Öfgafull viðbrögð á Alþingi

frettinEldur Deville, Pistlar, StjórnmálLeave a Comment

Eldur Deville skrifar:

Samtökin 22 – Hagsmunasamtök Samkynhneigðra hafa verið aðeins í umræðunni undanfarna daga. Ég er talsmaður þessarar tiltölulega nýju grasrótarhreyfingar samkynhneigðra. Við erum hópur samkynhneigðra sem hefur haft áhyggjur af þeim breytingum sem hreyfingin okkar hefur tekið.

Í síðustu viku skiluðum við inn umsögn til Alþingis varðandi svokallað „bælingarmeðferðar“ frumvarp Hönnu Katrínar Friðriksson úr Viðreisn. Með henni flytja frumvarpið þingmenn úr öðrum stjórnmálaflokkum. Umsögnin okkar er á þann veg að við getum ekki stutt frumvarpið eins og það er lagt fram. Ástæðan fyrir því er einfaldlega sú, að frumvarpið fyrir það fyrsta er augljóslega ekki smíðað með þarfir samkynhneigðra að leiðarljósi – þó það sé neytendavænna að selja þingheimi það svoleiðis.

Frumvarpinu er ætlað að gera svokallaðar „bælingarmeðferðir“ er varða kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu fólks refsiverðar séu þær framkvæmdar með „nauðung, blekkingum eða hótunum“. Refsiramminn er 3 ár í fangelsi, en 5 ár ef á við barn yngra en 18 ára.

„Hver sem framkvæmir, hvetur með beinum eða óbeinum hætti til eða hefur þegið fé vegna meðferðar sem greinir í 1. mgr. skal sæta sektum eða fangelsi allt að 2 árum.“

Í greinargerðinni sem fylgir frumvarpinu er látið líta út eins og þessi lög sé smíðuð til þess að vernda samkynhneigða sérstaklega og ýmsar staðhæfingar án rökstuddra heimilda þar lagðar fram eins og t.d. sjálfsmorðstíðni og tíðni tilrauna til sjálfsvíga meðal samkynhneigðra.

Hanna Katrín sagði í framsöguræðu sinni er hún lagði frumvarpið fram að þetta væri glufa í hegningarlögunum sem þyrfti að loka. Það er einfaldlega rangt, því það er alltaf ólöglegt að beita blekkingum, hótunum og nauðung við fólk. Lögin eru einfaldlega þannig að þau vernda okkur öll – jafnt. Einnig vildi hún að málið fengi eins hraða meðferð og mögulegt væri. Þ.e. beint í nefnd, úr nefnd, umræða, lög. Svo mikill var æsingurinn að ekki var beðið um umsagnir við frumvarpið fyrr en EFTIR að umsögn okkar var skilað við lok umsagnarfrestsins.

Það var eftirtektarvert af þessi frumvörp byrjuðu að „dúkka upp“ á þjóðþingum Vesturlanda frá miðju síðasta ári og í byrjun þessa. Það er tiltölulega augljóst að um samstillt átak öfgasinnaðra transaktívista sé að ræða. Það er því augljóst að Hanna Katrín er að ganga erinda þess hóps. Hver og einn þarf ekki að leita víðar en á Twitter til þess að skoða samskipti hennar við þann hóp.

Í frumvarpinu er fjallað um að banna eigi að svokallaðar bælingarmeðferðir er varða kynhneigð, kynvitund og kyntjáningu. En hvað þýða þessi orð? Hvernig eru þau skilgreind í lögum? Hvað telst til blekkinga?

Samtökin 78 skilgreina t.d. 14 kynhneigðir og fleiri tuga kynja. Hvað er frumvarpinu eiginlega ætlað að banna?

Miðað við viðbrögðin við umsögn okkar hjá 22, og svo umsögnum fagaðila sem lýsa áhyggjum sínum, meðalhófs transaðgerðasinna eins og Buck Angel og svo t.d. frá Ritchie Herron sem var blekktur í kynleiðréttingarferli, þá er ljóst að markmiðið var ekki að hjálpa samkynhneigðum.

Það er okkar upplýsta skoðun að hér átti að greiða götur kynjafræðinga og transöfgasinna að gera ólögráða börn að lyfjaþrælum fyrir lífstíð.

Þetta eru hörð orð hugsa eflaust sumir. Við erum sammála því. Þetta eru hörð orð. Það er nokkuð augljóst að hérna eru hagsmunir ákveðinnar hugmyndafræði sett ofar hagsmunum barna og ungmenna. Viðbrögðin við umsögnunum eru svo harkaleg og öfgafull.

Þriðjudaginn 15. nóvember sagði framkvæmdastjóri Samtakanna 78 of varaþingmaður VG, Daníel E Arnarson eftirfarandi úr ræðustól Alþingis: „Haturssamtök gegn trans fólki hafa í fyrsta sinn skilað inn umsögn til fastanefndar Alþingis. Þar er tilveruréttur trans fólks ekki einungis dreginn í efa heldur er sagt beinum orðum að trans fólk sé hreinlega ekki til og samfélagið búi til trans fólk með ólöglegum skurðaðgerðum og lyfjanotkun. Allt saman hið mesta bull. Samtök tengd þeim samtökum sem um ræðir eru á lista erlendis yfir opinber haturssamtök og deila þar sæti með nýnasistum og öðrum öfgasamtökum.“

Ég hef margoft beðið Daníel að tala við okkur. Óháðir aðilar út í bæ hafa einnig boðist til að leyfa okkur að takast á í umræðum á opinberum vettvangi. Við erum einfaldlega hunsuð. Fjölbreytileiki skoðana er ekki eitthvað sem er á dagskrá hjá þessari „neo-religious“ hinsegin hreyfingu á Suðurgötunni, þó hún að mestu sé rekin með opinberu fé.

Ummælin sem Daníel lét falla hérna eru forkastanleg. Fyrir það fyrsta, þá eru þau röng. Fyrir það annað, þá er hann vanhæfur þar sem hagsmunaáreksturinn er augljós. Hann er eini launaði starfsmaður Samtakanna 78 í fullu starfi og það kemur ekki fram í hagsmunaskrá Alþingismanna. Þarna er þinghelginni misbeitt í algeru tilfinningauppnámi og í blindum neo-religous aktívisma sem rænir hann dómgreindinni.

Við vísum þessum ásökunum á bug og við hvetjum til umræðu. Ekki aðeins á meðal samkynhneigðra og transfólks. Heldur líka í samfélaginu öllu. Kynjafræðingar stálu hreyfingunni okkar og eru með hana í gíslingu.

Þess vegna erum við farin okkar eigin leið.

Höfundur er talsmaður Samtakanna 22 – Hagsmunasamtaka Samkynhneigðra

Skildu eftir skilaboð