Ímyndin um einn heim vestrænan

frettinPáll Vilhjálmsson, Pistlar2 Comments

Eftir Pál Vilhjálmsson:


Úkraínustríðið gerir margan meintan hernaðarandstæðing herskáan. Andrés Ingi Jónsson, fyrrum vinstri grænn og nú pírati, fullyrðir:

Afstaða að mér sýn­ist allr­ar Evr­ópu er mjög skýr; að þetta stríð Rússa gegn Úkraínu eigi ekki að líðast. Ég hef ekki heyrt einn ein­asta halda öðru fram, til dæm­is inni á Alþingi.

Vinstrimaður í eldri kantinum, þjóðháttafræðingurinn Árni Björnsson skrifar margtuggu um stríð og kemst að þessari niðurstöðu: ,„Pútín er lítið annað en handbendi nýríkra rússneskra auðjöfra sem ágirnast meðal annars auðlindir Úkraínu.“

Einu sinni, þegar Árni var ungur og Andrés ekki fæddur, héldu vinstrimenn á lofti valkostum við vestrænan kapítalisma. Valkostirnir áttu það sameiginlega stef að boða frið á jörðu, ásamt réttlæti og öðru fögru. Núna er stríðslystin öðrum kenndum yfirsterkari hjá vinstrimönnum.

Evrópskir vinstrimenn eru í dag í sambærilegri stöðu og þeir voru fyrir fyrra stríð. Í orði kveðnu hlynntir friði og fögrum heimi en láta auðveldlega sannfærast um að vopnuð átök séu betri en samningar.

Vestræni meginstraumurinn, bæði hægri- og vinstrimenn, er þjakaður af ímynd sem byggir á óskhyggju. Ímyndin er um einn heim vestrænan. Í grunninn er þetta 19. aldar hugmynd, sem nýlenduveldin þróuðu með sér.

Járntjaldið sem skipti Evrópu í kalda stríðinu féll 1989-1991. Í vissum skilningi var álfunni kippt aftur um hundrað ár, fyrir fyrri heimsstyrjöld og rússnesku byltinguna.

Í aðdraganda fyrra stríðs var Evrópa margpóla. Frakkland, Bretland, Þýskaland og Rússland gerðu öll stórveldistilkall, Austurríki-Ungverjaland og Ítalía einnig en af veikari mætti. Á þessum tíma voru Bandaríkin sofandi risi, skiptu sér ekki af utanríkispólitík gamla heimsins, nema að Evrópuríkjum var bannað að seilast til áhrifa í vesturheimi skv. Monroe-yfirlýsingunni 1823.

Drögin að Úkraínustríðinu voru lögð með einhliða útþenslu sigurvegara kalda stríðsins, Bandaríkjanna, ESB og Nató, inn í Austur-Evrópu sem hafði verið viðurkennt áhrifasvæði Sovétríkjanna/Rússlands eftir seinna stríð. Engin knýjandi nauðsyn var á vestrænni sókn í austur. En Rússland stóð vel til höggs.

Lengi vel létu Rússar breytt valdahlutföll yfir sig ganga. Eftir fall Sovétríkjanna var Rússland veikt og ekki í neinum færum að halda forræði Austur-Evrópu. Rússland var á hinn bóginn ekki það veikt og lítið að Bandaríkin/Nató/ESB gætu með góðu móti innbyrt landið með Eystrasaltsríkjunum, Póllandi og öðru sovésku erfðagóssi. Rússland var í senn of lítið og of stórt til að falla að vestrænni heimsmynd eftir kalda stríðið. En sigurvegararnir vildu sitt herfang, það er gömul saga og ný.

Annað tveggja hlaut að gerast í samskiptum vesturs og austurs. Í fyrsta lagi samningar milli aðila um gagnkvæma öryggishagsmuni. Vandinn við slíka samninga var, séð frá vestrænum sjónarhóli, að þeir lyftu Rússlandi upp í stöðu stórveldis er stæði jafnfætis Bandaríkjunum/Nató/ESB. Það væri ekki í samræmi við vestrænan sigur í kalda stríðinu.

Rússland er á hlutlægan mælikvarða stórt á evrópska vísu í þrennum skilningi: í landflæmi, íbúafjölda og fjölda kjarnorkuvopna. Þegar Norður-Ameríka og ESB eru lögð saman er tómt mál að tala um jafnræði. Rússlandi er stórt andspænis Evrópu en smátt í samburði við bandalagið yfir Atlantsála.

Í öðru lagi óvináttu með yfirgnæfandi líkum á stríði. Sú leið varð ofan á. Tímasetningin liggur fyrir. Á leiðtogafundi Nató-ríkjanna í Búkarest í Rúmeníu 3. apríl 2008 var gefin út sameiginleg yfirlýsing. Í 23. lið yfirlýsingarinnar segir:

Nató fagnar vilja Úkraínu og Georgíu til samstarfs þvert á Atlantshafið og aðildar að Nató. Við samþykkjum í dag að þessi ríki verði til framtíðar aðilar að Nató.

Rússar sögðu ítrekað að Nató-aðild Úkraínu og Georgíu ógnaði öryggishagsmunum Rússlands. Á landakorti er Úkraína eins og skammbyssa beint að Moskvu. Í beinu framhaldi af Búkarestfundinum, gera Rússar innrás í Georgíu, í ágúst 2008, sem er lítið land og auðunnið rússneskum herjum.

Úkraína er landmesta land Evrópu, utan Rússlands, og enginn hægðarleikur að sigra það, eins og raun hefur orðið á. Úkraína er t.d. 70% stærra en Þýskaland að landflæmi.

Ófriðurinn var aðeins glæður sumarið 2008 en blossaði upp í febrúar í ár. Í 14 ár var hægt að koma í veg fyrir stríð. Forsendan var að endurskoða Búkarest-yfirlýsinguna. Sigurvegarar kalda stríðsins töldu sig hafa öll ráð Rússa í hendi sér og gáfu ekki þumlung eftir. Vestrænu afarkostirnir voru tveir, stríð eða rússnesk uppgjöf.

Ímyndin um einn heim vestrænan eftir kalda stríðið var of sterk til að Bandaríkin/Nató/ESB stæðust mátið. Rússar hlutu, var viðkvæðið, að gefa eftir og selja bæði Úkraínu og í framhaldi eigið fullveldi undir vestrænt forræði. Ef ekki skyldu þeir komast að því fullkeyptu.

Tvenn mistök eru í þessum útreikningi. Seigla Rússa er meiri en búist var við. Þá var reiknað með að Kína yrði hlutlaus áhorfandi. Ráðamenn í Kína eru hvorki bernskir né elliærir. Þeir kunna sína sagnfræði. Eftir Rússland yrði Kína á vestræna matseðlinum. Með Kína sem bakhjarl tókst Rússum að fá stuðning frá stórríkjum utan vesturlanda s.s. Brasilíu og Indlandi og áttu vinum að fagna í Afríku.

Vestrinu mistókst að selja Úkraínustríðið heimsbyggðinni sem baráttu milli góðs og ills í anda kalda stríðsins. Það er stærsta ósagða fréttin sem mun líklega verða afdrifaríkari en stríðið sjálft.

Vígvöllurinn á sléttum Garðaríkis iðar af sprengjuregni og blóðsúthellingum. Eina sem (nánast) hægt er að slá föstu er að ekki verði um snöggan sigur að ræða, hvorki rússneskan né úkraínskan. Hægfara hernaður veitir svigrúm viðræðna, sem kannski leiða til friðarsamninga innan tíðar. Stórt kannski það.

Hvort sem stríðið fær niðurstöðu með afgerandi orustum eða með málamiðlun er ein ímynd sem ekki kemst ósködduð frá hildarleiknum; sú um einn heim vestrænan. Við búum í margpóla heimi, líkt og um aldamótin 1900. Stríðið í Garðaríki hefur þegar leitt fram þau sannindi, hvort sem Washington, Brussel, London, París og Berlín líkar það betur eða verr.

Sovétríkin, ólíkt flestum heimsveldum, voru friðsamlega bútuð í sundur fyrir 30 árum. Með þeim fyrirvara að yfirstandandi Úkraínustríð er bein afleiðing af sundurlimun heimskommúnismans. Í þessu ljósi má gera sér vonir að vestræn ríki horfist í augu við þann fyrirsjáanleika að heimurinn verður ekki vestrænn í bráð og temji sér meira hóf og minni hroka.

Vestræna verkefnið steytti á skeri á 21. öld í Afganistan, Írak, Líbýu, Sýrlandi og nú Úkraínu. Menn hljóta að sjá að það er fullreynt. 19du aldar hugmyndina um vestræna yfirburði þarf að endurskoða.

2 Comments on “Ímyndin um einn heim vestrænan”

  1. Stærsta vandamál íslenks samfélags er heilaþvottur, hann byrjar á vöggu aldri og heldur áfram í gegnum skólakerfið allveg þar til að það sé tryggt að einstrengishátturinn er endalega tryggður. Ég hef verið þeirra skoðunar að mentakefið sé einn versti þátturinn í því að tryggja einstregishátt og heimsku í vestrænum samfélögunum.
    Best dæmið er eitthvað sem er kallað stjórnmálafræði!
    Það á ekki að þurfa að kenna fólki að hafa skoðanir, stjórnmálafræði elur af sér menn eins og Hannes Hólmstein sem er ekkert annað enn Propaganda minister fasistana sem hefur verið á fullum launum í marga áratugi við vinna sömu vinnuna og Joseph Goebbels vann fyrir Þýskaland Hitlers. Ég er hræddur um að það muni taka marga áratugi að hreinsa þennan einstrengishátt út úr íslensku samfélagi. Meðan allur þingheimur gjammar í sömu áttina og málar Ísland við þessa stríðsglæpi í Úkraínu eru hlutirnir ekki að fara breytast. Það þarf rótæka byltingu til að hreinsa þessa óværu út úr íslensku samfélagi svona svipaða og var beitt í frönsku byltingunni 1789.

  2. Fyrir nokkrum árum síðan var mèr sagt að stríð væru bara bábilja sem væru bara ýkjur til að stela frá skattgreiðendum. Ég er farinn að halda aðþað sé mikið til í því. Covid kjaftæðið sannaði alla vega fyrir mér að meðalmaðurinn er ekkert annað en gunga, sem þorir ekki einu sinni að standa fyrir hagsmunum barnanna sinna, hvað þá að leggja líf sitt að veði fyrir eitthvað mun fjarlægara.

Skildu eftir skilaboð