Þjóðin hefur ekki fært embættismönnum valdið til eignar

frettinArnar Þór Jónsson, Pistlar2 Comments

Eftir Arnar Þór Jónsson lögmann:

Eftirfarandi línur eru ekki skrifaðar til að fjalla um það hvernig veirurannsóknarstofa í Wuhan var fjármögnuð með bandarískum skattpeningum eða hvernig stærstu hluthafar alþjóðlegra lyfjafyrirtækja hafa árum saman unnið með stjórnmálamönnum, hernaðaryfirvöldum, fjölmiðlum og alþjóðastofnunum að samræmdum viðbragðsáætlunum á sviði sóttvarna, sem í framkvæmd brjóta þvert gegn stjórnarskrárákvæðum og lýðræðishefðum. Þessi grein er ekki skrifuð til að fjalla um hvort Sars-Cov2 veiran eigi rót að rekja til fyrrnefndrar rannsóknarstofu eða hvernig hún gæti hafa sloppið þaðan út. Þegar þetta er ritað hafa þó hrannast upp gögn sem renna stoðum undir að veiran eigi sér manngerða rót. Ef rétt er, bæri að rannsaka það sem eitt stærsta sakamál allra tíma.

Nei, þessar línur eru ritaðar til að draga athygli lesenda að því hvernig eftirlitsstofnanir á sviði fjölmiðlunar, lyfja- og heilbrigðisvísinda hafa brugðist í þeim stjórnarfarslegu, heilsufarslegu og efnahagslegu óförum sem Íslendingar, eins og raunar aðrar vestrænar þjóðir, hafa orðið fyrir á síðustu misserum. Vísbendingar er komnar fram sem bera með sér að lykilstofnanir og fagstéttir hafi kiknað undan lagalegu hlutverki sínu, brotið gegn frumskyldum siðareglna, brugðist eftirlitsskyldum sínum í þágu almennings og unnið gegn því sem telja má helgustu verndarhagsmuni sérhvers siðaðs samfélags. Ein alvarlegasta hlið þessara mála lýtur að því hvernig velferð og heilsu barnanna okkar hefur á síðustu 12 mánuðum, að nauðsynjalausu, verið teflt í voða af hálfu lækna og sérfræðinga sem starfa undir merkjum Lyfjastofnunar, landlæknis og heilbrigðisráðuneytisins. Sérstaklega umhugsunarvert er hvernig á því stóð að Lyfjastofnun leyfði, þrátt fyrir blikkandi viðvörunarljós, notkun nýrra og lítt rannsakaðra sprautulyfja gegn 5-11 ára börnum. Þetta gerði Lyfjastofnun þrátt fyrir að hafa móttekið upplýsingar sem sýndu að börnum á þessum aldri stafaði engin hætta af kórónaveirunni og þrátt fyrir að stöðugt yrði betur ljóst að áhættan af notkun sprautulyfjanna væri meiri en áhætta barnanna af veirunni sjálfri. Samkvæmt opinberri tölfræði frá sóttvarnastofnun Bandaríkjanna (CDC) er dánartíðni af völdum veirunnar nánast engin í yngri aldurshópum. Næstum öll Covid-19 andlát meðal barna og ungs fólks voru meðal einstaklinga sem þjáðust af fjölþættum og krónískum heilsuvanda svo sem offitu, sykursýki, hjarta- eða nýrnavanda. Raunar á hið sama við um eldri aldurshópa: Nánast öll Covid-19 andlát voru meðal þeirra sem voru með fjölþættan, undirliggjandi og ólæknandi heilsuvanda. Eins og yfirvöldum var bent á í ársbyrjun 2022 komu bóluefnin ekki í veg fyrir smit og þjónuðu því engum tilgangi nema, í besta falli, sem persónuleg vörn. Lyfin gerðu þó börnum ekkert gagn þar sem þau voru, eins og fyrr segir, aldrei í neinni hættu vegna Covid-19.

Þegar rykið sest mun koma í ljós að fjölmiðlar (og samfélagsmiðlar) voru notaðir sem vettvangur áróðurs og ritskoðunar í þeim tilgangi að fá almenning til að samþykkja þrúgandi valdboð stjórnvalda. Með því að líkja kórónaveirunni við innrásarher tókst að fá almenning til að trúa því að lyf sem framleidd voru í flýti og fengið höfðu takmarkaðar prófanir, væru „örugg og árangursrík“ (e. safe and effective), jafnvel þótt framleiðendur væru undanþegnir ábyrgð. Fjölmiðlar og ríkisstofnanir viku sér undan samfélagslegu hlutverki sínu, en gerðust þess í stað hluti af hnattvæddu tækniveldi þar sem alþjóðleg risafyrirtæki, yfirþjóðlegar stofnanir og hernaðarsérfræðingar stýra þróun í átt til miðstýrðs valdboðs. Í þessu umhverfi vex ólýðræðislegum öflum fiskur um hrygg, samhliða því sem stjórnarskrárákvæði eru vanvirt með nýju og kæfandi regluverki, opinberu eftirliti, ferðatakmörkunum, skertu málfrelsi o.fl. þar sem allt verður að lokum háð opinberum leyfum.

Alvarleiki þess sem hér hefur gerst er slíkur að krefjandi nauðsyn ber til að rannsaka aðdragandann, ákvarðanir sem teknar voru og hvar ábyrgðin kann að liggja. Velta verður við hverjum einasta steini í því ferli sem hér um ræðir til að afstýra því að íslensk stjórnvöld og sérfræðingar bregðist réttum umbjóðendum sínum, þ.e. íslenskum almenningi. Íslenskt embættisvald á að svara til ábyrgðar gagnvart þeim sem landið byggja. Því er það algjör öfugþróun að gera þá menn að hetjum sem sýna í verki að þeir hafi, gagnrýnislaust og án nokkurrar sjálfstæðrar hugsunar eða sjálfstæðs viðnáms, ofurselt sig valdi alþjóðlegra stofnana og yfirþjóðlegs valds. Stjórnarskrá okkar leyfir ekki slíkt framsal valds og ábyrgðar.

Stofnanir og embættismenn sem bregðast hlutverki sínu gera meira ógagn en gagn. Sérfræðingar sem reynast ekki hafa staðið undir kröfum sem til þeirra eru gerðar að lögum verða að gera grein fyrir athöfnum sínum og ákvörðunum. Sérþekkingu og eftirlitshlutverki fylgir ekki aðeins vald, heldur einnig lagaleg, fagleg, siðferðileg og samfélagsleg ábyrgð. Þegar menn ganga inn í hlutverk fagstéttar eða taka að sér opinber embætti þá axla þeir hinir sömu um leið ríkar samfélagslegar skyldur. Traust má ekki misnota. Auðveldara er að glata trúverðugleika en vinna hann aftur. Bregðist menn þessum skyldum, t.d. með því að nýta valdið í þágu sérhagsmuna, ber að leiðrétta það án tafar. Ef Alþingismenn, kjörnir fulltrúar þjóðarinnar, kalla ekki eftir heiðarlegu uppgjöri verður almenningur að vakna af doða og taka virka ábyrgð á því að viðhalda lýðræði og lýðfrelsi á Íslandi.

Greinin birtist fyrst á vefnum Krössgötur 11. des. 2022.

2 Comments on “Þjóðin hefur ekki fært embættismönnum valdið til eignar”

  1. Takk fyrir fín skrif og þína þrautseygju Arnar Þór Jónsson, það er alveg ótrúlegt að þeir sem áttu hér hlut að máli skuli ekki tjá sig neitt, það heyrist ekki múkk í liðinu….

  2. Stundum held ég að fólk sé lítið annað en sofandi sauðir!

Skildu eftir skilaboð