(R)SK-miðlar skipta um kennitölu

frettinFjölmiðlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson kennara og blaðamann:

Stundin og Kjarninn eru við að sameinast segir RÚV, sem er óformlegt móðurfélag hinna tveggja í RSK-bandalaginu. Helsta frægðarverk RSK-miðla er að eiga aðild að byrlun Páls skipstjóra Steingrímssonar og stuldi á síma hans. Ólíkt RÚV eru dótturmiðlarnir ekki á fjárlögum en fá engu að síður styrki úr ríkissjóði. Vinstrimenn kunna aftur betur að eyða en afla.

Sigurður Már Jónsson gerði ítarlega grein fyrir tilgangi Kjarnans í tímaritsgrein. Miðillinn var stofnaður til að samfylkja vinstrimönnum. Peningamenn úr Samfylkingunni, Vilhjálmur Þorsteinsson og Ágúst Ólafur þar á meðal, en þeir voru um tíma gjaldkeri og varaformaður flokksins. Vilhjálmur geymdi peningana sína í aflandssjóðum og rak Kjarnann í eigin skrifstofu. Slóttugt að koma aflandsfé í löglegan en siðlausan rekstur.

Samfellt tap er á rekstri Kjarnans allt frá stofnun fyrir tæpum áratug. Markmiðið var aldrei fjárhagsleg afkoma heldur dagskrárvald í umræðunni. Tiltrú og traust eru þar lykilatriði. Þórður Snær ritstjóri og Arnar Þór blaðamaður eru sakborningar í glæprannsókn lögreglu á byrlun og gagnastuldi. Ekki beinlínis traustvekjandi pappírar, félagarnir.

Í gær var Þórður Snær mættur í settið hjá móðurfélaginu sem álitsgjafi i Kastljósþætti. Þar sat hann eins og skoðanalaus kartöflusekkur en játaði í lokin að samruni dótturfélaganna væri í bígerð. Þóra Arnórs meðsakborningur var hvergi sjáanleg. Hún leikstýrir og skipar til verka í RSK-samstarfinu á bakvið tjöldin, samkvæmt lögregluskýrslum.

Stundin er væng á pírata í pólitík og leggur sig eftir woke-umræðunni, einkum neðanbeltismálum. Stundin er tveim árum yngri en Kjarninn, stofnuð 2015. Helstu eigendur eru hjónin Ingibjörg Dögg og Jón Trausti. Þau keyptu sér veglega fasteign á Seltjarnarnesi eftir vel heppnaða hópfjármögnun útgáfunnar. Stundin státar einnig af sakborningi í byrlunar- og gagnastuldsmálinu, Aðalsteini Kjartanssyni, sem er bróðir Ingibjargar Daggar. Fjölmiðlun og fjölskyldubönd hanga saman þegar almenningi er talin trú um að hvítt sé svart. Þá tekur útgáfan við flóttamönnum af Glæpaleiti, hýsir verðlaunagripinn Helga Seljan sem les dómsskjöl á skapandi háttá milli þess að hann lýsir sig ofsóttasta blaðamanninn norðan Alpafjalla.

Eftir áramót verða birtar ákærur í byrlunar- og gagnastuldsmálinu. Þá verða kennitölur Stundarinnar og Kjarnans endurnýjaðar ef að líkum lætur. Sá möguleiki er einnig fyrir hendi að Stundin yfirtaki Kjarnann og nýti skattalegt tap. Vilhjálmur aflandsmaður sér lítinn tilgang að púkka undir miðil brennimerktan sakamálarannsókn. Dagskrárvald siðferðislegra mínusvaríanta er ekki upp á marga fiska.

Hér er á ferðinni þekkt uppskrift vinstrimanna. Þegar á móti blæs er gamla góssinu fargað, hvort heldur flokkum eða fjölmiðlum. Fyrri iðju, blekkingum og skrumskælingu veruleikans, ásamt glæpum í seinni tíð, er haldið áfram af sama liðinu en undir nýju heiti og oft á annarri kennitölu.

Skildu eftir skilaboð