Orkukreppan í ESB: Írar kynda á ný með mó

Erna Ýr ÖldudóttirErlent, Erna Ýr Öldudóttir, Loftslagsmál, Orkumál, UmhverfismálLeave a Comment

Orkukreppa í Evrópusambandinu samfara miklum kulda hefur orðið til þess að á Írlandi er farið að kynda aftur með mó. Frá því sagði breska blaðið The Guardian

Þar með séu nýlegar áætlanir um vernd mósvæða og mýra hugsanlega farnar út um þúfur á Írlandi. Kynding með mó kosti meðalheimili um það bil 500 evrur árlega, á meðan að kynding með endurnýjanlegum orkugjöfum hlaupi á mörgum þúsundum. Mókynding hafði áður ekki aflagst með öllu á Írlandi, en um 4% heimila kyntu enn eingöngu með mó og 14% að hluta.

„Eins og að eiga olíulind í bakgarðinum“

„Fólk er ánægt með að hafa mó. Þetta er eins og að eiga olíulind í bakgarðinum,“ er haft eftir Michael Fitzmaurice, óháðum þingmanni og formanni Samtaka móskurðarmanna. Að meðaltali eyði heimili sem notar mó 10 til 12 tonnum á ári, sagði hann og bætti við: „Þetta er orkuöryggi“. Hann mat það sem svo að móstaflar hafi vaxið um 30-200% í dreifðum byggðum landsins frá í vor.

Til viðbótar hafa Evrópubúar á borð við Þjóðverja snúið sér í auknum mæli að kyndingu með föstu eldsneyti. Eigendur nytjaskóga þarlendis selja nú eldivið sem aldrei fyrr og þjófnaður á honum auk byggingarefnis hefur margfaldast. Í einu tilfellli höfðu þjófar hoggið og tekið með sér heil 100 tré. Sótarar greindu þar einnig frá aukinni eftirspurn við að hreinsa skorsteina.

Mókynding er eitthvað sem einstaka fullorðinn Íslendingur gæti enn munað eftir. Kynt var með mó fram eftir öldum á Íslandi, áður en íslenskur útflutningur gat staðið undir innflutningi á eldsneyti og áður en búið var að leggja vatnshitaveitu.

Mókynding þykir hvorki heilsusamleg né umhverfisvæn leið til að kynda í dag.

Skildu eftir skilaboð