satt er!

Flestir þekkja núorðið Telegram en þar á bæ hafa menn virkilega lagt mikið á sig til að geta haldið miðlinum opnum og frjálsum:

Flestir þróunaraðilar Telegram koma upphaflega frá Sankti Pétursborg, borginni sem er fræg fyrir áður óþekktan fjölda mjög hæfra verkfræðinga. Telegram teymið þurfti að yfirgefa Rússland vegna staðbundinna upplýsingatæknireglugerða og hefur reynt fjölda staða fyrir bækistöð, þar á meðal Berlín, London og Singapúr. Við erum ánægð með Dubai eins og er, þó við séum tilbúin að flytja aftur ef staðbundnar reglur breytast.

Teymið að baki forritinu hefur með öðrum orðum flakkað á milli ríkja til að flýja þrúgandi skerðingar. Og við hin njótum fyrir vikið aðgengi að dulkóðuðum miðli sem virðir einkalíf okkar.

Annar miðill sem leggur mikla áherslu á friðhelgi einkalífsins er MeWe, en þar er meðal annarra hlaðvarpsstjórnandinn, rithöfundurinn og sagnfræðingurinn Tom Woods með sinn umræðuhóp.

Ég sakna alveg þess tíma þar sem bókstaflega allt og allir voru á fjésbókinni. Það bauð upp á mikil þægindi þegar kom að því að hafa yfirsýn, komast í samband við fólk og ræða fjölbreytta hluti. Þeir dagar eru liðnir og í staðinn sprottinn upp frumskógur af miðlum, hver og einn með sína styrkleika og veikleika.

Ef kötturinn þinn týnist er sennilega best að auglýsa eftir honum á fjésbókinni. Ef þú vilt ræða eitthvað af alvöru þá þarftu að fara annað.

Óumflýjanleg afleiðing ritskoðunar, vitaskuld. Eða héldu menn eitthvað annað?

Skildu eftir skilaboð