Samtökin Málfrelsi boða til fyrsta félagsfundar 24. nóvember

frettinInnlendarLeave a Comment

Nýstofnað félag, Málfrelsi – samtök um frjálsa og opna umræðu, lýðræði og mannréttindi, boðar til fyrsta almenna félagsfundarins á Kringlukránni fimmtudaginn 24. nóvember kl. 20. Allt áhugafólk um tjáningarfrelsið og persónulegt frelsi er hvatt til að mæta. Hægt verður að skrá sig í félagið á staðnum. Fundurinn verður haldinn í sal inn af veitingastaðnum og boðið verður upp á léttar veitingar.
Dagskrá

1. Stutt kynning á félaginu.

2. Um málfrelsið og gildi þess.

Arnar Þór Jónsson lögmaður og varaþingmaður fjallar um ritskoðun og þöggun á Íslandi í kórónafaraldrinum.

3. Þá brugðust krosstré.

Sigríður Á. Andersen fyrrverandi þingmaður og ráðherra fjallar um lagaleg álitaefni og áskoranir í faraldrinum.

4. Kynning á nýjum vefmiðli félagsins.

Um félagið
Með upplýsingunni á 18. öld tóku samfélög Vesturlanda að þróast í nýja átt, þar sem frjáls og opin umræða, gagnrýnin hugsun og umburðarlyndi voru sett í öndvegi, ásamt hugmyndum um almenn mannréttindi. Þessar hugmyndir leggja grunn að frjálsu samfélagi þar sem áhersla er lögð á möguleika einstaklingsins til að þroskast og leita sannleikans á eigin forsendum.

Frjálst lýðræðissamfélag grundvallast á ákvörðunarvaldi hins hugsandi einstaklings sem efast. Frjáls rökræða er forsenda framþróunar í samfélagsmálum, vísindum og fræðum. Hún er grundvallarforsenda gagnrýninnar hugsunar, sem er aftur nauðsynleg forsenda virks lýðræðis. Gagnrýnin hugsun á nú mjög undir högg að sækja, þegar stjórnvöld og stórfyrirtæki hafa tekið höndum saman um að hefta opna umræðu og frjáls skoðanaskipti.

Þessi aðför að tjáningarfrelsinu hefur orðið sérstaklega áberandi síðan kórónuveirufaraldurinn hófst. Víðsvegar um heim hefur ítrekað verið þaggað niður í vísindamönnum sem gagnrýna stefnu yfirvalda. Upplýsingum er haldið leyndum, röngum eða villandi upplýsingum komið markvisst á framfæri og yfirvöld leitast við að hafa bein áhrif á umfjöllun fjölmiðla. Þetta bætist ofan á þá þöggun, af meiði pólitískrar rétthugsunar, sem þegar hefur fest rætur í vestrænum samfélögum.

Við tjáum okkur ekki aðeins í orðum, heldur einnig líkamlega, og tjáning grundvallast að miklu leyti á beinum samskiptum. Þau höft á eðlileg samskipti fólks sem fengið hafa að viðgangast að undanförnu fela því í sér harðari atlögu að tjáningarfrelsinu en áður hefur þekkst.

Þeim gildum og réttindum sem liggja til grundvallar frjálsu lýðræðissamfélagi ber ekki að taka sem sjálfsögðum. Andvaraleysi getur auðveldlega leitt til þess að þau glatist. Gleymum því ekki að formæður okkar og forfeður þurftu að berjast fyrir þeim réttindum sem við njótum nú. Mörg þeirra lögðu jafnvel líf sitt að veði.

Málfrelsi er stofnað í þeim tilgangi að standa vörð um opna og frjálsa umræðu og ákvörðunarvald hins hugsandi einstaklings sem efast; undirstöðu frjáls lýðræðissamfélags. Félagsmenn stuðla að vitundarvakningu og vekja fólk til umhugsunar með útgáfu, fundahöldum, greinaskrifum og þátttöku í samfélagsumræðu.

Skildu eftir skilaboð