Þöggun umræðu um Covid-19 – valdamönnum í Bandaríkjunum stefnt

frettinCOVID-19, Dómsmál, ErlentLeave a Comment

Í sumar kom það í fréttum vestanhafs að tvö fylki í Bandaríkjunum hefðu stefnt Jen Psaki, fréttaritara Hvíta hússins, Anthony Fauci og öðrum æðstu embættismönnum fyrir þær sakir að hafa þvingað stóru samskiptamiðlana til samvinnu með það að markmiði að ritskoða og þagga niður upplýsingar um fartölvuna hans Hunter Bidens, uppruna Covid-19 og um öryggismál póstkosninga í faraldrinum. Zuckerberg hefur viðurkennt að hafa látið draga úr streymi frétta af fartölvunni á Facebook eftir að hafa fengið heimsókn frá FBI og Twitter lokaði alveg á þær fréttir. Líklegt er að lygar 51 fyrrum starfsmanna leyniþjónustu Bandaríkjastjórnar um að fréttir af tölvunni væru Rússaáróður hafi þar haft áhrif. Svo virðist þó sem kóvidþátturinn hafi nú verið tekinn út fyrir sviga og nýverið mátti sjá lögfræðing New Civil Liberties Alliance, Jenin Younes, í viðtali við Ezra Levant á Rebel Media þar sem hún lýsir yfirstandandi aðgerðum.

Í stefnu sem var lögð fram í ágúst í ár segir að opinberar yfirlýsingar, og nýlega birt skjöl sýni fram á að forseti Bandaríkjanna og háttsettir embættismenn í stjórn Bidens hafi brotið gegn fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar með því að uppáleggja netmiðlunum að ritskoða þau sjónarmið sem ekki féllu að boðskap ríkisstjórnarinnar um Covid-19. Sú ritskoðun er sögð hafa falist í algjöru banni, tímabundnu banni og skuggabanni. Einnig var lokað á að menn gætu aflað sér tekna gegnum síður sínar, menn þvingaðir til að fjarlægja efni og viðvaranir voru settar upp til að minnka líkur á að menn nálguðust efnið, auk annars.

Skjólstæðingar Younes er fólk sem stóð á bak við Barrington yfirlýsinguna,  Jayanta Bhattacharya og Martin Kulldorff, auk Aaron Kheriaty og Jill Hines. Sú yfirlýsing var sett fram í upphafi faraldursins og gekk út á að vernda þá sem viðkvæmir væru fyrir sýkingu af völdum Covid-19 en láta annars faraldurinn ganga yfir eins og um venjulega flensu væri að ræða. Þeir eru ósáttir við að ríkisstjórnin hafi tekið sér vald til að ákveða hvaða raddir og hugmyndir megi heyrast og telja slíka forsjárhyggju klárt brot á því málfrelsi sem fyrsta viðauka stjórnarskrárinnar sé ætlað að tryggja.

Skýrsla um þöggun frá sjónarhóli lækna og vísindamanna

Það liggur enginn vafi á því að þeir vísindamenn og læknar sem höfðu skoðanir sem ekki fylgdu opinberri línu um Covid-19 voru beittir þöggun og birti Minerva, ársfjórðungsrit í félagsfræði, skýrslu um slíkt í nóvemberhefti sínu. Höfundarnir eru flestir búsettir í Ísrael en einn er frá Ástralíu. Um Barrington yfirlýsinguna segir í skýrslunni að Google hafi hamlað birtingu hennar, að Facebook hafi eytt síðu er hópur vísindamanna er tengdust henni settu upp, að You Tube hafi fjarlægt upptöku af opinberum fundi um Covid þar sem ríkisstjóri Flórída og höfundar yfirlýsingarinnar tóku til máls og að einn þeirra, prófessor Kulldorff, einn virtasti faraldsfræðingur heims, hafi sjálfur orðið fyrir ritskoðun á Twitter.

Vísað er í heimildir um að þessi víðtæka þöggun og ritskoðun hafi farið fram að hvatningu ríkisstjórna sem hafi unnið með fyrirtækjum eins og Facebook. Til dæmis er sagt að landlæknir BNA, Vivek Murthy, hafi fyrirskipað samskiptamiðlum á netinu að tilkynna „heilsutengdar rangfærslur" til alríkisstjórnarinnar og að standa sig betur við að fjarlægja þær. Í tölvupósti til Anthony Fauci frá haustinu 2020 kemur fram að Francis Collins, sem þá var yfirmaður Heilbrigðisstofnunar Bandaríkjanna (NIH) hafi unnið að því bak við tjöldin að skapa vantraust á Barrington yfirlýsingunni og baknaga höfunda hennar.

Fram kemur að helstu álitaefnin um Covid séu um uppruna sýkingarinnar (frá dýrum/ rannsóknastofu), grímunotkun (draga úr smiti/ eða ekki), snemmmeðferð með lyfjum s.s. Hydroxychloroquine og Ivermectin (gagnslaus og hættuleg/ virk og örugg), gagnsemi lokana og annarra takmarkana ( virkar og gagnlegar/ gagnslausar og skaðlegar), Covid-19 innstunguefnin (virk og örugg/ ótrygg og hættuleg) og Covid-19 skyldusprautanirnar og vegabréfin (nauðsynleg og siðfræðilega rétt/ skaðleg og siðfræðilega röng).

Þátttakendur í rannsókninni voru 11 sérgreinalæknar og 2 vísindamenn (áhættustjórnun og sálarfræði) frá ýmsum löndum. Þeir voru valdir af því að þeir voru þekktir að því að hafa sjálfstæðar skoðanir varðandi Kóvid-19. Í djúpviðtölum við þá kom fram að þeir hefðu verið beittir alls kyns ritskoðun og þöggun af hálfu fjölmiðla (þar á meðal meginstraumsmiðla, Google, Facebook, Twitter, Instagram, Linkedln og Tik Tok) auk heilbrigðiskerfisins. Aðferðir fjölmiðla fólust gjarnan í niðurlægjandi athugasemdum og stimplunum svo sem „anti-vaxxers" og „Covid deniers" og beittu þeir oft fyrir sig ónafngreindum „staðreyndatékkurum" eða öðrum læknum. Á netinu urðu menn fyrir því að lokað væri á þá og efni þeirra fjarlægt, stundum strax og þeir opnuðu nýja reikninga. Sumir sögðu frá því að fjölmiðlar hefðu ofsótt sig og svert nafn sitt með þeim afleiðingum að viðkomandi var ekki lengur vært á vinnustað sínum. Einnig sögðu sumir þeirra frá því að þeir hefðu sótt opinberri rannsókn og verið hótað með missi læknaleyfis. Sumir urðu fyrir því að birtar greinar þeirra væru dregnar til baka eftir birtingu í vísindatímaritum eða fengjust ekki birtar, aðrir voru útilokaðir frá embættum og nefndum.

Þeir sem talað var við sögðu að þöggunin og ritskoðunin sem þeir urðu fyrir gerðu þá enn ákveðnari í að berjast fyrir rétti sínum til að tjá sig, bæði vegna málfrelsissjónarmiða og sakir umhyggju fyrir heilsu almennings. Sumir brugðust við ritskoðuninni með því að opna leynilega aðganga á Telegram eða nafnlausa  aðganga á Twitter svo þeir gætu haldið áfram að tjá sig. Einn viðmælandi segir að mikið sé talað um að koma á fót tímariti ... Tess Lawry hafi stofnað The World Council for Health ...  Mikið sé talað um nýtt heilbrigðiskerfi, fólk vilji fara á spítala þar sem læknarnir séu læknar en ekki þjónar spillts kerfis, kannski muni skapast nýr heimur ...

Skildu eftir skilaboð