Samherjamenn blekktir í Namibíu

frettinPáll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Saksóknari í Namibíu ákærir embættismenn og samverkamenn þeirra þar í landi fyrir að hafa í auðgunarskyni blekkt Egil Árnason starfsmann Samherja að greiða 9 milljónir namibískra dollara inn á einkareikning til að kaupa veiðiréttindi í fiskveiðilögsögu Namibíu.

Ákærða, Mike Nghipuny, forstjóra FISHCOR, er gefið að sök að hafa vélað Egil 19. ágúst 2019 til að greiða 9 milljónir namibískra dollara inn á reikning undir því yfirskini að fjárhæðin færi til uppbyggingar fiskeldis.

FISHCOR er opinber stofnun sem m.a. hefur það hlutverk að tryggja að sala á veiðiheimildum nýtist til uppbyggingar namibísku samfélagi. Forstjórinn, Mike Nghipuny, hafi í samstarfi við meðákærðum innheimt fjármuni í nafni namibískra stjórnvalda til persónulegs ávinnings.

Egill Árnason tók að sér umsjón með rekstri Samherja árið 2016 eftir að Jóhannes Stefánsson, síðar uppljóstrari, var rekinn. Jóhannes gerði upphaflegu samningana um kaup á veiðiheimildum.

Samningar um veiðiheimildir fólu sér ýmsar kvaðir kaupenda að leggja fram fjármagn til samfélagslegrar uppbyggingar í Namibíu. Erlendar útgerðir, m.a. Samherji, keyptu veiðiheimildir undir þessum formerkjum. Allt var þetta samkvæmt gildandi lögum í landinu. En peningarnir skiluðu sér ekki þangað sem þeir áttu að fara.

Níu Namibíumenn eru ákærðir fyrir umboðssvik, þjófnað og auðgunarbrot í tengslum við sölu á veiðiheimildum. Þá eru 11 lögaðilar ákærðir, skúffufyrirtæki sem níumenningarnir notuðu til að hylja brotin. Ákæruliðirnir eru samtals 28. Samherji er aðeins einn nokkurra aðila sem sakborningar blekktu til persónulegs ávinnings.

Með stöðu sinni í stjórnkerfinu blekktu þeir ákærðu kaupendur veiðiheimilda, m.a. Samherja, til að halda að viðskiptin væru lögleg.

Meginefni ákærunnar er að níumenningarnir hafi með stöðu sinni í stjórnsýslunni nýtt sér namibíska löggjöf um úthlutun veiðiheimilda til að auðgast persónulega. Fyrrum sjávarútvegsráðherra Namibíu og ríkislögmaður eru meðal sakborninga. Á 5 ára tímabili, 2014 til 2019, var úthlutað veiðiheimildum upp á 474 þúsund tonn af hrossamakríl til FISHCOR.

Öðrum þræði er ákærunni beint að namibískum lögum, sem gerðu ráð fyrir að veiðiheimildir FISHCOR yrðu seldar til að fjármagna pólitísk markmið, t.d. um uppbyggingu innviða, fátækrahjálp og velferð fyrrum hermanna.

Ákæruskjalið, samtals 93 blaðsíður, sýnir allt aðra mynd af atburðarásinni í Namibíu en dregin hefur verið upp af Jóhannesi uppljóstrara og RSK-miðlum, þ.e. RÚV, Stundinni og Kjarnanum.

RÚV heldur því fram að Egill Árnason hafi, ásamt tveim öðrum Íslendingum, verið ákærður í Namibíu. Það er rangt, enginn Íslendingur er ákærður í Namibíu.

Höfuðsök Samherja er að hafa ráðið Jóhannes Stefánsson til að stýra Namibíu-verkefninu. Ótrúr þjónn gerði bandalag við RSK-miðla að sverta mannorð saklausra manna og eyðileggja orðspor Samherja. Það er Namibíumálið í hnotskurn, séð frá íslensku sjónarhorni.

Skildu eftir skilaboð