Falsfrétt RÚV um Namibíumálið

frettinInnlent, Páll Vilhjálmsson, PistlarLeave a Comment

Eftir Pál Vilhjálmsson:

Enginn Íslendingur eða íslensk fyrirtæki eru ákærð í Namibíu. Í eina dómsmálinu þar í landi, þar sem Samherji kemur við sögu, er fyrirtækið brotaþoli, eins og greint hefur verið frá. Samt birtir RÚV frétt í gær þar sem fyrsta efnisgrein meginmáls er þessi:

Bernhardt Esau, fyrrverandi sjávarútvegsráðherra Namibíu, segist ætla að ljóstra einhverju stórfenglegu upp þegar réttarhöld í máli hans verða tekin upp að nýju á næsta ári. Esau er einn sakborninga vegna meintrar mútuþægni og spillingar í tengslum við veiðiheimildir sem Samherji fékk (undirstrikun pv) þegar fyrirtækið var með starfsemi í Namibíu.

Mútur koma ekki fyrir í ákæruskjalinu. Enska orðið er bribe og það er ekki nefnt. RÚV býr til mútur þar sem engar eru. Ástæðan er augljós. Ef einhver þiggur mútur er óhjákvæmilegt að einhver annar sé mútugjafi. RÚV vill að Samherji sé álitinn mútugjafi. Ríkifjölmiðillinn lýgur blákalt til að telja almenningi trú um að nú sé rekið dómsmál þar sem norðlenska útgerðin er sökuð um mútugjöf. Það er haugalygi.

Frétt RÚV frá í gær er framhald af nokkurra daga gamalli Stundarfrétt Helga Seljan, sem áður var fréttamaður RÚV. Tilfallandi athugasemd fjallaði um frétt Helga og sagði m.a.

Í Namibíumálinu, sem Helgi kallar auðvitað Samherjamálið, er Samherji brotaþoli. Starfsmaður Samherja var blekktur til að borga peninga sem áttu að fara í atvinnuuppbyggingu, fiskeldi. Peningunum var síðan stolið.

Þetta stendur skýrum stöfum í ákæruskjalinu á bls. 58-59. Þar er Mike Nghipunya, forstjóra FISHCOR, gefið að sök stuldur ,,by instructing a Mr. Arnason from Saga Seafood (Pty) them to pay an amount of approximately N$ 9 000 000 to procure fish feed for aquaculture projects and that this be financed through the allocation of a quota under governmental objectives..."

Starfsmaðurinn sem um ræðir, Egill Árnason, var í góðri trú þegar hann greiddi forstjóra opinberrar namibískrar stofnunar fyrir kvóta. Ekki gat Egill vitað að peningunum yrði stolið eftir að hann innti greiðslu af hendi.

Á bls. 58-59 í ákæruskjalinu er fjallað um 17. ákæru málsins er varðar spillingu og stuld. Sama greiðsla Egils Árnasonar kemur aftur fyrir í 20. ákæru á bls. 68 í ákæruskjali. Þar er ákært fyrir umboðssvik (Fraud). Hér er orðrétt tilvitnun í g-lið:

Accused 1 had instructed a M. Arnason from Saga Seafood (Pty) to pay an amount of approximately N$ 9 000 000 to procure fish feed for aquaculture and that this be financed through the allocation of a quota under governmental objectives.

Egill Árnason fékk fyrirmæli hvernig hann ætti að greiða fyrir kvóta frá yfirmanni stofnunar, Fishcor, sem bæði úthlutar og selur kvóta. Fyrirmælin eru samkvæmt opinberri stefnu namibískra stjórnvalda að sala á kvóta fari í opinber verkefni.

RÚV veit þetta. Í fréttinni í gær er vísað í namibíska heimild, Namibian Sun, en þar segir í niðurlagi að fjármagn af kvótasölu skyldi renna til svæða sem verða fyrir skakkaföllum s.s. náttúruhamförum. Fishcor rukkaði Samherja skv. namibískum lögum og reglum, en forstjóri Fishcor stal hluta af greiðslunni frá norðlensku útgerðinni.

Hvergi í ákæru er minnst á mútur, ekki heldur í Namibian Sun. RÚV lýgur blákalt til að koma höggi á Samherja. Er ekki næsta skref að sameina RÚV, Stundina og Kjarnann, RSK-miðla? Þá kæmust helstu falsfréttamenn landsins loksins í eina sæng. Rógur, Skömm og Klækir (RSK) yrði án efa fjölmiðill er teldist húsum hæfur í sumum kreðsum, t.d. hjá vinstrimönnum.

Skildu eftir skilaboð